léttfimmtug

mánudagur, janúar 29, 2007

Apinn sigraði

Ég tapaði orustu en ekki styrjöldinni. Apinn er þaulsetinn á herðakistli mínum og náði að flengja mig í gólfið og dansa trylltan stríðsdans á tómum mallakút mínum í síðustu viku. Það eru tvær ef ekki þrjár síðan apinn byrjaði að hrella mig og er ég ekki fjarri lagi að öll fjölskylda og ættbálkur apans hafi ákveðið að ég væri þeirra næsta "target" - það liggur við að ég blóti bara upphátt hér í bloggheimi.

Ég er á degi tvö núna og hef þurft að tæma vasann þar sem ég geymdi dagperlunar mínar rúmlega tvö hundruð og núna eru þær bara tvær sem liggja á vasabotni. Það er vottur af skömm í mér að skrifa þessar línur og ég vil helst ekki þurfa að viðurkenna opinberlega að "ég" mitt í góðu fráhaldi og fínu þyngdartapi hafi sjálfviljug (með hjálp apans) ákveðið að borða á mig eitt stórt feitt gat.. en "ce la vie" hér er ég átvaglið að rembast við að reka á brott svengdarhugsanir (Kommon! Ég get ekki verið svöng rétt eftir hádegismat), segjandi við sjálfa mig að ég geti klárað daginn án þess að fara í hömluleysi gagnvart mat. Ég segi við sjálfa mig líka að ég hafi engu tapað nema dagatalningu við það að endurnýja kynni mín við gamlan félaga (ofátið) í nokkra daga. Samt veit ég að fyrri reynslu að það er erfiðara að komast í fráhald heldur en að vera í fráhaldi.

Ég er samt ágætlega sátt við þann stað sem ég er á núna

4 Comments:

  • Esssku léttfimmtuga mín, svona gerist. Ertu með einhvern góðan stuðningsaðila til þess að fara í gegnum þetta fall með þér? Ferðu á fundi og gerir allt þetta mikilvæga til þess að rísa á fætur á ný? Verða þessir apakettir ekki alltaf í humátt á eftir okkur og bíða eftir því að stökva á bakið á okkur þegar við veikjumst í sjálfsvinnunni? Skil þig svo vel með dagperlurnar, falleg samlíking, er komin með 55 í dag og það hefur verið eitt af því sem ég hef verið hvað mest að safna undanfarið og það er að sjá þessa tölu hækka. En hvað með daginn í dag? Er hann ekki það eina sem við eigum? Er ekki alveg sama hvað við höfum safnað mörgum dögum ef við erum kannski í marga daga búnar að víkja frá prógramminu sem endar með falli? Gæti komið með djúsí frasasúpu núna en langar bara að segja að ég hugsa til þín, bið fyrir þér og óska þess að þú náir fráhaldi með öllum góðum ráðum hið fyrsta. Eigðu góðan dag:-)

    By Anonymous Nafnlaus, at 30. janúar 2007 kl. 11:01  

  • Mér finnst stærsti sigurinn vera unninn, þú ert byrjuð aftur!! En ég ætla að deila smá með þér sem ein góð vinkona mín sagði við mig um daginn þegar ég var alveg að drepast úr hungri, hún sagði: Það hefur aldrei neinn drepist úr hungri á milli hádegismats og kvöldmats svo þú getur verið alveg róleg"...Það er rosalega gott að hafa þetta í huga þegar aparnir, púkarnir og allt þetta slæma herjar á mann og vill það eitt að láta mann gefast upp. En þú gefst ekki upp, þú hefur sýnt það og sannað, þú kemur alltaf aftur til leiks...
    Gangi þér vel krútta og til hamingju með dag númer 2

    kv. Hildur

    By Anonymous Nafnlaus, at 30. janúar 2007 kl. 11:27  

  • Gott að heyra frá þér aftur. Þú sigraðir, það skiptir máli. Þessi orrusta vannst, og svo er bara að reyna að brynja sig sem best fyrir næstu - vera á undan að snúa apann niður.
    Finnst að þú ættir að kaupa þér einhverja flotta krukku og fullt af svona glersteinum og byrja að safna í krukkuna dagaperlum :)

    By Anonymous Nafnlaus, at 31. janúar 2007 kl. 09:02  

  • Eit skref aftur á bak og tíu skref áfram :) Þú ert svo dugleg að hrista þetta af þér aftur og aftur :)

    gangi þér vel kveðja smuga

    By Anonymous Nafnlaus, at 31. janúar 2007 kl. 13:53  

Skrifa ummæli

<< Home