léttfimmtug

föstudagur, júlí 16, 2004

181 - byrjuð að hreyfa mig aftur

Ahhh... fór í hraðgöngu í hádeginu og svo í sund að loknum vinnudegi:-) æðislegt.  Það er líka virkilega gaman að skoða sig berrassaða og sjá að líkaminn er kominn með fínar línur fyrir minn aldur og er reisn yfir blessuðum skrokknum...
Ég synti 500 metra og fannst það gott þar sem ég er ekki með sterka handleggi og frekar stutt í annan endann.. aðrir sundgestir bruna framhjá mér meðan ég syndi þetta í rólegheitum og nýt þess að finna kyrrðina setjast að í huga mínu.  Ekkert annað kemst að annað en að kljúfa blátt vatnið og komast að hinum bakkanum ferð eftir ferð.
Mig kitlar í fæturnar núna því veðrið er yndislegt.  Ég þarf ekki nema að kíkja út gluggann og þar blasir Úlfarsfellið og býður mér að ganga á sig - samt hefur letiblóðið yfirhöndina og ég býst við að ég njóti bara að horfa á kvöldsólina út um gluggann og láta mig dreyma um ilminn af nátturunni..
Ég borðaði góðan mat og hef ekki þörf á sætindum.  Fæ mér vænan sopa af Egils Kristal og finnst hann dágóður og svo er ég búin að brugga mér kanilte.
Í dag fór ég í bleikan jakka sem ég notaði við kjólinn sem var alltof þröngur þegar ég gifti mig fyrir tæpum 3 árum síðan ... jakkinn náði mér ekki yfir brjóstin, nú get ég hneppt honum og hann er þokkalega rúmur... gaman að uppskera að vera komin í eðlilega stærð.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home