léttfimmtug

miðvikudagur, september 20, 2006

Dagur 106

Dagarnir fljúga framhjá manni og safnast saman í einn haug eins og haustlaufin sem falla brúngul til jarðar. Ég þarf að minna mig á hverjum degi að það sé aðeins dagurinn í dag sem ég á, gærdagurinn liðinn og morgundagurinn ókominn (ekki nýtt af nálinni held ég).

Ég er ekki í átaki, ég er ekki í megrun. Ég er að reyna að lifa ásættanlegu lífi með heilbrigðu mataræði sem færir mér hugarró og sátta mynd af mér eins og ég er í dag. Samt klifrar apinn reglulega upp á axlir mér og hvíslar að mér hinu og þessu sem er mér ekki hollt. Apinn truflar daglega rútínu og reynir að toga mig þangað sem ég var stödd fyrir ekki svo mörgum dögum síðan.

Á miðvikudag í næstu viku ætla ég að skella mér til Spánar í vikufrí ásamt eiginmanni, foreldrum hans, systur, mági og litlum frænda. Við erum að halda uppá sextugs afmæli tengdaföður míns. Með mér í för er vigtin mín, lítil dagbók til að skrifa niður matinn minn og hráefni sem ég nota í neyð - NEYÐARLEGT - myndi margur segja, að vera að vigta og mæla mat á erlendri grund þegar maður á í raun að liggja í sukki og sólbaði.

Í framhaldi af Spánarferð fer ég til Danmerkur eftir sólarhrings stopp hér heima. Þá fer ég með samstarfsfólki mínu í árshátíðarför, og vigtin blessuð verður með í för líka. Ég hef gengið svo langt að biðja um sérstakan matseðil þar sem við borðum þ.e. árshátíðarfólkið... allir hér á mínum stað sáttir við það, því öllum líkar betur við konuna sem brosir breitt þegar hún er í fráhaldi en taka sveig framhjá þegar hún vælir í sjálfsvorkun í átköstum sínum með ylgda brún og dökka áru.

Nei, lífið er ekki neyðarlegt - stundum er lífið bara hreinlega val um hvernig mér langar til að mér líði...

1 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home