léttfimmtug

þriðjudagur, apríl 17, 2007

Ég er hér aftur ;-)

óó, Den Haag, fallega borg á bak við sandhólana gargar Andre Hazes á hollensku, sem ég skil og tala svo óskaplega vel. Ég dilla mér í stólnum á hjólunum en þarf að passa að rúlla ekki út úr herberginu. Trallatralla, nú kemur þýsk sveifla og hliðarspikið hreyfist með.
Ójá, ég er með óráð, vitráð og bitráð. Á morgun á að bora í mig títan skrúfur og ég er stútfull af sýklalyfjum og svo er ég byrjuð á járni því ég er víst járnlaus og með lélegan skjaldkirtil eins og heimilisdoktorinn tjáði mér í dag... skyldi það vera ástæðan fyrir ört vaxandi holdi???

OK, elskurnar ég er í fráhaldi, komin til baka með vigtóriu og mínar máltíðar vandlega planaðar. Aðeins öðruvísi fráhald en ég iðkaði áður og er ég búin að vera í einu stóru panik kasti yfir að það myndi ekki duga. Ég mixa saman reynslu síðastliðinna ára og nota blandað matarplan. Enginn sykur, ekkert hvítt hveiti, engin einföld kolvetni. Vigta máltíðirnar mínar og tilkynni til hjúkrunarfræðings á heilsustöðinni minni. Tók þá ákvörðun með tilliti til búlemíunnar sem hrjáir mig að betra væri að ég væri undir eftirliti heilbrigðisfólks og með matarfráhald sem ég hef iðkað en stílfært svolítið.

Ég fæ þessa aðstoð 2x í mánuði ókeypis klukkutíma hjal við óskaplega vel gefna, fallegan hjúkrunarfræðing (má víst ekki segja hjúkkukona lengur) - nú er smá spönsk sveifla og mín bara komin í ástarfílinginn - sorry, fór aðeins útaf línunni. Mér finnst gott að hafa þennan ramma, að vita hvað ég ætla að borða næsta dag.

Sko, ég er ekki í megrun, aldrei aftur í megrun. Ég fer ekki á vigtina því ég vil ekki að hún stjórni lífi mínu en ég get sagt ykkur að ég hef farið upp um 1.5 númer í fatastærð. Ég á engin gömul föt þannig að ég þurfti að kaupa mér eitt stykki buxur, blússu og skokk til að komast i fermingarveislur. Mín er aftur komin í 42+ ....

Mér líður vel þrátt fyrir járnskort, hægan skjaldkirtil, títaninnplant á morgun, stóra sæta frábæra bumbu, æðislega flott brjóst og brasílískan rass sem er fylgifiskur ofáts míns. Ég á eftir að sakna hans því ég vildi gjarnan hafa útstæðan rass þegar ég er aftur orðin mjó í staðin fyrir rúllugardínuna sem muna prýða afturhliðina á mér.

Bið að heilsa að sinni

föstudagur, mars 02, 2007

Andlaus! ?

Hvað skyldi það eiginlega vera og þýða að vera andlaus. Fjarvera sálar, huga eða tauga? Eða að vera loftlaus? Tungan er svo flókin og maður notar orð og orðatiltæki sem maður svo botnar ekkert í þegar borað er frekar ofan í orðið (hér er talað tölu/tölvumál).

Nú! Já! Jæja. Ég er andlaus og með alla ofangreinda fjarveru og loftið er blautt í hálsinum á mér eftir að hafa svelgst á munnvatni menguðu mandarínusafa. Hér er allt í hassi og klessu með mín matarmál og afturendinn á mér er aftur orðin þessi kynæsandi brasilíski rass sem dregur að sér karlpeninginn, og svo ber ég framan á mér þetta frjósemistákn uppþanins kviðar þ.e. ef marka má styttur og málverk afrískra þjóða. Allavega, Moi etur og etur eins og hún eigi lífið að leysa og verst þykir hvað vindur leysist líka við svona nart. Gillian rassahreinsir yrði allavega hrifin af því að ég hef þrisvar sinnum á dag hringlaga hægðir og þarf þess vegna ekki að kaupa mér far með Jónínu Ben til Póllands í kúkahreinsun.

Ég er svo ágætlega sátt við að komast aftur í kynni við veikleika mína og hafa tækifæri til að sigrast á ógninni og styrk til að nýta mér tækifæri reynslu minnar(á viðskiptamáli heitir þetta SVÓT styrkur, veikleiki, ógnanir og tækifæri) til að fara aftur í gamla matarplanið mitt, sem mér dags daglega líður mjög vel á.

Mig langar líka til að upplifa að vera ástfangin og finna hitann flæða yfir andlit, herðar og brjóst og hlakka til kannski á eftir ef maðurinn minn lítur þannig til mín að fá þá upplifun. Er dálítið svekkt í raun að hitakófið hefur ekki látið á sér bera síðustu daga þannig að nú verður karlmaður að vekja upp hjá mér flissið.

Njótið helgarinnar dömur og vitið að þið er það sem þið laðið að ykkur, ég á við maður er það sem maður hugsar og hugsanir eru eins og segull sem dregur að sér óskir manns. Ég óska að vera hamingjusöm hér, þar, þarna, hinumegin og allstaðar.

Dagur eitt er hafinn og skal perla fara í vasann glæra í kvöld.

þriðjudagur, febrúar 27, 2007

Get ekki annað en hlegið

Komin á breytingaraldurinn og fæ þessa líka skrýtnu tilfinningu sem fæðist í bringunni, fetar sig upp hálsinn, slær roða á kinnar og hleypir hjarta mínu á fleygiferð inn í heim þar sem tilfinningar taka á sig upplifun nálardofa. Hvað get ég annað gert en flissað, ekki er þessi líkamlega tilfinning upplifun hvolpaástar, né heldur er einhver karlmaður að flækjast um í lífi mínu sem hitar mig svona hressilega.

Haldið þið bara, ég er að eldast!!! Það sækir á seinni hlutann og ég er að verða barn aftur. Hvað er skemmtilegra en barn sem veltist um af hlátri yfir nýjum upplifunum og uppgötvunum? Allavega, ég ætla að flissa mig í gegnum hitakófið, njóta þess að verða aðeins stirðari sem neyðir mig til þess að setjast niður og njóta með augunum. Njóta birtunnar, fjallasýnanna, vatnanna og alls þess sem fyrir augu mín ber. Ég held að sá tími sem er framunda verði örugglega skemmtilegur tími, besti tími lífs míns. Allavega, ég kýs að líta svo á.

Ég nenni ekki að vera með áhyggjur af holdafari, að vera föst í megrunarhugusun. Ég ætla ekki að festa huga minn við neikvæðar staðhæfingar heldur frekar að vera jákvæð gagnvart mér og verðlauna mig með heilbrigðu mataræði án öfga.

laugardagur, febrúar 24, 2007

Laugardagur og sólin skín

Ég er farin að vakna fyrir allar aldir nú orðið og kann ekki lengur að liggja og gera ekki neitt. Þurrkuklúturinn er orðinn laugardagsvinur minn, síðan ajaxið og shower power. Eins og hvítur stormsveipur ræðst ég á rykið eftir að hafa fært maga mínum nauðsynlega orku til að komast í gegnum þessi morgunverk mín á laugardegi sem útivinnandi kona.

Maðurinn minn skiptir á rúminu og setur í þvottavél ásamt að hengja upp þvottinn, hans aðferð er ekki alltaf að mínu skap og mér tekst oftast að setja upp leiðindar nöldurtón og segja skemmtilega vel valin orð (yfirleitt eitthvað ekki fallegt), skvetta síðan rakri tuskunni þannig að úr verði nokkrir dropar sem tvístrast á og bletta annars glansandi baðinnréttingunni. Ég er með rykáráttu og reyni að reka það í burtu og helst ef áráttan fengi að ráða þá myndi ég setja rykskó og rykhanska á alla þá sem heimsækja mig svo þeir tækju eitthvað afþví með sér heim aftur.

Ég hef verið að gráta að undanförnu svona í laumi í bílnum. Það er stór kökkur í hálsinum á mér sem ég get ekki ælt frá mér, hann lætur heldur ekki undan þótt ég reyni að troða í mig ofturstórum trogum af mat.

Sjáið til, ég er lausaleikskrói á sextugsaldri eitthvað sem ekki þótti fallegt þegar ég var barn og hlutskipti sem ég upplifði að líða fyrir. Ég átti samt dásamlegan fósturföður sem elskaði mig sem sitt eigið barn, en ég saknaði þessi að vera ekki af hans holdi og blóði. Ég átti móður sem var engan vegin fullkomin en ég var hold hennar og blóð og ég þekkti mig svo vel í gegnum hana, ég sakna hennar nú í dag og ég sakna fósturföður míns en bæði hafa horfið á vit forfeðra sinna. Ég sakna þess að eiga ekki daglegt samneyti við systkini mín en öll höfum við fullorðnast og eignast eigin fjölskyldu og daglegt líf í eigin ryki. Ég elska hálfsystkini mín og veit að það er "ditto" tilfinning sem við kunnum ekki að tjá hvort öðru - hverjum var/er kennt að tjá hvort öðru með orðum og athöfnum kærleik og djúpa ást?... Ha!?

Blóðfaðir minn sem ég leitaði uppi fjórtán ára gömul, kynntist smá og missti svo aftur sjónar af og fann svo aftur, er að verða gamall maður sem þarfnast mín því ég er eina barnið hans. Mér finnst erfitt að veita þá aðstoð án þess að dusta ryktuskunni framan í hann og helst að vinda úr Ajaxklútnum yfir stuttklipptum gráum kollinum. Ég harma að eiga föður sem ekki gat hugsað vel um sig og kom sér þannig fyrir að fáir voru til staðar þegar þörf hans fyrir umönnun brast á. Af skyldurækni við blóðtengslin hef ég reynt að hjálpa og stjórna, kannski meira að stjórna og refsa og dæma en að iðka kærleiksríka hegðun og hlúa að honum eins og ég myndi hlúa að mér ókunnugri manneskju sem ætti bágt. En afþví hann sveik mig sem barn í aðstæðum sem voru algengar á þeim tíma og í hans stöðu var ekkert annað að gera en að ganga í burtu frá móður ófædda barnsins síns og láta sig hverfa, vil ég þá refsa honum og meiða hann? Ég veit það ekki!! Lífið er svo skrítið....!! Blóðfaðir minn er veikur, er að missa sjónina og geta hans til að hugsa um sjálfan sig er hverfandi. Svo ég trítla á hverjum degi niður á deild 12E á Lansanum til að tala við hann, kyssa hann á kinnina og læra að taka utan um hann.

Ég skildi ekki afhverju ég var alltaf svona meir í hvert skipti sem ég gekk útaf deildinni þar sem hann liggur, afhverju hjarta mitt sló svona ört og hversvegna ég upplifði að ég væri að missa vitið. Í gær varð mér það svo ljóst. Fyrir tæpum 12 árum síðan var ég þarna daglegur gestur í nokkur ár með langveikri dóttur minni. Á sömu stofu og faðir minn liggur lá dóttir mín banaleguna og eftir sama sjúkrahúsganginum bar ég andavana líkama þriggja ára dóttur minnar í kalda geymslu líkhússins. Öll sorgin, allur söknuðurinn, reiðin og vanmátturinn helltist yfir mig og loksins náði ég að gráta og með tárunum opnaði ég fyrir möguleikann á því að elska þá sem eftir eru í lífi mínu, systkini mín þó svo ég sjái þau sjaldan, föður mín þó svo hann hafi ekki lagt inn á kærleiksbankann mjög mikið, blóðdóttur mína sem ég yfirgaf fyrir þrjátíu og þremur árum síðan, barnabörnum mínum tveimur og ekki síst að muna ástina sem ég bar/ber til látinna dætra minna og leyfa mér að minnast þeirra daglega.

Ég ætla í dag að lifa í kærleika og þakklæti fyrir að vera það sem ég er í dag, fyrir það sem ég hef átt slæmt og gott og það sem ég á í dag, sem er að mestu leiti mjög góðir hlutir, fólk og aðstæður.

Í dag er ég í fráhaldi frá öllu því sem veldur mér skaða og dauðlegri sjálfsvorkun.

þriðjudagur, febrúar 20, 2007

Ótti

Ég hef verið að skoða hug minn gangvart mat og útliti mínu undanfarna daga og vikur. Það má líka segjast að ég hafi verið í þessu skoðanaferli síðasta aldarfjórðunginn eða síðan ég fór að eiga í skrítnu sambandi við mat, mig, líkama minn og þráhyggju gagnvart mat og þyngd.

Ég er ein af þessum duglegu konum sem að öllu jöfnu get hamið mig dag frá degi til dags. Reyni að halda apanum sem lengst frá öxlinni og skipuleggja dag minn þannig að ég trufli ekki mig frekar en aðra að öllu jöfnu.

Síðustu vikur eða síðan 10. janúar síðasta þá hefur hömluleysið riðið mínum húsþökum og ég staðið á beit með þeim afleiðingum að skapið er ekki í jafnvægi, matarræðið á þeytingi og að sjálfsögðu strekkir buxnastrengurinn aðeins að.

Ég er komin með upp í kok með að vera í fráhaldi, að vera stöðugt að hugsa um mat daginn inn og daginn út. Að líf mitt snúist um mat öllum stundum þó svo að aðrir hlutir fá kannski að fljóta með ef apinn leyfir svo. En ég hef þróað með mér skrýtið samband við mat og ég er ekki eðlilegur neytandi þegar að honum kemur, þannig að ég verð að finna leið sem ég get lifað með í sátt og samlyndi. Þá leið fann ég í janúar 2004 og lifði skv. henni þar til reglurnar voru farnar að stjórna mér jafnt á við fíknina. Allt snerist um mat, hvernig mat, hvenær mat, hvað mikinn mat, fór ég út af strikinu?
, kæmist ég á "track" aftur?. Ég gat ekki borðað undir eðlilegum kringumstæðum með öðru fólki og ég gaf skít í þetta allt saman ... því miður því mér leið ágætlega í þessum fasa.

Þar sem ég er mjög ósátt með að vera að hlaða á mig kílóum aftur og finn að sjálfsímyndin dettur niður þá er ég aftur orðin erfið í samskiptum við fólk. Ég er nefninlega ekki þessi glaðlynda feita kona, ég er önug feit kona afþví mér líður illa þegar ég get ekki hlaupið upp stiga, þegar ég fæ hjartsláttarköst afþví ég er í sykursjokki. Ég hreinlega vil ekki vera á þessum stað og prumpa þessvegna á þá sem á vegi mínum verða og spúi eins og fýllinn í berginu háa.

Í dag einn dag í einu held ég matardagbók, ég tilkynni og ég undirbý matinn minn mjög svipað og síðsta matarplan og ég var í. Slakinn er aðeins öðruvísi og enginn ótti gagnvart því að falla til staðar, samt er það að svo stöddu heldur ekki að virka. Kannski! Eins og ein hömlulaus ofæta í bata sagði, er átkastið nokkuð yfirstaðið??? Hummm... ég held að konan sú hafi hitt naglann á höfuðið og hann (naglinn) hafi hitt mig í höfuðið og gert mér matarskaða.

miðvikudagur, janúar 31, 2007

Aumingja apinn

Hann á ekki dagana sæla þennan daginn apagreyið. Það er enginn stuðningur af öxlinni minni í dag, sérstaklega þar sem ég í gærkveldi fór og lét særa hann í burtu. Þrátt fyrir að vera frekar tæknisinnuð og "updeituð" miðað við aldur og fyrri störf, þá heillar mig alltaf Nornaseiðurinn og dansinn, hið dulda og dulræna í veröldinni.

Þar sem ég er haldinn andlegri þráhyggju og líkamlegu óþoli gagnvart sumum matartegundum, þá verð ég að beita öðrum ráðum en þeim sem læknavísindin bjóða uppá. Til dæmis þá myndi gastric bypass (hjáveituaðgerð) ekki gagnast mér nema að ég tæki með í myndina hinn andlega þátt matarþráhyggju minnar.

Maturinn er það sem síðastliðin 28 ár hefur verið félagi minn og huggari, svo þið getið ímyndað ykkar tómleikann sem skapast þegar átpokarnir eru ekki lengur á sínum stað. Einmanaleikann þegar maginn er gargandi tómur og ekkert heitt og mjúkt sem rennur niður vélindað, í magann og svo sem róandi verkun út í blóðstreymið, en bara í stutta stund, örlitla stund áður en þörfin fyrir meira matarstöff gerir vart við sig.

Mér finnst voða asnalegt að vera haldin þráhyggju gagnvart mat. Að pukrast með það sem ég borða. Þegar aðrir fara að vera uppteknir af matarvenjum mínum (á sérstaklega við þegar samstarfsmenn verða varir við hin mörgu súkkulaðistykki og kexpakka sem ég sporðrenni), ég hreinlega skil ekki að "matarfíkn" sé raunveruleg fíkn sem herjar á fólk - HANANÚ - ég vil bara vera eðlileg og borða þegar ég er svöng.

Mig langar að blogga um eitthvað annað en mig og mat. Hvernig væri að ég færi að bögga ykkur með reynslu mína af því að fara í gegnum breytingarskeið kvenna án þess að roðna? Hvernig það er að eldast, fá hrukkur, styttast og fitna (þarna byrja ég á fitunni aftur)! Já!!!! Þetta er fasi útaf fyrir sig, tímabil sem allar konur ganga í gegnum vilji þær lifa langa ævi. Það verður víst enginn gamall án þess að líkaminn láti á sjá.

Mig langar að skoða mig eldast, finna söknuðinn eftir ungu konunni sem ekkert skildi og bara lifði. Mig langar að finna þessa gleði sem hellist yfir mann þegar sáttin er til staðar. Þegar maður einn dag í einu finnst lífið bara dásamlegt og sólarlagið það fallegasta sem til er í heiminum. Ég trúi því að þegar maður er á þeim stað þá hverfi allt sem heitir fíknir.

Æi, ég er bara að hugsa upphátt - það eru hvort eð heldur ekki margir sem lesa þessar hugrenningar mínar.

mánudagur, janúar 29, 2007

Apinn sigraði

Ég tapaði orustu en ekki styrjöldinni. Apinn er þaulsetinn á herðakistli mínum og náði að flengja mig í gólfið og dansa trylltan stríðsdans á tómum mallakút mínum í síðustu viku. Það eru tvær ef ekki þrjár síðan apinn byrjaði að hrella mig og er ég ekki fjarri lagi að öll fjölskylda og ættbálkur apans hafi ákveðið að ég væri þeirra næsta "target" - það liggur við að ég blóti bara upphátt hér í bloggheimi.

Ég er á degi tvö núna og hef þurft að tæma vasann þar sem ég geymdi dagperlunar mínar rúmlega tvö hundruð og núna eru þær bara tvær sem liggja á vasabotni. Það er vottur af skömm í mér að skrifa þessar línur og ég vil helst ekki þurfa að viðurkenna opinberlega að "ég" mitt í góðu fráhaldi og fínu þyngdartapi hafi sjálfviljug (með hjálp apans) ákveðið að borða á mig eitt stórt feitt gat.. en "ce la vie" hér er ég átvaglið að rembast við að reka á brott svengdarhugsanir (Kommon! Ég get ekki verið svöng rétt eftir hádegismat), segjandi við sjálfa mig að ég geti klárað daginn án þess að fara í hömluleysi gagnvart mat. Ég segi við sjálfa mig líka að ég hafi engu tapað nema dagatalningu við það að endurnýja kynni mín við gamlan félaga (ofátið) í nokkra daga. Samt veit ég að fyrri reynslu að það er erfiðara að komast í fráhald heldur en að vera í fráhaldi.

Ég er samt ágætlega sátt við þann stað sem ég er á núna