léttfimmtug

miðvikudagur, janúar 31, 2007

Aumingja apinn

Hann á ekki dagana sæla þennan daginn apagreyið. Það er enginn stuðningur af öxlinni minni í dag, sérstaklega þar sem ég í gærkveldi fór og lét særa hann í burtu. Þrátt fyrir að vera frekar tæknisinnuð og "updeituð" miðað við aldur og fyrri störf, þá heillar mig alltaf Nornaseiðurinn og dansinn, hið dulda og dulræna í veröldinni.

Þar sem ég er haldinn andlegri þráhyggju og líkamlegu óþoli gagnvart sumum matartegundum, þá verð ég að beita öðrum ráðum en þeim sem læknavísindin bjóða uppá. Til dæmis þá myndi gastric bypass (hjáveituaðgerð) ekki gagnast mér nema að ég tæki með í myndina hinn andlega þátt matarþráhyggju minnar.

Maturinn er það sem síðastliðin 28 ár hefur verið félagi minn og huggari, svo þið getið ímyndað ykkar tómleikann sem skapast þegar átpokarnir eru ekki lengur á sínum stað. Einmanaleikann þegar maginn er gargandi tómur og ekkert heitt og mjúkt sem rennur niður vélindað, í magann og svo sem róandi verkun út í blóðstreymið, en bara í stutta stund, örlitla stund áður en þörfin fyrir meira matarstöff gerir vart við sig.

Mér finnst voða asnalegt að vera haldin þráhyggju gagnvart mat. Að pukrast með það sem ég borða. Þegar aðrir fara að vera uppteknir af matarvenjum mínum (á sérstaklega við þegar samstarfsmenn verða varir við hin mörgu súkkulaðistykki og kexpakka sem ég sporðrenni), ég hreinlega skil ekki að "matarfíkn" sé raunveruleg fíkn sem herjar á fólk - HANANÚ - ég vil bara vera eðlileg og borða þegar ég er svöng.

Mig langar að blogga um eitthvað annað en mig og mat. Hvernig væri að ég færi að bögga ykkur með reynslu mína af því að fara í gegnum breytingarskeið kvenna án þess að roðna? Hvernig það er að eldast, fá hrukkur, styttast og fitna (þarna byrja ég á fitunni aftur)! Já!!!! Þetta er fasi útaf fyrir sig, tímabil sem allar konur ganga í gegnum vilji þær lifa langa ævi. Það verður víst enginn gamall án þess að líkaminn láti á sjá.

Mig langar að skoða mig eldast, finna söknuðinn eftir ungu konunni sem ekkert skildi og bara lifði. Mig langar að finna þessa gleði sem hellist yfir mann þegar sáttin er til staðar. Þegar maður einn dag í einu finnst lífið bara dásamlegt og sólarlagið það fallegasta sem til er í heiminum. Ég trúi því að þegar maður er á þeim stað þá hverfi allt sem heitir fíknir.

Æi, ég er bara að hugsa upphátt - það eru hvort eð heldur ekki margir sem lesa þessar hugrenningar mínar.

7 Comments:

  • Ég les þessar pælingar þínar og finnst þær alltaf jafn fræðandi. Það er kannski spurning um að hætta að blogga um átak og mat og blogga um eitthvað annað í staðin eins og þú segir, breytingaraldurinn. Þar sem matarþráhyggjan þín (eins og þú kallar það) er svona sterk þá ertu sennilega bara að ýta undir hana með því að vera blogga um hana!! Eða hvað!! Þú ein veist hvað er best, og ég er viss um að það þætti öllum gaman að lesa það sem þú skrifar um, þú ert það góður penni :) gangi þér vel krútta :)
    kv. Hildur

    By Anonymous Nafnlaus, at 31. janúar 2007 kl. 21:50  

  • Hvað sem þú kemur til með að skrifa um þá mun ég lesa, ekki spurning

    By Anonymous Nafnlaus, at 1. febrúar 2007 kl. 00:48  

  • Takk fyrir að gefa af þér með þvi að blogga. Hvað sem þú finnur þig knúna til að láta frá þér mun ég lesa, það er gott að lesa bloggið þitt og það eru ekki margir sem ég hef rekist á sem eru að glíma við matarfíknina og blogga um það. Mér fannst ég hafa fundið fjársjóð þegar ég rakst á þig því við erum að takast á við aðra hluti en t.d. þau sem eru á danska, það er þessi andlegi þáttur sem kallar á mikla vinnu og við fáum svo mikinn stuuðning hver af annarri. Þetta eru svona aukafundir, a.m.k. fyrir mig:-) Stundum langar mann líka að hvíla sig á þessu umræðuefni og tala/blogga um eitthvað allt annað og það er þá líka bara í besta lagi, gerum það sem okkur langar því við erum að þessu fyrir okkur en svo skemmtilega vill til að við erum kannski að hjálpast að með því að blogga en ekki bara hripa í litla blómabók í náttborðinu;-) Njóttu dagsins!

    By Anonymous Nafnlaus, at 1. febrúar 2007 kl. 08:25  

  • Mikið er gaman að lesa bloggið þitt.Já svona pælingar eru svo bara fræðandi.Já það er allveg frábært að hafa þetta blogg og geta stutt hvor aðra gefur mer mikið.Svo mikil stuðningur.Ef ég er eitthvað aum þá bara fer ég í tölvuna og fer að lesa bloggin ykkar og það brest ekki að ég verð allt önnur.
    Baráttukveðjur og gangi þer sem allra best.,,,glingglo,,,,

    By Anonymous Nafnlaus, at 1. febrúar 2007 kl. 09:06  

  • Þú ert frábær! Fróðlegt og skemmtilegt að lesa þín skrif.
    Hér á ég líklega eftir að verða fastagestur til að lesa og kommenta hjá þér... ef ég má.
    Má ég bæta þér inn á listann minn?

    By Anonymous Nafnlaus, at 13. febrúar 2007 kl. 21:56  

  • hæ...lít oft við hjá þér og hugsa hlýtt til þín...vona að apaskrattinn sjái þig í friði.....ef ekki þá má líka alveg blogga um það...eða hvað? Njóttu líðandi stundar ferðafélagi:-)

    By Anonymous Nafnlaus, at 14. febrúar 2007 kl. 09:39  

  • Hey les alltaf bloggið þitt og hef gaman af. Þú ert góður penni, einlæg og mannleg. I lúv it. Ekki hætta.....

    Tóta Århus

    By Anonymous Nafnlaus, at 15. febrúar 2007 kl. 07:40  

Skrifa ummæli

<< Home