léttfimmtug

laugardagur, október 23, 2004

278-280 / Þakklæti

Í dag er ég eitthvað svo þakklát. Ég horfi út um gluggann og við mér blasir Esjan svo róleg og staðföst. Það gárar smá á sjóinn og allt umhverfið hefur þennan djúpa lit haustsins.

Þetta er líka sérstakur dagur, litla engladóttir mín er þrettán ára í dag. Heil þrettán ár síðan hún kom í heiminn löngu fyrir tímann. Þetta er líka dagurinn þegar ég byrjaði að borða yfir sorgina, þegar ég hætti að leyfa tárunum að flæða og lokaði á allt með mat og sælgæti.
Ég kveikti kerti fyrir elskuna meðan ég útbjó morgunverðinn. Það er mynd af henni á eldhúsborðinu vinstra megin við eldavélina. Henni fannst nefninlega gaman að fá að fylgjast með mömmu sinni elda þegar hún var á jörðinni.

Ég fylltist þakklæti yfir því að hún er ekki hér í þjáningunni, heldur á öðrum góðum stað, kannski í Landinu handan fjarskanum (eins og Míó litli) þar sem allir hafa verið frelsaðir undan örlögunum sem hinn illi Kató lagði á litlu börnin og dýrin.

Þakklæti líka yfir því að þurfa ekki að grípa til kolvetna til að finna ekki fyrir sorginni og missinum yfir því að barnið mitt er ekki hér, sem heilbrigður unglingur.

Ég bjó mér til góða sojapönnuköku með rjúkandi heitum kanileplum, sterkt espresso kaffi með froðumjólk í morgun. Horfði í kertaljósið og sendi út í himingeiminn eina litla bæn, handa látnum dætrum mínum, litlu krílunum mínum, stóru stelpunni minni og hennar maka, manninum mínum, sjálfri mér og öllum þeim sem eru með mér í átaki. Ég trúi á einhvern mátt eða orku sem heldur manni gangandi og ef maður "pluggar" sig inn í orkuna þá geta góðir hlutir gerst!!! Er allavega að prufa þetta, og það virðist gera mér lífið auðveldara.

Í dag ætla ég að halda útskriftaveislu fyrir systurdóttur mína, en hún er að útkrifast með BA í sálfræði, mamma hennar er stödd í nokkra mánuði erlendis, svo það kemur í minn hlut að skaffa húsnæði, en bróðir hennar "snilldarkokkurinn" eldar fiskisúpu. Það er ekki ætlast til að ég taki þátt í átinu og allir í kringum mig eru meðvitaðir um að ég borða ekki ákveðnar fæðutegundir, þannig að mér er jú boðið, en engu ýtt að mér. Fólk sýnir mér þá virðingu að hvetja mig ekki til áts, né verður móðgað þegar ég borða ekki það sem það er búið að útbúa. Það myndi heldur enginn ýta að mér sykri ef þeir vissu að ég væri sykursjúk, heldur sjá til þess að við hendina væru matvæli sem ég gæti borðað. Ég er nefnilega hömlulaus ofæta og ef ég byrja á þessum eina bita, þá er andskotinn laus.

Ég get ekki ítrekað það nógu mikið hvað líðan mín í dag er allt önnur en í byrjun árs, þegar ég var orðin fársjúk af ofáti. Spikfeit og heilsan búin. Vil ég það aftur til baka, NEI!!! Og hvað verð ég að leggja á mig til þess að lenda ekki þar aftur. Segja "nei" þegar mér er boðinn matur sem hentar mér ekki. Láta vita ef mér er boðið í mat, að ég sé á sérfæði og hvort það sé í lagi að ég borði á undan eða komi með grænmeti með mér ef upp á vantar. Próteinið get ég alltaf fengið hjá gestgjafa. Taka fram að ég þurfi að vigta matinn minn og fá að gera það í eldhúsinu - útbúa salat sem borið er fram sem forréttur og vigta á diskinn aðalréttinn sem einnig er borinn fram samtímis mat hinna. Enn sem komið er get ég gert þetta.

Þegar standandi partý er, þá borða ég áður en ég fer á staðinn og dreypi bara á sódavatni eða diet drykk (er að reyna að draga úr því líka). Mál eða vandamál? Ekki vandamál, en það er mál að gera þetta og maður þarf að venjast því að standa með matnum sínum og sjálfum sér. Hvað gerist svo í framhaldinu? Jú, maður fer að standa með sjálfum sér á öðrum vígstöðvum í hvívetna.

Þetta á ekki að hljóma sem siðaprédikun, heldur er þetta einungis mitt blogg um mína aðferð. Ég gæti ekki gert þetta nema afþví að ég er heild af fólki sem er að gera það sama og ég. Svo blogga égmeð konum sem eru að berjast við sína mataráráttu, það líka veitir mér ótrúlegan styrk.

Í kvöld fæ ég svo að hitta eina ykkar en hún er að útskrifast með Mastergráðu frá HÍ. Til hamingju.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home