léttfimmtug

mánudagur, desember 18, 2006

Dagur 195 - jólahugleiðingar

Það er svartasta skammdegi og úrhellis rigning þarna úti. Dálítið erfitt að fóta sig á hálum ísnum og ég verð að hafa mig við að skauta varlega á háhæluðum stígvélum minnug þess að ég er komin af léttasta skeiði og vel útsett fyrir góðu broti færi svo að ég flygi á minn mjóa rass. Úps, já ég er komin með mjóan rass og stundum er mér illt í honum þegar ég er búin að sitja lengi. Finn fyrir gömlum meiðslum á rófu og spjaldhrygg þar sem bólstrunin er ekki mikil fyrir hendi lengur.

Ég er farin að heyra héðan og þaðan: Er ekki komið nóg núna? Þarftu ekki að fara að passa þig? Þú ert að verða ansi toguð í andlitinu! HALLÓ!!! Það voru ekki margir sem bönkuðu léttilega í öxlina á mér og sögðu. Ertu ekki farin að fitna einhver ósköp aftur? Þú ert nú komin með ansi margar undirhökur, sem fela annarrs myndarlegt andlit þitt. Hvernig er það með blóðþrýstinginn, versnar hann ekki við þessi 20 aukakíló sem þú ert að burðast með? Nei, það var enginn sem innti mig eftir þessu blíðlega. Það var frekar að maður fengi kaldhæðnislegar athugasemdir varðandi vaxtarlagið á sjálfum sér.

Ég sneiði varlega framhjá svona athugasemdum, brosi blíðlega þegar fólk vill að ég stoppi áður en rassinn hreinlega dettur af mér og sný mér frá þegar andstyggilegar athugasemdir eru sendar í mína átt. Ég á mér líf sjálf, ég get valið það sem ég heyri og ég get valið mér þá vini sem eru mér hliðhollir í hvað formi sem ég er.

Ég er dásamleg sköpun almættisins og farartæki mitt er í góðu ásigkomulagi þessa dagana. Mig langar ekkert til að sukka í mat og sælgæti og hlakka til jólanna í "moderation".

1 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home