léttfimmtug

sunnudagur, desember 31, 2006

Dagur 211 - síðasti dagur ársins 2006

Ég sit í mínum gulu Snoopy náttfötum með smá blett á bringunni eftir morgunmatinn í morgun, en það er í lagi því ég fer í hreint í kvöld og undir hlý sængurföt sem ég hef skipt á. Fer líka í gott bað og skola af mér allt það sem liðið er bæði gott og slæmt þar sem ég ætla að halda inn í nýja árið með hreint borð.

Í byrjun þessa árs var ég á kafi í ofáti og aktífri búlemíu. Átröskunin á fullu og öll vanlíðanin sem fylgdi henni líkamlega, tilfinningalega og andlega. Ég var örg út í allt og alla. Þoldi ekki að vera komin á miðjan aldur með heilsufarslega vandamál tengd offitu og stressi, vera feit, lágvaxin og með slappari húð.

Ég var búin að vera í falli frá því í júní 2005 þegar ég tók fráhaldið mitt til baka eftir að hafa náð kjörþyngd (61.5kg), hafði byrjað að vigta og mæla 3x á dag 15. janúar 2004 og losað mig við 28kg. Á þessum tíma hafði mér liðið afskaplega vel og náði í fyrsta sinn í mörg ár að lifa kvíðalausu lífi. Ýmsir líkamlegir kvillar sem höfðu hráð mig s.s. hár blóðþrýstingur, vefjagigt, krónískt ristilbólga og hjartsláttartruflanir heyrðu fortíðinni til. Eitthvað fór úrskeiðis og ég fór að láta aðstæður fara í taugarnar á mér, hausinn á mér var fullur af mat alla daga og ég fór að telja mér trú um að ég gæti borðað einn bita mér að vandamálalausu.


Ég tók fyrsta hömlulausa bitann í júní 2005 og það var ekki aftur snúið. Ég þyngdist stundum um kíló á dag og ekki leið á löngu þar til ég var komin með extra 22kg aftur, vantaði bara 7 kg upp á þyngstu töluna mína.

Botninum var náð 7. júní þetta ár, ég gerði mér grein fyrir því að ég er matarfíkill og borða þegar mér líður illa, borða þegar mér líður vel og borða þegar ég get borðað. Ég laumast með mat, ég fel mat, ég borða í bílnum, ég borða á nóttunni og matur stjórnar lífi mínu. Ég skil ekki þetta ástand, finn bara fyrir því hvaða áhrif það hefur á mig að vera með hausinn fullan af mat allan liðlangan daginn.

Ég hef gefist upp einn dag í einu og plana mínar máltíðir, tilkynni og hef ekki áhyggjur af morgundeginum. Ég borða góðan mat og legg mikið í þessar máltíðir sem ég borða. Samferðarfólk mitt er mér hjálplegt og jafnvel þeir sem ekki skilja þessa áráttu mína að drekka bara kaffi þegar aðrir fylla diska sína kinka kolli samþykkjandi þegar ég útskýri ástand mitt í dag versus hvernig það var fyrir tæpum 7 mánuðum síðan.

Ég á ekki langt í kjörþyngd, ég lít vel út og er hraust. Útlitslega séð lít ég ekki út fyrir að vera orðin þetta gömul (53ja ára).

Í kvöld mun ég borða yndislegan mat með eiginmanni mínum. Við tvö saman með uppdekkað borð og kertaljós þakklát fyrir árið sem er að baki og full tilhlökkunar um enn betra ár 2007.

Ég þarf samt að vera á varðbergi því ég veit að letin og huglæg þráhyggja mun sækja á mig þegar grenningu er lokið (á 5kg eftir) og þá á ég örugglega eftir að segja sjálfri mér að ég geti borða einn og einn konfektmola.

Ég þakka ykkur öllum árið sem er að líða og óska ykkur farsældar á árinu 2007.

4 Comments:

  • Góður pistill hjá þér :) maður þekkir þetta allt sem þú ert að skrifa um.

    5 kg er nú ekki mikið en gangi þér vel kveðja smuga

    By Anonymous Nafnlaus, at 3. janúar 2007 kl. 15:11  

  • Hæ og gleðilegt ár.Fór til dóttur minnar í dag og hún var að hjálpa mer með bloggsíðuna mína.Og spurði mig hvort ég væri búin að lesa þitt blogg. Og þegar að ég kom heim fór ég að lesa bloggið þitt.Ég stend í sömu sporum og þú búin að setja á mig 20 kg síðan í april datt svona rosalega í það,hætti að vikta matinn og borða grænmeti og þetta var árángurinn.En núna er ég byrjuð og ekki verður aftur snúið.Og ég þarf svo á öllum stuðningi að halda.Og ég er líka til búin að hjálpa öðrum.Enda bara uppljóstraði ég í dag á síðunni minni hvað ég er búin að bæta á mig.Ég setti þig inn á linkinn hjá mer og vonandi er það í lagi.
    Baráttukveðjur glingglo,,,Kristín

    By Anonymous Nafnlaus, at 4. janúar 2007 kl. 19:26  

  • Hæ hæ
    Gleðilegt ár, frábært hvað þú stendur þig vel
    Gangi þér rosalega vel áfram
    Kveðja Íris

    By Anonymous Nafnlaus, at 5. janúar 2007 kl. 00:47  

  • Hæ Hæ
    Ég bara las pistilin þinn aftur bara svo skemmtilegur.Og takk fyrir comentið á síðuna mína.Er að fara góðan blogghring.
    Baráttukveðjur Kristín,,,,,glingglo,,,

    By Anonymous Nafnlaus, at 6. janúar 2007 kl. 09:56  

Skrifa ummæli

<< Home