léttfimmtug

sunnudagur, mars 06, 2005

412-413 / Komin heim

Eins og planað var gekk allt vel hjá mér. Kom á Örkina rétt fyrir tvö og skellti mér í heilnudd og náði að slaka mér niður í góðan gír. Fór síðan upp á hótel og lét renna í heitt bað og nostraði við sjálfa mig í heitu baðinu. Yndislegt að geta legið í baði án þess að það þrengi að manni. Nuddaði skrokkinn upp úr body lotion frá Body Shop, Passion Fruit, og lagaði til hárið en mér til mikillar furðu er krullurnar komnar aftur á minn koll. Mér líst þannig á að ég sé aftur orðin barn og að ég hafi fundið mig til baka og því séu krullurnar aftur komnar, verst að kastaníu rauði hárliturinn lætur ekki á sér kræla en þeim hvíta fjölgar. Ég lita bara krullurnar og segi mér að maður sé eins gamall og maður hugsar. Þannig að ég hugsa mig heilbrigða af líkama og sál, laus undan eilífum ásóknum ofáts púkans - í dag á ég líf á milli máltíða, sem er æðislegt.

Maturinn var OK en ekkert sérstakur, ég tek samt ofan hattinn fyrir þeim því þeir vigtuðu og mældu eins og ég hafði beðið um og salatdressingin var mjög góð. Í morgun tók ég með mér vigtina, anans í eigin safa og dósaupptakara. Alltaf að vera með í bakhöndinni ef eitthvað skyldi vanta, og já, þarna voru ekki ávextir svo ég var í góðum málum. Að sjálfsögðu er alltaf eitthvað um að fólk horfi þegar ég vigta en ég kippi mér ekki upp við það.

Útlitsþráhyggjan kom upp í mér og ég fann hitt og þetta athugavert við það hvernig ég leit út.. húðin var slitin og sigin, enginn rass og ég leit út eins og rúllupylsa, ég er gömul og grá... osfr... maður getur grennst um tugi kíló en samt liðið illa og fundið þennan tómleika og verður maður þá að leita aðeins dýpra innra með sér afhverju þetta lélega sjálfsmat er. Datt líka í hug þar sem ég horfði á Skjá Einn, en þar var verið að sýna nokkurs konar Extreme Makeover - konur eru farnar að keppa í því eins og í Survivor hver getur látið fitla mest við sig... eldingu laust niður í hausinn á mér hvað við "konur" erum farnar að láta stjórnast mikið afþví að okkur geti aðeins liðið vel ef við lítum út eins og "Barbí" - við látum lyfta brjóstum, skera í burtu umframhúð, lyfta rassi, fylla sig af sílikoni og halda að þannig nái maður hamingju!!!! Sjálf er ég líka í þessum pakka að halda að ef ég læt afmá slitið á maganum og lyfta brjóstunum og taka augnpokana og strekkja á undirhökunni að þá hljóti ég að verða að eilífu hamingjusöm.. jamm - en það er ekki bara svo - ég var búin að hlakka til í heila viku að skella mér í Karin Miller dragt og stígvél og var svo viss um að þegar ég væri uppáklædd og greidd að þá væri allt frábært, það sem gerðist var að útlitsfíknin mín sagði mér að ég væri ómöguleg og að þetta og hitt væri í ólagi. Karen Miller virkar því ekki ef hausinn á mér er ekki í lagi...

Ég er samt mjög ánægð með að vera í fráhaldi og að ég þurfi ekki að borða yfir allar þessar tilfinningar sem þeytast fram og til baka eins og skopparakringla í hausnum á mér - Mér líður mun betur líka grannri heilsufarslega, já og líka tilfinningalega - en ég verð að vinna í því að viðhalda þessari líðan.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home