léttfimmtug

mánudagur, janúar 15, 2007

Dagur 226 - apinn á öxlinni

Apinn er búinn að vera á öxlinni á mér í allan dag og eiginlega alla síðustu viku. Ég er ekki alveg að höndla að hafa hann þarna sveiflandi sér á milli axlna, upp á haus, niður á kvið og svo á bólakaf í tilfinningarnar mínar. Því miður, eða kannski sem betur fer þá er ég sveiflugjörn í skapi og á köflum er ég eins og íslensk veðrátta, ofurheit eina stundina, blaut og slabbaralega þá næstu og svo tekur þessi ísakuldi við og þannig hef ég verið í dag.

Ég er ekki auðveld í umgengni og hef þann brest að níðast á þeim sem næstur mér er og bestur og sýni ekkert nema lágvaxna fýluna og er svo hissust á því sjálf hversu loftið í kringum mig er illa lyktandi.

Einhverstaðar í góðum hóp fíkla í bata er stikkorðið HALT mikið notað (hungry, angry, lonely and tired - hungruð, reið, einmana og þreytt). HALT er það ástand sem rekur flesta fíkla í bata inní sitt gamla neyslumunstur og er það ástand lífshættulegt ef það rekst saman með brestinum "sjálfsvorkun". Í dag var ég í lífshættu og hömlulausu átinu næstum að bráð, en góður fundur og þolinmótt eyra vinar reyndist bólusetningin við þessu bráða ástandi og slapp ég með skrekkinn þennan daginn.

Öðru hvoru þá einfaldlega sogast ég ofan í þessa leiðinda bresti sem ræna mig brosinu og létta skapinu. Þetta ástand vil ég kalla spennufíkn því ég fer í ástand persónu sem lifir hratt og berst við að halda lífi þegar hún þeytist niður straumharða á yfir úfna kletta á móti straumhörðum sjónum. Ég þekki þennan barning og veit miklu betur hvernig ég á að bregðast við en þegar allt er í ljúfri röð og reglu.

OK, ég sökkti mér ekki niður í ofátið, ég fékk mér ekki súkkulaði - ég vigtaði og mældi, borðaði, fór í heitt bað, undirbjó morgun- og hádegisverð fyrir morgundaginn. Skellti mér í heitt bað, blés á mér hárið og smurði andlitið með svona ekki alltof of dýru rakakremi. Voila, hér sit ég þá aðeins skárri í skapinu og apinn stokkinn á einhverja aðra öxl til að angra.

3 Comments:

  • Já svona er þetta ég er búin að vera með svipaðann púka á öxlinni á mer í marga mánuði allveg ógeð.En þetta kemur einn dagin bvertu bara viss.Gangi þer sem best.
    Baráttukveðjur Kristín ósk,,glingglo,,

    By Anonymous Nafnlaus, at 18. janúar 2007 kl. 20:40  

  • Þú ert ekki smá dugleg :) Frábært hvernig þú vinnur á vandamálinu, og ert svo meðvituð um það.

    Ég er viss um að þú blásir þennan púka af þér áður en þú veist af.

    kveðja smuga

    By Anonymous Nafnlaus, at 22. janúar 2007 kl. 22:20  

  • Rosalega er alltaf gott að lesa skrifin þín. Þú ert full orku og raunsæi og tæklar vandamálin þegar þau koma upp. Margir hefðu leyft apanum að sigra en þú sendir hann í burtu frá þér, dugleg :)

    Gangi þér rosaleg vel og til hamingju með allan þann árangur sem þú ert búin að ná, 21 kg er sko eitthvað til að vera stollt af.

    Kveðja frá Árósum

    Hildur

    By Anonymous Nafnlaus, at 29. janúar 2007 kl. 11:22  

Skrifa ummæli

<< Home