léttfimmtug

laugardagur, desember 02, 2006

Dagur 179 - hugleiðingar

Ég var að lesa póstinn hennar Super S. og gat ekki verið meira sammála henni hvað varðar að fóta sig í nýjum lífsstíl, ná árangi, misstíga sig og feta sig aftur til baka á einstigi fráhaldsins.

Mér er um mun að skilja hvers vegna við etum þessi reiðinnar ósköp af mat okkur til óbóta. Hvaða hugsanir og tilfinningar liggja að baki því að vera svona blindur á eigið útlit, innri líðan og hömluleysi eða vanmátt!? Fyrir mig hef ég fá svör, ég hreinlega veit ekki afhverju ég fór að borða þar til mér varð svo illt í maganum, sálinni og líkamanum að ég hreinlega gat ekki meira. Eitthvað gerðist, kannski þegar ég var barn, sem gerði það að verkum að ég sótti í einföld kolvetni, vildi meira og meira en aðrir og augu mín voru ætíð stærri en maginn (ég tróð og fyllti diskinn minn þar til hann varð barmafullur). Kannksi er ég með líkamlegt óþol sem gerir það að verkum að ég get ekki hætt þegar ég byrja að borða BRAUÐ, SÚKKULAÐI, KÖKUR ofl. - á sama hátt og ég er með óþol fyrir áfengi og gat aldrei hætt (áfengislaus í 27 ár rúm núna).

Mín fyrsta matarminning er frá því ég var ungt barn í skóla, eða var það í forskóla. Skipta átti sælgætisstöng á milli okkar systra og sá ég um skiptinguna. Fyrst var stöngin brotin til hálfs en annarr endinn var stærri, þá tók ég bita af stærri endanum til að jafna stærðarmuninn en þá varð sá biti minni, svona hélt þetta áfram koll af kolli þar til aðeins pínulítill munnbiti varð eftir handa systur minni.

Einu sinni eyðilagði ég jólin heima. Ávaxtadósir voru geymdar til jólanna fram í búri(ég er af þeirri kynslóð þegar ekki var svo mikill matur til í búðum þ.e. framandi matur í þá tíð), ég eigingjarna litla stúlkan, sem var með þetta matarskrímsli í maganum læddist að nóttu til fram í búr, pikkaði göt á dósirnar og drakk úr þeim safann - þetta þýddi að þegar átti að skreyta ísinn með blönduðum ávöxtum þá voru þeir myglaðir og þurrir. Skemmtileg jól fyrir yngri systkini mín. Þau fóru í jólaköttinn, en ég er enn með skömm útaf þessum "matarstuldi".

Þegar ég hugsa um unglingsárin þá eru margar flestar minningar mínar tengdar mat, ekki endilega þessum íburðarmikla mat sem við búum við í dag, heldur heitum hafragraut með mjólk og brauð með osti. Ég man enn tilfinninguna af heitum grautnum með mjúkri mjólkinni. Stinnu heimabökuðu hvítu brauði með smjörklípu og osti. Sykursteiktu slátri með kartöflum í uppstúf og grænum baunum. Einstaka pönnukaka fylltri með sykri og vanilluhringjum í desembermánuði. Á köldum vetrardögum ornaði ég mér við tilhugsunina hvernær næsta máltíð kæmi full tilhlökkunar.

Þegar ég var ung kona og bjó erlendis, þá fór ekkert meira í taugarnar á mér en níska innfæddra þegar mér var boðin hálfur kaffibolli með mjólkurslettu og einni þunnri piparköku. Verra var ef heimboðið var í kvöldmat, þá var borinn á borð matardiskur þar sem búið var að skammta kjötið, kartöflur og grænmeti og svo þunnur eftirréttur í skál, svona rétt botnfylli.

Ég var samt alltaf grönn, alger písl 52kg þegar ég var 33 ára gömul. Ég hafði bara átt eitt feitt tímabil þegar ég var rúmlega 16 ára gömul og þá leið mér frekar illa því ég upplifði að vera rúllupysla í síðum kjól. Ég fór ekki að fitna fyrr en 35 ára gömul og fannst ég ægilega feit 66kg í 160cm skrokki og ljótan var á fullu í mér á þeim tíma. Ástæðan vafalaust fyrir því að ég þyndist frekar hægt var að ég hafði þróað með mér bulemiu og ég reykti. Svo þegar ég hætt reykingum árið 1988 þá fór allt úr böndunum og ég varð þessi þybbna madonna og náði svo mínu hámarki í jan 2004 89.3kg.

Ég byrjaði að vigta og mæla í janúar 2004, náði af mér 30kg og var alsæl og alviss um að ég gæti borðað eins og venjulega manneskja aftur. Hætti að vigta og mæla og viti menn, frá fyrsta bitanum varð ég hömlulaus bæði í mat og ælum og varð klósettskálin minn besti vinur frá þeim degi eða í rúmt ár. Ég náði síðan aftur botni fyrir hálfu ári og plús 20 kg og er búin að vigta og mæla síðan. Ég er komin í eðlilega þyngd aftur og á ekki nema nokkur kíló í kjörþyngd. Ég brosi og er skapbetri, ég á auðveldarar með að umgangast annað fólk og líkamleg heilsa er eins og hjá unglingi sbr. að ég er ekki lengur á blóðþrýstingslyfjum.

Ég er ekki laus við matarhugsanir og stundum get ég tímunum saman horft á matarprógrömm í sjónvarpinum BBC51 er uppáhaldið hjá mér, og ég slefa. Þegar ég er aum og ekki upp á mitt besta þá legg ég á flótta í dagdrauma um súkkulaðitertur, mjúk truffel, þungar sósur með góðri steik og mjúkar kartöflustoppur með mismunandi kryddum. Ég læt mig bara dreyma vitandi að ég get ekki tekið þátt í svona áti, því það mun að lokum leiða mig til líkamlegar örorku og andlegs dauða.

1 Comments:

  • Þú ert hetjan mín, það er klárt mál! Þú ert ekkert smá dugleg og allir ættu að taka þig til fyrirmyndar, haltu áfram að vera jafn frábær og þú ert! :)

    By Anonymous Nafnlaus, at 5. desember 2006 kl. 19:23  

Skrifa ummæli

<< Home