léttfimmtug

þriðjudagur, október 26, 2004

281-283 / Lífið sinn vanagang

Oft, sem betur fer gengur lífið sinn vanagang. Hver dagur öðrum líkari og fátt sem kemur manni á óvart, nema helst manns eigin hugsanagangur!!! Maður er svo duglegur við að búa sér til innri veruleika, og flýja þangað þegar leiðinn hellist yfir mann.

Draumar um súkkulaði, tertur og önnur matvæli er eitthvað langt í fjarska, rétt eins og dagdraumar tengdum prinsi á hvítum hesti. Ég man þegar ég var unglingur þá voru þannig draumar svo raunverulegir að maður fann snertingu prinsins og eldheita kossa hans á vörum manns. Svo dofnuðu þessir draumar þegar maður fullorðnaðist, og núna ef maður vill upplifa þessa dásamlegu tilfinningu þá þarf maður að rembast eins og þegar harðlífið grípur mann. Sömu sögu má segja um minninguna um súkkulaðið, terturnar. Ég man varla bragðið, en finn þó enn fyrir silkimjúkri áferð súkkulaðirúsínunnar þegar hún léttilega þeyttist um munnhol mitt bráðnandi niður í maga. Jú, ég viðurkenni það fúslega, vildi alveg kála svona hálfu kílói í vetrarkuldanum. Fullt tungl og mjúkar rúsínur fara svo vel saman.

Ég hef vigtað og mælt í dag og borðað það sem mér er fyrir bestu. Í fyrramálið ætla ég að gæða mér á sojapönnuköku með bláberjum og útþynntu vanillu skyri.is - nokkuð gott skal ég segja ykkur.

Gangi ykkur öllum vel og njótið þess í kvöld að horfa á tunglið næstum fullt á himni.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home