léttfimmtug

miðvikudagur, ágúst 04, 2004

200 - Tvöhundruðfráhaldsdagar!!!

Heilir tvöhundruð dagar í fráhaldi, ekki bara einn eða tveir heldur margir einn dagur í einu.. kannski er það uppskriftin mín að vera í fráhaldi einn dag í einu.
Hildur spurði um uppskriftina: hún er einfaldlega að ég varð að velja um hvora leiðina sem ég ætlaði að ferðast þar sem eftir er af lífi mínu hér á jörð...
Sjúkdómar og önnur vanlíðan sem herjuðu á mig vegna ofáts voru að buga mig og þurfti ég að velja/þarf enn að velja.. borða skv. ákveðnu kerfi sem aðrar ofætur hafa gert, sumar í áratugi og ná heilsu til baka og auknu sjálfstrausti ásamt væntumþykju í eigin garð, eða að auka við þá heilsubresti sem voru farnir að hrjá mig.
Í dag er ég líka búin að vera svöng, tóm í maganum með gargandi dýr sem öskrar á fyllingu.. ég hef val að gefa eftir og missa móðinn eða tala blíðlega til þessa dýrs og biðja þess blessunar og bjóða því að fara í burt eitthvað annað þar sem það fær fullnægt þörfum sínum á bælingu. Í dag kýs ég að vera í fráhaldi því launin eru ríkuleg!!! Ríkuleg vegna þess að ég ekki bara grennist ég og verð meira sexý (ef fimmtugar kellur geta verið sexý).. ég sef betur, ég fæ ekki hjartsláttaköst, kvíðinn er á undahaldi og þunglyndið virðist hafa farið í frí.. er þetta ekki nóg til þess að neita sér um fyrsta hömlulausa bitann???
Ég hef aðeins lengri reynslu en margar ykkar hér þó svo ég hafi aldrei farið yfir 100kg þyngd (mitt hármark var 89.3kg) en ég var búin að grennast og þyngjast um tugi kílóa síðan ég byrjaði í megrun 57kg fyrir 20 árum síðan... þess vegna veit ég að megrun dugar mér ekki. Ég verð að finna nýjan lífsstíl og halda mér við hann. Ég ætla mér að halda mér á þessari braut og það helst það sem eftir er.
Súkkulaðidraumar elta mig á röndum, mig langar til að sökkva tönnunum í mjúkan marengsins drukknuðum í kókósbollum og rjóma.. laumast út í sjoppu og sporðrenna hverjum lakkrísdraumnum á fætur öðrum ofan í mitt neðra heilahveli (við höfum tvo heila.. annar er á milli eyrnanna og notar orð og hugmyndir, hinn er í meltingarfærunum og notast við tilfinningar). Draumurinn segir mér að ég geti alveg tekið einn bita en áratuga reynsla segir að fyrsti bitinn leiði til annars bita og svo kemur hömlulausa átið...
Þetta er minn raunveruleiki í dag

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home