léttfimmtug

miðvikudagur, september 01, 2004

227-228 oh svo þreytt

Mín er voða þreytt og teygð... og þvílíkur kuldi sem hefur sótt að mér undanfarnar tvær nætur. Greyið litla hefur þurft að sofa undir tveim sængum og ekki dugað til að halda á sér hita. Í den hefði maður sko hitað upp á sér holdið og innyfli með heitum kakóbolla, ristuðu brauði með miklu smjöri og hlunk af osti... einn bolli hefði ekki dugað til heldur heill lítri af "chocomelk" eins og ég fékk meðan ég bjó í Hollandi...
Ég andskotast þetta áfram í mínu fráhaldi þrátt fyrir allt sem gerist í lífi mínu.. kem heim eftir tólf tíma törn í vinnu og skóla. Leggst í það að elda mat fyrir kvöldið og hádegi næsta dags, tékka á póstinum í tölvunni og kíki svo í skólabækur og fæ vægt taugaáfall... MÉR TEKST ÞETTA EKKI!!! hrópar eitthvað innra með mér. Orðin snúast í hausnum á mér og ég fæ svona gargandi flóttatilfinningu, vil hlaupa í burtu frá öllu og öllum. Taka inn eina stóra, góða og róandi. Leggjast undir feld og fela mig á vald ljúfum draumum þar sem engir flóknir atburðarásir eiga sér sað. Þar sem heimurinn er sniðinn að mínum þörfum og draumur.
Svo vaknar maður aftur upp við matröð og man að lífið heldur áfram þrátt fyrir allt og að maður er eigin herra og skapari að eigin innri veröld.
Ég fékk þær fréttir í dag að yndislegur gamall vinur minn í Hollandi, maður rúmum 30 árum eldri en ég sem var minn sálufélagi bæði í þessu og fyrra lífi hefði látist... ég var bæði sorgmædd en um leið glöð því ég vissi að hann var alveg tilbúinn til að fara.. allavega sagði hann mér það fyrir tæpum tveimur mánuðum þegar hann hringdi í mig.
Nú get ég ekki lengur hvíslað í símtólið sorgir mínar og sigra með hann hinum megin við tólið - héðan í frá verð ég að beina orðum mínum til stjarnanna og biðja þær um að flytja honum hugsanir mínar og pælingar.
Elsku vinur, ég óska þér góðrar ferðar á nýju ferðalagi um himingeima og þakka þér fyrir að hafa hjálpað mér að kynnast mínum innri manni og læra að treysta þrátt fyrir ógnir og ótta... ég borða ekki þótt söknuður sé í hjarta mínu gamli vinur.
Ég dreg andann einn tveir þrír og gleymi mér í talningunni eins og sannur zen hugleiðandi... þá leið tamdir þú þér á gamals aldri.
Þessi aldraði vinur minn kenndi mér að aldrei er of seint að læra, að engin stöðnun er til í honum heimi... allt endurnýjar sig á ógnarhraða þó svo ber augu nemi það ekki.
Ég er þakklát fyrir hvert augnablik sem ég hugsa vel um mig því þá er ég öðrum meira virði.
Í dag borða ég ekki fyrsta hömlulausa bitann.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home