léttfimmtug

þriðjudagur, október 31, 2006

Dagur 147 - Brjóstaminnkun á morgun

Í dag er ég að kveðja hluta af líkama mínum sem hefur fylgt mér frá því ég var tæplega tólf ára gömul. Líkamshluti sem hefur alla tíð verið of stór, sama í hvaða þyngd ég hef verið.

Frá og með morgundeginum, eða upp úr kl. 10, þá er ekki aftur snúið. Þó nokkuð mörg grömm, nærri kílói munu hafa horfið af barmi mínum og í staðin eru komin minni brjóst þakin örum frá geirvörtu, niður og undir. Ég krossa fingur og bið um að gróandinn sé það aktífur í mínum líkama að ör verði að ári liðnu aðeins hvítar rákir, eins og rákirnar sem ég ber á kvið mínum eftir meðgöngu frumburðar míns. Stærsti hlutinn af þessu er þó að fá lausn frá vöðvabólgu, verki í háls og hnakka.

Ég er dálítið hrædd og þegar ég er hrædd þá hverf ég inn í sjálfa mig og segi sem minnst. Hendur mínar verða kaldar og andlitið er fölara en venjulega. Samt er ég ekki komin á hátind ótta míns, hann mun vafalaust birtast með miklum ákafa seinna í kvöld eða snemma í fyrramálið rétt áður en ég fer á spítalann. Ég mun samt ganga þessa göngu, því reynsla mín segir mér að allir slæmir hlutir enda að lokum.

Hef eldað og undirbúið þrettán máltíðir sem eru frystar og ekkert annað að gera fyrir kallinn minn en að búa til hrátt grænmeti og hita gumsið frysta. Ég hef líka planað að mér verði færður matur á spítalann svo ég slysist ekki til að detta ofan í kolvetnaátið sem alltaf leiðir mig á fallbraut.

Svo vona ég að ég festist ekki í þeirri hugsun að skurðaðgerðir geti gert mann yngri, grennri og hamingjusamari - því það er ekki reyndin.

1 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home