léttfimmtug

föstudagur, júní 25, 2004

160 - Guð hvað það er kalt í dag

Brrrrr ... það er hræðilega kalt í dag og ef maður væri ekki í fráhaldi þá væri verulega freistandi að hringja sig inn veika og liggja undir heitri sæng með kakóbolla, brauði með smjöri og osti og væmna vídeómynd :-) - en þetta er bara draumur. Maður er í vinnunni með kalda loftræstinguna sem færir manni gæsahúð og hellir ofan í sig heitu svörtu kaffinu sem þvælist í meltingarfærunum ásamt þessu epli sem ég borðaði í morgunmat og mjúkri AB mjólkinni - sú fæða verður að duga fram að hádegi.. svo bíður maður að eitthvað spennandi gerist sem fær mann til að gleyma kulda og löngun í kolvetni sem hlaðast bara utan á skrokkinn á manni.
Ég er svona farin að hugsa um kjörþyngd en geri mér ekki almennilega grein fyrir hver hún á að vera - stundum er eins og fólk sjái einhverja mjög lága tölu sem er út í hött -eiga allar konur 160cm (kannski 158.5cm) að vera 56-59kg??? - þá verð ég svo hræðilega hrukkótt með brjóstin hangandi niður fyrir nafla og slitinn maginn krumpast slappur yfir buxnastrenginn .. að sjálfsögðu get ég hent einhverri milljón í að láta lyfta brjóstum, strekkja magann allan hringinn og lyfta þannig upp rass og lærum, taka í burtu mesta slitið og vera svo með flenni ör allan hringinn plús doða í húð langt upp að brjóstum ... og tölum ekki um áhættuna sem svona aðgerð fylgir.
Þið þarna elskurnar eru enn svo ungar (sumar jafnungar eiginmanni mínum sem er 14 árum yngri en ég) að þið kannski horfið ekki endilega að tíminn sé að styttast og að líkaminn sé farinn að vera svona antik hlutur - antik húsgöng þykja voða flott og eru eftirsótt ekki satt? - ég horfi á líkama minn og sé að hann hefur ekki þennan sama stinnleika og þegar ég var 14 ára en það er kominn glæsileiki sem fylgir vaxandi aldri -hver hrukka og hvert slit hefur sína sögu að segja og satt að segja þá þykir mér vænt um allar þær minningar sem felast í hverri misfellu líkama míns. Það sama má segja um andlitsdrætti mína - saga hálfrar aldar er þar sögð og eru þessar fínu hrukkur kringum augun og örlítið sígandi haka eins og síðari Picasso verk - ekki vil ég skemma það málverk.
Núna þegar holdafarið er ekki sýkt af offitu og þegar líkamsstarfsemi hefur náð að jafna sig, þolið orðið betra þá er ég eins og nýuppgerður fornbíll, gljándi og hraustur í mjúkum bylgjum sem malar þetta áfram á jöfnum hraða eftir Lífsinshraðbraut ekkert að flýta sér að endalokum heldur horfir í kringum sig á breytilega náttúru okkar mislynda lands.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home