léttfimmtug

sunnudagur, ágúst 20, 2006

Dagur 75 - Úlfarsfellið

Það gerist æ oftar að það er svo gaman að vera til. Ég er eins og lítið barn sem gerir sér ekki grein fyrir öllum þeim annmörkum sem fylgja því að vera fullorðinn. Ég held að þetta sé bara ákvörðun hjá mér, að leiða hjá mér allar þessar fréttir af styrjöldum og átökum sem eiga sér stað fjarri heimaslóðum. Samt var ég minnt á þann hrylling sem sumir af okkar meðbræðrum þurfa að búa við þegar ég horfði á myndina Hotel Rwanda, það fór um mig gamall ótti og hrollur þegar ég hugsaði til þessa að margir þurfa að búa í skugga styrjaldar, hungursneiðar og kvíða í heiminum.

Ég er heppin, ég bý á Íslandi þar sem engin svona stór átök eru. Að vísu eru menn að lemja hvor aðra um helgar. Fíkniefnaneysla er að aukast og hér og þar er fólk sem býr við fátækt. Ég er heppin að hafa húsaskjól, 4ja herbergja íbúð sem ég deili með eiginmanni. Ég á ótrúlega skemmtileg barnabörn, dreng og stúlku sem eru vel af Guði gerð. Drengurinn alger stríðnisengill með mjúkt stórt hjarta, mjúkt stutt faðmlag og dillandi hlátur. Hann er ljóshærður og bláeygður. Daman er dökkhærð með dökk augu full af visku, dálítil dramadrottning og sérlega vel gefin. Hún verður vafalaust frumkvöðull og stjórnandi þegar hún verður stór. Það þýðir ekkert að kyssa hana, hún er ekkert gefin fyrir svoleiðis nema þegar hún sjálf vill. Þessi börn eru brunnur af gleði minni í dag. Svo á ég líka eina stelpu sem er orðin stór og er mamma þessara barna. Ég er stolt af stelpunni minni sem elur stubbana svona vel upp, hún er eljusöm kona sem býr yfir ótrúlegum styrk af því hún þekkir bæði styrk sinn og veikleika, alger SVÓT kona. Hvað vil ég meir en að sjá afkomendur mína búa við öryggi, nægan mat, húsaskjól og möguleika til menntunar.

Þetta þakklæti mitt má rekja til þess að ég er í fráhaldi í dag. Ég er líka búin að þramma á Úlfarsfelli á áður óþekktum hraða fyrir þessa ungu konu á sextugsaldri.

Ég er heppin, ég er þakklát fyrir að eiga hjarta sem slær í brjósti mér. Þakklát fyrir fæturnar sem bera mig yfir urð og grjót. Þakklát fyrir hendurnar sem geta hlúð að að sjálfri mér og í leiðinni öðrum. Þakklát fyrir sjón mína sem nema fegurð náttúrunnar svo langt sem augað eygir. Þakklát fyrir heyrn mína sem nemur hljóma alheimsins.

1 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home