léttfimmtug

sunnudagur, ágúst 07, 2005

Að gefast eða gefast ekki upp!

Einn og hálfur mánuður frá því að ég ákvað að setja stopp við sautján mánaða fráhald, þar sem ég losaði mig við ca. 29kg.

Hömluleysi í raun frá fyrsta bita þó svo að einn eða tveir dagar hafi liðið frá fyrsta sukkdegi að þeim næsta. Alltaf sú hugsun (eins og ætíð áður) á morgun byrja ég aftur. En það er ekki alveg að ganga upp.

Felur og undanskot, ótal ferðir í hinar ýmsu verslanir, heimsóknir á salerni og föt sem hlaupa í þvotti er minn veruleiki í dag.

Samt, ég er ekki ósátt. Mér líður eins og þetta sé undanfari andlegrar uppljómunar, reynslu sem á eftir að skilja mig eftir ríkari að auðmýkt og vilja til að lifa einn dag í einu í auðmýkt og fúsleika. Eða þetta gæti líka verið upphafið af hægsömum dauða í stöðugt þyngri líkama með öllum þeim sjúkdómum sem fylgja ofáti og búlemíu. Ég er að skoða þetta, bæði innanfrá og utanfrá.

Í dag er ég með magatruflanir, er á Amoxillini þar sem ég er að fá 6 Títan skrúfur í gómana á morgun. Ég veit ekki hvort niðurgangurinn stafi af kvíða eða aukaverkunum af sýklalyfinu. Ég er andlega tilbúin til að takast á við þessa aðgerð, sem tekur þrjá tíma og er að hluta sársaukafull. Aðgerð sem kemur til með að skilja mig eftir illa útlítandi eins og ég hafi lent í hræðilegum barsmíðum. Ég verð bólgin og marin í andliti. Matarlega séð er bara maukfæði framundan og ætla ég að reyna að hafa ekki sætindi í mínu maukfæði, heldur að undirbúa hina ýmsu góðu rétti lausa við sykur og einföld kolvetni.

Hér er ég 8kg þyngri eftir 6 vikna ofát og stend á krossgötum.

2 Comments:

  • Ekki gefast upp ... þetta er tröppuleikur ... ein upp ... 2 niður ... Veit að þú getur þetta skvís. Trúðu mér það er ömurlegt að vera komin í þá verstu tölu sem að ég hef séð á ævinni. Stattu þig stelpa og gangi þér vel með aðgerðina. Kv. Hafdís

    By Anonymous Nafnlaus, at 8. ágúst 2005 kl. 00:36  

  • Ég dáist af því hversu hreinskilin þú ert. Svona er vandamál okkar allra sem eru hömlulausar þegar matur er annarsvegar, og það er auðvelt að detta aftur í gamla farið. Ég hef fulla trú á að þú finnir þinn rétta farveg.

    By Anonymous Nafnlaus, at 8. ágúst 2005 kl. 10:09  

Skrifa ummæli

<< Home