léttfimmtug

fimmtudagur, október 05, 2006

Dagur 121 - komin heim

Þá er ég komin heim frá Spáni, brún og frekknótt og þokkalega vel úthvíld. Maður tekur sér ýmislegt fyrir hendur á efri árum sem maður ætlaði aldrei að gera. Ég ætlaði aldrei að fara á sólarströnd þar sem ég er innilokuð á milli hárra blokka, sumar hverjar allt að 52 hæðum og þar fyrir utan hvít ströndin þéttlegin af fólki í eldri kantinum. En ég fór og slakaði á, naut þess að vera með fjölskyldu mannsins míns.

Ég verð að segja eitt, ég hef aldrei, aldrei séð svona feitt fólk í "grúppum" eins og á Benidorm, ég er alger písl miðað við fólkið sem þurfti "skutlur" til að komast á milli staða. Heilu fjölskyldurnar sem eru feit, feitari, feitust - ekki 20kg yfirþyngd heldur frekar 80kg eða meira.

Ég vigtaði og mældi og fyrstu dagarnir voru hreint helvíti, ég bölvaði og lamdi hnefum í borð - andskotans helvíti að geta ekki tekið þátt í venjulegum athöfnum eins og annað fólk, að drattast með vigtina og mæla ofan í mig. Ég spriklaði þetta svona í tvo daga og þá komst ég í gírinn. Mínar þrjár máltíðir og ekkert á milli mála nema vatn, vatn, vatn, einstaka kaffibolli og Coka Cola Light öðruhvoru.

Á morgun er svo haldið til Kaupmannahafnar og þá tekur sama við, vigta og mæla meðan aðrir dæla í sig dýrindis krásum og drykkjum.

Ég hef valið að vera í mínum lífsstíl frekar en að fitna, fara aftur í fráhald, hætta í fráhaldi, fitna og gefast að lokum upp. Mig langar ekki til að enda í skutlu á Benidorm í náinni framtíð.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home