léttfimmtug

sunnudagur, febrúar 13, 2005

390-392 / Matarfíkn - sunnudagshugleiðin

Ég er alltaf að skoða og skoða minn innri mann og afhverju ég hegða mér eins og ég geri. Það sem ég á við, afhverju borða ég mér til óhollustu og afskræmingar.!!!??? Er ég á flótta undan einhverju innra með mér, vanmætti, óþægilegri upplifun, óhamingju, ótta eða sjálfseyðileggjandi hvöt? Ég neyðist víst til þess að skoða sjálfa mig vandlega nú þar sem ég er að nálgast kjörþyngd og þar sem lífið virðist blasa við mér úr öllum áttum með gleði, sigrum og góðri framtíðarsýn.

Þegar ég lít til baka og á átvenjur mínar, þá sé ég ekkert nema djúpan sársauka og mikinn flótta frá tilfinningum. Ég sá það ekki þá eða vildi ekki viðurkenna að ofát væri sjúkdómur, sem ekki væri hægt að lækna, en væri hægt að halda í skefjum einn dag í einu. Ég er að berjast við sjúkdóm af andlegum toga, sem kippir í mig stöðugt og reynir að ná mér í gamla farið aftur. Það hvísla raddir bæði í höfðinu á mér og svo viðhafa líka samferðarmenn mínir þessar sömu setningar "þetta ætti nú að vera í lagi", "þú ert orðin grönn", "hvað, máttu ekki bara smá"? - og þarna liggur mín barátta, ekki bara í fyrsta sinn, nei, í þúsundasta skipti. Í þetta skipti þá læt ég ekki eftir, ég hef kosið að verja þeim tíma, sem eftir er af mínu lífi í hamingju og hreysti á nákvæmlega þann máta, sem ég hef fengið að upplifa síðasta ár í fráhaldi.

Matur kemur aldrei til með að fylla mig hamingju. Maturinn er orku- og næringargjafi, sem bera að notast innan skynsamlegra marka. Ég hef lært að ekki dugar að fylla tankinn of mikið því þá flæðir bara útúr, eða eins og hjá okkur mannfólkinu hörund okkar þenst út og kranleikar sækja að manni sökum þess að allt er stíflað og ekkert getur hreyfst. Ofát getur heldur ekki lagað það sem fór miður í fortíð minni, hvort heldur það séu erfið unglingsár (sem ég sjálf átti þátt í að móta), virkur alkahólismi í 10 ár í mikilli sjálfseyðileggingu, sársaukafullt hjónaband til margra ára, barnamissir eða önnur vonbrigði sem ég lenti í. Ofát lagar heldur ekki skapgerðargalla mína, en heilbrigð neysla getur það aftur á móti.

Eftir margar byltur, mörg föll, heilsutap og mjög auma sjálfsmynd þá hef ég komist að því á því rúma ári sem ég hef verið í fráhaldi, að það líf sem ég lifi í dag í grönnum líkama fullum hreysti og í fjarveru þunglyndis og kvíða er sú framtíðarsýn, sem ég vil halda í. Mér hefur verið lofað af þeim sem hafa undan gengið í fráhaldi á mat samfara vinnu í innri manni sínum, að verðlaunin séu hamingja og hreysti - ekki endilega vandamálalaust líf - og ég hef fengið upplifa meira en brotabrot af þeim loforðum.

Ég get bara gert þetta einn dag í einu og safnað öllum þeim dögum saman að leiðarlokum og vonandi get ég þá talið í tugum ára líf í hreysti, innri ró og sátt.

6 Comments:

  • Þú ert svo ótrúlega dugleg, ég segi bara gangi þér áfram vel, þú ert frábær! :)
    kv 75kg.

    By Anonymous Nafnlaus, at 14. febrúar 2005 kl. 05:43  

  • Flott hjá þér að vinna svona með innri mann. Það er það sem skiptir mestu máli fyrir mig að minnsta kosti. kv. Hildur

    By Anonymous Nafnlaus, at 14. febrúar 2005 kl. 09:40  

  • En hvað þú ert frábær! Það er ekket smá sem þú ert búin að ávinna fyrir sjálfa þig, húrra fyrir þér kv Maja

    By Anonymous Nafnlaus, at 14. febrúar 2005 kl. 20:16  

  • Ohh það er alltaf svo dásamlegt að lesa skrifin þín. Þú fyllir mann lífsorku ef svo má að orði komast. Þegar ég les það sem þú skrifar þá hugsa ég alltaf, þessi kona er ótrúleg! Ég bara sit hér og bara er orðlaus..hvað er hægt að segja annað en VÁ! Þú stendur þig eins og hetja nú sem áður..megir þú aldrei falla aftur í gamla farið..til hamingju með hina nýju þig :)

    By Anonymous Nafnlaus, at 14. febrúar 2005 kl. 23:22  

  • Þú ert alltaf með svo skemmtilegar pælingar á þinni síðu... ég vildi að ég væri gædd jafngóðum frásagnarhæfileikum og þú :) Annars þyrfti þjóðfélagið að breytast og hætta þessu óholla hópáti :) afhverju þarf alltaf að gefa gestum eitthvað óhollt gúmmulaði? Afhverju er aldrei boðið bara upp á ávexti eða grænmeti? hmmm og afhverju er þessi hópþrýstingur að taka þátt í hópátinu?
    kv, eg_get

    By Anonymous Nafnlaus, at 15. febrúar 2005 kl. 10:29  

  • Þú ert algjör hetja að tjá þig um þetta hér. Flott hjá þér og gott að þú sért að vinna þig út úr þessu. Gangi þér áfram frábærlega vel ;)

    Kveðja
    Pavlova

    By Anonymous Nafnlaus, at 18. febrúar 2005 kl. 00:35  

Skrifa ummæli

<< Home