léttfimmtug

laugardagur, febrúar 24, 2007

Laugardagur og sólin skín

Ég er farin að vakna fyrir allar aldir nú orðið og kann ekki lengur að liggja og gera ekki neitt. Þurrkuklúturinn er orðinn laugardagsvinur minn, síðan ajaxið og shower power. Eins og hvítur stormsveipur ræðst ég á rykið eftir að hafa fært maga mínum nauðsynlega orku til að komast í gegnum þessi morgunverk mín á laugardegi sem útivinnandi kona.

Maðurinn minn skiptir á rúminu og setur í þvottavél ásamt að hengja upp þvottinn, hans aðferð er ekki alltaf að mínu skap og mér tekst oftast að setja upp leiðindar nöldurtón og segja skemmtilega vel valin orð (yfirleitt eitthvað ekki fallegt), skvetta síðan rakri tuskunni þannig að úr verði nokkrir dropar sem tvístrast á og bletta annars glansandi baðinnréttingunni. Ég er með rykáráttu og reyni að reka það í burtu og helst ef áráttan fengi að ráða þá myndi ég setja rykskó og rykhanska á alla þá sem heimsækja mig svo þeir tækju eitthvað afþví með sér heim aftur.

Ég hef verið að gráta að undanförnu svona í laumi í bílnum. Það er stór kökkur í hálsinum á mér sem ég get ekki ælt frá mér, hann lætur heldur ekki undan þótt ég reyni að troða í mig ofturstórum trogum af mat.

Sjáið til, ég er lausaleikskrói á sextugsaldri eitthvað sem ekki þótti fallegt þegar ég var barn og hlutskipti sem ég upplifði að líða fyrir. Ég átti samt dásamlegan fósturföður sem elskaði mig sem sitt eigið barn, en ég saknaði þessi að vera ekki af hans holdi og blóði. Ég átti móður sem var engan vegin fullkomin en ég var hold hennar og blóð og ég þekkti mig svo vel í gegnum hana, ég sakna hennar nú í dag og ég sakna fósturföður míns en bæði hafa horfið á vit forfeðra sinna. Ég sakna þess að eiga ekki daglegt samneyti við systkini mín en öll höfum við fullorðnast og eignast eigin fjölskyldu og daglegt líf í eigin ryki. Ég elska hálfsystkini mín og veit að það er "ditto" tilfinning sem við kunnum ekki að tjá hvort öðru - hverjum var/er kennt að tjá hvort öðru með orðum og athöfnum kærleik og djúpa ást?... Ha!?

Blóðfaðir minn sem ég leitaði uppi fjórtán ára gömul, kynntist smá og missti svo aftur sjónar af og fann svo aftur, er að verða gamall maður sem þarfnast mín því ég er eina barnið hans. Mér finnst erfitt að veita þá aðstoð án þess að dusta ryktuskunni framan í hann og helst að vinda úr Ajaxklútnum yfir stuttklipptum gráum kollinum. Ég harma að eiga föður sem ekki gat hugsað vel um sig og kom sér þannig fyrir að fáir voru til staðar þegar þörf hans fyrir umönnun brast á. Af skyldurækni við blóðtengslin hef ég reynt að hjálpa og stjórna, kannski meira að stjórna og refsa og dæma en að iðka kærleiksríka hegðun og hlúa að honum eins og ég myndi hlúa að mér ókunnugri manneskju sem ætti bágt. En afþví hann sveik mig sem barn í aðstæðum sem voru algengar á þeim tíma og í hans stöðu var ekkert annað að gera en að ganga í burtu frá móður ófædda barnsins síns og láta sig hverfa, vil ég þá refsa honum og meiða hann? Ég veit það ekki!! Lífið er svo skrítið....!! Blóðfaðir minn er veikur, er að missa sjónina og geta hans til að hugsa um sjálfan sig er hverfandi. Svo ég trítla á hverjum degi niður á deild 12E á Lansanum til að tala við hann, kyssa hann á kinnina og læra að taka utan um hann.

Ég skildi ekki afhverju ég var alltaf svona meir í hvert skipti sem ég gekk útaf deildinni þar sem hann liggur, afhverju hjarta mitt sló svona ört og hversvegna ég upplifði að ég væri að missa vitið. Í gær varð mér það svo ljóst. Fyrir tæpum 12 árum síðan var ég þarna daglegur gestur í nokkur ár með langveikri dóttur minni. Á sömu stofu og faðir minn liggur lá dóttir mín banaleguna og eftir sama sjúkrahúsganginum bar ég andavana líkama þriggja ára dóttur minnar í kalda geymslu líkhússins. Öll sorgin, allur söknuðurinn, reiðin og vanmátturinn helltist yfir mig og loksins náði ég að gráta og með tárunum opnaði ég fyrir möguleikann á því að elska þá sem eftir eru í lífi mínu, systkini mín þó svo ég sjái þau sjaldan, föður mín þó svo hann hafi ekki lagt inn á kærleiksbankann mjög mikið, blóðdóttur mína sem ég yfirgaf fyrir þrjátíu og þremur árum síðan, barnabörnum mínum tveimur og ekki síst að muna ástina sem ég bar/ber til látinna dætra minna og leyfa mér að minnast þeirra daglega.

Ég ætla í dag að lifa í kærleika og þakklæti fyrir að vera það sem ég er í dag, fyrir það sem ég hef átt slæmt og gott og það sem ég á í dag, sem er að mestu leiti mjög góðir hlutir, fólk og aðstæður.

Í dag er ég í fráhaldi frá öllu því sem veldur mér skaða og dauðlegri sjálfsvorkun.

3 Comments:

  • Ótrúlega falleg saga....ég rataði inn á síðuna þína, er sjálf í fráhaldi og skrifa stundum um það. Endilega líttu við ef þú ert á blogg-rúntinum.

    Þú stendur þig svakalega vel og mikið til fyrirmyndar hvernig þú tekst á við tilfinningarnar.
    Kv.minnkandi
    www.blog.central.is/minnkandi

    By Anonymous Nafnlaus, at 25. febrúar 2007 kl. 21:01  

  • Æ ég samhryggist þér innilega með missinn! :( Vonandi gengur þér betur í fráhaldinu! :)

    By Anonymous Nafnlaus, at 25. febrúar 2007 kl. 23:10  

  • Takk fyrir að deila þessari reynslu. Mér finnst þetta holl og góð lesning. Gangi þér sem allra allra best.

    By Anonymous Nafnlaus, at 27. febrúar 2007 kl. 14:26  

Skrifa ummæli

<< Home