léttfimmtug

þriðjudagur, janúar 04, 2005

351-352 / Kuldi þarfnast bruna

Ég skil ekki þetta kvart í mér varðandi þennan íslenska vetur sem heiðrar okkur all hressilega þessa dagana. Er það ekki svo að eftir því sem kaldara er þá þurfum við á fleiri hitaeiningum að halda til þess að verma þetta farartæki sálar okkar? Og grennist maður þá ekki í kulda ef maður er í fráhaldi? Ég bar spyr.

En ég er næstum orðin svo „skinny“ að mér er alltaf kalt brrrrr. Kuldinn læðist að mér á nóttunni og ég skelf í rúminu og vorkenni mér afskaplega, því, já, næturátið er ekki lengur leyfilegur gestur í þessum húsum. Ég semsagt má ekki hugga mig í því að skreppa fram í eldhús, opna búrskápinn hljóðlega, taka fram hnetusmjörið, sultuna, hið alíslenska smjör og „OK“ BRAUÐ - ég tek andköf - af söknuði.

Ég reyni að láta ekki heyrast í mér, vil ekki að maðurinn minn sem sefur á sitt græna vakni upp við gráðuga drauma mína í mat. Það er líka það sama nú og áður, ég hef engan áhuga á því að deila mat mínum né draumum um mat með öðrum, þetta er mín einka athöfn.

Ég rista brauðið, smyr það síðan með smjörinu og læt það bráðna ofan í brauðið áður en ég smyr það þykku lagi með hnetusmjörinu. Þegar ég hef slétt þetta fallega á tvær brauðsneiðar þá bæti ég ofan á sykurskertri sultunni (oh, þvílík blekking, alveg eins og hamborgari, franskar og diet coke) og hef hana ekki of þykka. Helli síðan ískaldri léttmjólk í hátt glas og staldra aðeins við, hjartað í mér tekur ótal kippi og vatnið seytlar um munnhol mitt. Ég get varla haldið aftur af mér, ég hlakka svo til að finna þessa fullnægju, þessa unaðslegu lausn frá argandi röddunum í neðri heila (magasvæðinu). Ég leyfi púkunum að garga aðeins, þeir geta beðið aðeins lengur, aðeins lengur og aðeins lengur. Ég lyfti brauðsneiðinni upp að munni mínum og augu mín lokast af minningunni um augnablikslausnina sem ég er í þann mund að fá, þessi yndislega lykt af ristuðu brauði og fylltri höfgan af hnetusmjörinu. Mér er ekki lengur kalt, blóðið rennur hratt um æðar mínar og ég er alsæl!!!

Skyndilega byrja háværar bjöllur að glymja og gamlar myndir streyma fram, ég sé eina myndina af annarri, ég þarna með signa undirhöku og hörundið rautt af hækkuðum blóðþrýstingi. Ég sé sárið á milli læra minna sem stöðugt stækkaði við aukna þyngd mína. Ég finn axlir mínar kikna undan ofurþunga brjósta minna og hjartað slær ótt og títt af áreynslu ofátsins.. ég hrekk við og stöðva framrás brauðsneiðarinnar í munn mér minnug að það er aðeins tæpt ár síðan ég var í rusli og þá var líka kaldur janúarmánuður..

Draum mínum er lokið og ég opna augun, ég skelf aðeins af kulda en velti mér á hliðina og laumast undir sængina hjá manni mínum og stel af honum líkamshita - hann verður bara að vera mitt ristaða hnetusmyrða brauð í nótt.

3 Comments:

  • Gerrit, breyttu stillingunum hjá þér svo að það sé hægt að kommenta sem anonymous, annars geta bara bloggernotendur kommentað hér.

    By Blogger Lilja, at 6. janúar 2005 kl. 19:26  

  • Lilja, ég kann ekkert á stillingar!!! - hver getur hjálpað???

    By Blogger gerrit, at 7. janúar 2005 kl. 00:22  

  • Gerrit, þú ferð inn á www.blogger.com og velur bloggið þitt, svo settings og þar veluru comments. Þar geturu merkt við ýmsa valmöguleika og einn af þeim er "Who can comment, og þá veluru "Anyone" þar.

    By Blogger Lilja, at 8. janúar 2005 kl. 15:35  

Skrifa ummæli

<< Home