léttfimmtug

föstudagur, ágúst 25, 2006

Dagur 80 - Stend með mér

Tíminn flýgur og ég sit við tölvuna með stúfullan mat og ótrúlega södd. Lífið er að taka þann snúning að það gengur ekki allt út á mat hjá mér. Það lítur út fyrir "hjá mér" að ég eigi við líkamlegan og huglægan sjúkdóm að stríða - já! ég kalla það ástand sem ég er búin að vera í í tugi ára, sjúkdóm!!! - ég þoli alveg gagnrýni og það að ekki allir séu sammála mér :-)

Það er ekki eðlilegt ástand að éta á sig tugi kílóa, að liggja reglulega á bæn fyrir framan klósettið í ælukasti, sprauta microlax upp í endaboruna og framkalla uppköst.. ???

Er það eðlilegt að ná af sér tæpum 30kg á rúmu ári og éta svo 3/4 til baka á nokkrum mánuðum?!!! Að fara stöðugt sama hringinn ár eftir ár með þeim afleiðingum að líkamlegt útlit og andleg líðan er í algeru botnfalli.

Á síðasta ári reyndi ég að vera í svokölluðu "feitu æðruleysi" - vera sátt við að vera íturvaxin og stolt af mér eins og ég er, en það gekk bara ekki upp í vaxandi líkamsþyngd.

Ég er mjög ánægð með þá persónu sem innra með mér býr, ég bý yfir frábærum eiginleikum, þreki, áræðni og framkvæmdagleði. En ég get ekki verið sátt við að fá á mig marga sjúkdóma tengdu ofáti... væri ég með krabbamein þá myndi ég leggjast undir hnífinn, geislana og lyfjameðferðina og gera allt sem í mínu valdi og læknavísinda að ná bata. Því skyldi ég ekki gera það sama þegar um þekkt sjúkdómsferli er að ræða eins og aukna ofþyngd.

Hægt og rólega var ég búin að éta á mig krónískar ristilbólgur, hækkaðan blóðþrýsting, hjartsláttartruflanir, hækkaðan sykur, þunglyndi og ömurlegri líðan. Þetta ástand er ekki ásættanlegt fyrir mig.

Mér líður vel í dag, ég lít vel út en ég er ekki komin aftur í kjörþyngd. Það vantar ca. 12kg upp að ég nái þeirri þyngd sem ég tel að sé heppileg fyrir minn aldur og hæð.

Eina leiðin fyrir mig er að gera þetta einn dag í einu eins og ég hef haldið fráhald frá áfengi í rúm 27 ár. Á þann hátt á ég möguleika á lífsgleði og lífsleikni.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home