léttfimmtug

miðvikudagur, september 15, 2004

238-242 - og hausinn snýst í þúsund hringi

Það er skrítið líf að reyna að vera í skóla. Dagarnir líða svo hratt að það er eins og maður sé staddur í þeytivindu og nái ekki að halda sér föstum í allri vindunni. Ég reyni að koma mér að því að læra og lesa og skilja það sem er skrifað og orðin verða að stóru skrímsli sem skyggir á skilning minn... skyldi þá nú ekki smá súkkulaði koma að hjálp til að opna huga manns fyrir nýju áreiti? Ég bara þori ekki fyrir mitt litla líf að prufa það né annan mat sem ekki er á mínum lista.
Ég semsagt er enn að halda fráhaldið.. einn, tveir, þrír og svona tel ég dagana áfram.
Heimsótti heimilislækninn í dag og hann hváði við.. hvað, maður þekkir þig ekki lengur þú ert svo lítil og smá þarna í stólnum... hummmm, maður getur vafið blóðþrýstingsdæminu (veit ekki hvað það heitir þetta þarna með franska rennilásnum) margfalt um handlegginn á þér... niðurstaða blóðþrýstingur 130/80 sem er gott fyrir dömu á mínum aldri.. öll önnur blóðgildi voru í lagi og kolestorolið eins og best verður á kosið... og ég er enn kona í fullu fjöri og ekki bólar á breytingarskeiðinu hjá mér..
Svo, ég ánægð og borðaði minn hádegismat þakklát fyrir að vera laus úr viðjum sjúkdóma sem eru fylgikvillar ofeldis...
Hitti tvær gellur sem voru með mér í prógramminu fyrr í vetur og voru þær að borða ís með rjóma og sósu í einni ísbúðinni í dag... önnur þeirra var búin að bæta á sig 10kg aftur og hin hafði aldrei komist í prógrammið og er orðin mikill sjúklingur með hjartavandamál og fleira... þær þekktu mig ekki aftur enda hef ég yngst til muna við að missa öll þessi kíló.
Æi, ég er að lesa íslenskar smásögur fyrir íslenskutímann á morgun og þarf að gera verkefni... það er eitthvað í mér sem mótmælir þessum lærdómu, ég vil að hlutirnir komi til mín auðveldlega sbr. ég vildi alltaf að ég grenntist án þess að hafa fyrir því.
Nú kemur það í ljós að ég þarf að hafa fyrir því að læra, eins og ég þarf að hafa fyrir því að grennast og svo að halda mér grannri áfram.
Ég vona að ég hafi styrk til að vera í þessum lífstíl einn dag í einu það sem eftir er lífs míns.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home