léttfimmtug

föstudagur, ágúst 25, 2006

Dagur 80 - Stend með mér

Tíminn flýgur og ég sit við tölvuna með stúfullan mat og ótrúlega södd. Lífið er að taka þann snúning að það gengur ekki allt út á mat hjá mér. Það lítur út fyrir "hjá mér" að ég eigi við líkamlegan og huglægan sjúkdóm að stríða - já! ég kalla það ástand sem ég er búin að vera í í tugi ára, sjúkdóm!!! - ég þoli alveg gagnrýni og það að ekki allir séu sammála mér :-)

Það er ekki eðlilegt ástand að éta á sig tugi kílóa, að liggja reglulega á bæn fyrir framan klósettið í ælukasti, sprauta microlax upp í endaboruna og framkalla uppköst.. ???

Er það eðlilegt að ná af sér tæpum 30kg á rúmu ári og éta svo 3/4 til baka á nokkrum mánuðum?!!! Að fara stöðugt sama hringinn ár eftir ár með þeim afleiðingum að líkamlegt útlit og andleg líðan er í algeru botnfalli.

Á síðasta ári reyndi ég að vera í svokölluðu "feitu æðruleysi" - vera sátt við að vera íturvaxin og stolt af mér eins og ég er, en það gekk bara ekki upp í vaxandi líkamsþyngd.

Ég er mjög ánægð með þá persónu sem innra með mér býr, ég bý yfir frábærum eiginleikum, þreki, áræðni og framkvæmdagleði. En ég get ekki verið sátt við að fá á mig marga sjúkdóma tengdu ofáti... væri ég með krabbamein þá myndi ég leggjast undir hnífinn, geislana og lyfjameðferðina og gera allt sem í mínu valdi og læknavísinda að ná bata. Því skyldi ég ekki gera það sama þegar um þekkt sjúkdómsferli er að ræða eins og aukna ofþyngd.

Hægt og rólega var ég búin að éta á mig krónískar ristilbólgur, hækkaðan blóðþrýsting, hjartsláttartruflanir, hækkaðan sykur, þunglyndi og ömurlegri líðan. Þetta ástand er ekki ásættanlegt fyrir mig.

Mér líður vel í dag, ég lít vel út en ég er ekki komin aftur í kjörþyngd. Það vantar ca. 12kg upp að ég nái þeirri þyngd sem ég tel að sé heppileg fyrir minn aldur og hæð.

Eina leiðin fyrir mig er að gera þetta einn dag í einu eins og ég hef haldið fráhald frá áfengi í rúm 27 ár. Á þann hátt á ég möguleika á lífsgleði og lífsleikni.

sunnudagur, ágúst 20, 2006

Dagur 75 - Úlfarsfellið

Það gerist æ oftar að það er svo gaman að vera til. Ég er eins og lítið barn sem gerir sér ekki grein fyrir öllum þeim annmörkum sem fylgja því að vera fullorðinn. Ég held að þetta sé bara ákvörðun hjá mér, að leiða hjá mér allar þessar fréttir af styrjöldum og átökum sem eiga sér stað fjarri heimaslóðum. Samt var ég minnt á þann hrylling sem sumir af okkar meðbræðrum þurfa að búa við þegar ég horfði á myndina Hotel Rwanda, það fór um mig gamall ótti og hrollur þegar ég hugsaði til þessa að margir þurfa að búa í skugga styrjaldar, hungursneiðar og kvíða í heiminum.

Ég er heppin, ég bý á Íslandi þar sem engin svona stór átök eru. Að vísu eru menn að lemja hvor aðra um helgar. Fíkniefnaneysla er að aukast og hér og þar er fólk sem býr við fátækt. Ég er heppin að hafa húsaskjól, 4ja herbergja íbúð sem ég deili með eiginmanni. Ég á ótrúlega skemmtileg barnabörn, dreng og stúlku sem eru vel af Guði gerð. Drengurinn alger stríðnisengill með mjúkt stórt hjarta, mjúkt stutt faðmlag og dillandi hlátur. Hann er ljóshærður og bláeygður. Daman er dökkhærð með dökk augu full af visku, dálítil dramadrottning og sérlega vel gefin. Hún verður vafalaust frumkvöðull og stjórnandi þegar hún verður stór. Það þýðir ekkert að kyssa hana, hún er ekkert gefin fyrir svoleiðis nema þegar hún sjálf vill. Þessi börn eru brunnur af gleði minni í dag. Svo á ég líka eina stelpu sem er orðin stór og er mamma þessara barna. Ég er stolt af stelpunni minni sem elur stubbana svona vel upp, hún er eljusöm kona sem býr yfir ótrúlegum styrk af því hún þekkir bæði styrk sinn og veikleika, alger SVÓT kona. Hvað vil ég meir en að sjá afkomendur mína búa við öryggi, nægan mat, húsaskjól og möguleika til menntunar.

Þetta þakklæti mitt má rekja til þess að ég er í fráhaldi í dag. Ég er líka búin að þramma á Úlfarsfelli á áður óþekktum hraða fyrir þessa ungu konu á sextugsaldri.

Ég er heppin, ég er þakklát fyrir að eiga hjarta sem slær í brjósti mér. Þakklát fyrir fæturnar sem bera mig yfir urð og grjót. Þakklát fyrir hendurnar sem geta hlúð að að sjálfri mér og í leiðinni öðrum. Þakklát fyrir sjón mína sem nema fegurð náttúrunnar svo langt sem augað eygir. Þakklát fyrir heyrn mína sem nemur hljóma alheimsins.

sunnudagur, ágúst 13, 2006

Dagur 68

Mikið er nú gaman að vera til stundum. Það skiptir engu máli þótt maður sé með einstaka verk í hnéi eða vöðvum. Gleðin yfir að vera hreyfanleg og engum öðrum háð! Ah, maður er jú auðvitað háður meðferðarfólki sínu þ.e. maka, börnum, barnabörnum, vinum, vinnu og öllu öðrum athöfnum sem gera mann að "human being" .....

Ég er nýbúin að ryksjúga heimilið með tilheyrandi svitaköstum. Ókeypis heilsurækt sem brennur upp þokkalegum hitaeiningum. Á eftir á svo að "browsa" hraunið rétt hjá Álverinu í Hafnarfirði, skoða rústir forvera minna og þá eyðilegginu sem "painti ball" menn skilja eftir sig. Hún er nú nokk skrítin þessi árátta að vilja skjóta og meiða menn og aðra.

Talandi um að meiða, hver meiðir sig mest nema maður sjálfur með óhollustu og vondum lífsstíl. Las í morgun í Fréttablaðinu grein eftir bandarískan alþingismann og lækni um það að óhollt mataræði myndi ganga af mannkyninu dauðu. Kannast ég við þetta? Að sjálfsögðu! Sjálf oftar en einu sinni búin að hálfdrepa mig á áti og ælum og öllum þeim kvillum sem átinu fylgja...

Nú er ég enn og aftur komin í fráhald og er full af orku. Mín ríkur á ekki of há fjöll (enda sjálf frekar lágvaxin) ræðst með ótrúlegu sprikli á sundbrautir höfuðborgasvæðisins, ríf af mér óhreinindi í gufuböðum og læt kalda gjóluna leika um hörund mitt þannig að það skreppur saman af gæsahúð.

Hvernig í ósköpunum datt mér í hug um mitt síðastliðin ár að kasta frá mér þessari yndislegu líðan og kraftir þegar ég er ekki að borða yfir mig. Hvernig stóð á því að ég valdi að éta á mig tuttugu kíló og að steypa mér aftur niður í ómögulega líðan bæði andlega og líkamlega? Ég veit það ekki, kannski er ég bara mannleg eins og allar hinar milljónir manna sem láta fljóta með straumnum og éta það sem á borð er fyrir mig sett af fæðueitri matarframleiðenda.

Bara mínar hugsanir í dag á sextugasta og áttunda degi í fráhaldi.

miðvikudagur, ágúst 09, 2006

Dagur 64

Já, ég er komin í gamla farið, vigta og mæli mínar þrjár máltíðir og ekkert á milli mála.

Þessi lífsstíll á við mig og mér líður óskaplega vel. Léttist um 3.3kg síðasta mánuð og upplifi mig aftur hressa og káta. Skil ekkert í því að hafa sleppt hendinni af sjálfri mér á síðasta ári og leyft mér að vera þræll átfíkninnar. Fíklar hafa stundum víst ekkert val, það er víst.

Ég á 13kg í kjörþyngd og ætla mér sex mánuði í það. Ég er ekki í megrun, ég hef breytt um lífsstíl einn dag í einu og ég er ekki í feitu æðruleysi eins og ég hef verið síðasta ár.

Mér líður ekki vel þegar ég er feit, sjálfsálitið er í molum, ég kemst ekki í nein föt og ég er ekki falleg íturvaxin - í ofþyngd er ég með of háan blóðþrýsting, meltingarvandamál, þunglynd og önug og annað í þeim dúr.

Mér er sama þótt ég sé félagslegt "frík" - þó svo ég fitti ekki inní samfélagslega átveislu, ég stend með sjálfri mér og tek háðung annarra með bros á vör. Ég ein er ábyrg fyrir minni eigin líðan og hef oftast val um hvar ég er stödd tilfinningalega þ.e.a.s meðan himin og jörð hrynja ekki yfir mig.

Jepps, ég er sátt í dag ;-)