léttfimmtug

laugardagur, janúar 29, 2005

374-377 / orðin lágvaxnari

Í gær fór ég í Hjartavernd til þess að fá matsniðurstöðu á heilsufari á milli ára, en í nóv. 03 þá var ég í algeru lamasessi og kom illa út úr rannsókn hjá þeim. Í gær kom í ljós að heilsufar mitt er álíka og hjá unglingi og að öll einkenni um hátt kólesteról, háan blóðþrýsting og hraðan hjartslátt hafa gengið til baka. Dömurnar voru mjög áhugasamar um hvernig ég hafði farið að þessum breytingum. Að sjálfsögðu er ég himinlifandi.

Í skoðun kom í ljós að ég hef lækkað, er semsagt orðin 158cm á hæð!!! 63.4kg (200gr í plús) og 25.2 í BMI - komin í kjörþyngd en má missa ca. 4-5kg í viðbót. Ég átti von á þessari niðurstöðu og er mjög sátt.

Þar sem ég er ekki svöng á milli mála þá ætla ég að halda áfram á þeim matarskammti sem ég er á ca. 1500 kcal á sólarhring.

Ég æfi nú fjórum sinnum í viku, þrjá virka daga fer ég á fætur kl. 6.15 og mæti í ræktina, hleyp ca. tuttugu mínútur og fer síðan í tækin með einkaþjálfara. Mæti síðan á laugardegi eftir klukkan tíu og tek hálftíma hlaup/hraðgöngu og svo í hálftíma í tæki.

Þegar líkami minn er búinn að aðlagast þessari hreyfingu og lyftingum, þá býst ég við því að ég nái þessum fimm kílóum af mér á þremur mánuðum og ætti því í maí að vera komin í þá þyngd sem ég vil vera í.

Ég er öll að styrkjast og vöðvar aðeins farnir að sýna sig, en að sjálfsögðu verð ég aldrei með skrokk óspilltrar meyju.

Fór í dag með vinkonu minni á Saltatbarinn og yndislegur kokkur þar sérútbjó fyrir okkur eldað grænmeti og svo gátum við notað hrásalat, egg og túnfisk af barnum. Ég er Salatbarnum þakklát fyrir veitta þjónustu og viðráðanlegt verð. Ég á eftir að fara þangað aftur.

þriðjudagur, janúar 25, 2005

370-373 / Heimavið

Ég er heimavið smálasin. Er að reyna að liggja fyrir svo ég æli ekki. Ekkert alvarlegt svo sem, bara svona létt flensa.

Í gærkveldi var ég að browsa lýtalækningasíður, skoða hvernig að svuntuaðgerðir, brjóstalyftingar og fleira litu út. Maður er jú með sigin brjóst, slitinn maga, laust hold innaná lærum og fleira sem tilheyrir því að lifa og eldast. Ég held líka að hluti af mínum átsjúkdómi sé útlitsfíkn, manni líður illa þegar maður er feitur og maður verður svekktur þegar maður grennist afþví maður er ekki með óflekkaðan unglingslíkama.

Mitt næsta verkefni er að sættast við sjálfa mig eins og ég er, fara í ræktina 4x í viku og reyna að stinna mig eins og ég get.

Annars gengur allt bara vel, ég held mig við minn lífsstíl að vigta og mæla og plana næsta dag. Segi samt að ég hlakka til þegar ég fæ að borða meira, hvernær sem það verður.

föstudagur, janúar 21, 2005

368-369 / allt í ljúfa löð og ég sakna rófnanna

Vissuð þið það, rófurnar eru ekki til í Bónus!!!! Ég bara hreinlega græt..AaaaAaa - allavega seinnipart föstudags voru þær ekki sjáanlegar, þessar elskur sem hafa komið í staðin fyrir karbullurnar, þið vitið, þessa kolvetnaríku hnullunga sem geta verið svo æðislega góðar. Ég verð víst bara að lifa með því.

Í gær sættist einkaþjálfarinn við mig og mitt mataræði. Ég elska að sættast. Sáttarhönd er eitthvað sem er svo þroskandi og gerir manneskjuna mýkri. Hún má hafa sína skoðun og ég mína hvað varðar mataræði, við þurfum ekki að búa til styrjöld yfir því hver hefur rétt fyrir sér. Það eru svo margir sannleikir þarna úti.

Stundum langar mig í súkkulaði eða eitthvað til að stuffa mig með, sérstaklega þegar það er svona kalt úti og svo þegar föstudagskvöld er komið. Ég ætla að leggjast uppí sófa, undir sæng og hressa mig við á SítrónuKristal og kannski einu Tab glasi.

Matseðillinn minn er svipaður öðrum dögum.

400 gr AB mjólk
200 gr Ananas

Hveitikímkaka úr 45 gr hveitikími og ítölsku kryddi
20 gr rjómaostur
30 gr brauðostur
15 gr smjörvi
100 gr tómatur

Hveitikímkaka úr 45 gr hveitikími og ítölsku kryddi
60 gr tacosósa
30 gr majones
340 gr laukur, salat og tómatur
100 gr steikt hakk í taco kryddi og tómatpaste

Þetta var ágætis tortilla -

Ég er södd en með verki í túttunum, trúið þið því!!! það er sko hægt að fá vöðvabólgu í brjóstin - jahá, ég er búin að vera að drepast til skiptis í sitthvoru brjóstinu - en þetta gengur yfir.

Ég er að fara á ráðstefnu í Englandi með fitubollum víða að úr heiminum í enda febrúar - þetta eru allt kellur sem eru í sama fráhaldi og ég. Við förum tvær héðan af Íslandi. Mér skilst að þarna sé fjör og flottheit. Dömurnar deila með sér reynslu, styrk og vonir.

miðvikudagur, janúar 19, 2005

367 / Ágreiningur

Ég lenti í smáorðaskaki við þjálfarann minn í morgun. Hún hafði tekið saman matarbókina mína fyrir einn dag og var skelfingu lostin. Skelfilegt, skelfilegt!!! sagði hún, þú átt eftir að fá heilablóðfall eða hjartaáfall með þessu fæði þínu. Ég svaraði, 26kg léttari á árinu, kolestrolið komið í eðlilegt horf, blóðþrýstingurinn orðinn eðlilegur, vefjagigtin horfin, kvíðinn farinn, þunglyndið farið, hjartsláttarköstin hætt og þolið miklu betra. Á ég semsagt að skipta yfir í gamla farið??? Við svona smáhnakkrifust um þetta.

Ég ætla að halda mínu striki í matarmálum og halda áfram að þjálfa.

Morgunverður Magn þyngd prótein kolv. Fita

AB-mjólk 2 glös 400gr 15.6 20.4 15.6
Epli, rautt stórt 300gr 0.9 32.7 0.9
Samtals gr. per orkuefni 16.5 53.1 16.5
Samtals kaloríur per orkuefni 66 212.4 148.5
Hlutfall orku per orkuefni 15% 50% 35%
Samtals kaloríur 426 kcal

Hádegisverður

Hveitikím 45gr 6.9 9.5 2.4
Pepperoni 50gr 5.6 1.8 12.7
Smjör 15gr 1.2 0.2 6
Skyr.is 200gr 21.2 25.2 0.8
Tómatar 100gr 0.8 2.1 0.3
Samtals gr. per orkuefni 35.7 38.7 22.2
Samtals kaloríur per orkuefni 142.7 154.8 199.7
Hlutfall orku per orkuefni 29% 31% 40%
Samtals kaloríur 497 kcal

Kvöldmatur

Vínarpylsa 100gr 12.8 4.6 19.5
Laukur 50gr 0.8 4 0.2
Hvítkál 150gr 2 6.1 0.3
Rauðrófur, heimasoðnar 150gr 1.5 11.1 0.4
Íssalat 150gr 1.4 2.2 0.2

Samtals gr. per orkuefni 19 28.4 44.2
Samtals kaloríur per orkuefni 76 113.8 398.2
Hlutfall orku per orkuefni 13% 19% 68%
Samtals kaloríur 588 kcal

Samtals yfir daginn kcal 1512
Fita 49%
Kolv. 32%
Prótein 19%

þriðjudagur, janúar 18, 2005

366 / Vigtunardagur

Það fóru 1.5kg þennan mánuðinn. Fallþungi er í dag 63.2kg og eru alls farin síðan 18. janúar 2004 26.1kg.

Ég þorði í fyrsta sinn á sunnudaginn að skoða myndir sem voru teknar af mér á Kanarí áramótin 2003-/2004 - Oh, my God - þar var á ferðinni falleg feit kona (jú, því feitar konur eru líka fallegar) en munurinn er samt mikill, sérstaklega hvað mér líður betur andlega, líkamlega og tilfinningalega.

Þótt feitt geti verið fallegt, þá eru það ýmsir sjúkdómar sem herja á mann, sérstaklega þegar komið er yfir fertugsaldurinn. Hár blóðþrýstingur, lélegt meltingarkerfi, stoðkerfisvandamál, þunglyndi, svefnleysi og svo mætti lengi telja.
Þessi einkenni hef ég losnað við smám saman síðastliðið ár.

Ég ætla að halda áfram í grenningu í mánuð til viðbótar og sjá svo til við vigtun 18. febrúar hvað ég geri. Tek það fram að ég er ekki með anorexiu, enda bara 159cm á hæð og má alveg vera 58kg.

mánudagur, janúar 17, 2005

363-365 / gamlársdagur hjá mér

Ójá, nú er ég búin að borða síðustu máltíð ársins og dagarnir í fráhaldinu orðnir 365. Á morgun vigta ég mig og kem þá með nýjustu tölur.

Ég er búin að vera að sprella í ræktinni í rúma viku og fer eldsnemma á fætur til að koma mér í brennslu og svo lyftingar. Mér finnst í raun auðveldara að drífa mig framúr korter yfir sex heldur en um áttaleitið. Harðsperrur fara minnkandi og sulturinn líka, ég þarf bara mínar þrjár máltíðir á dag sem stendur.

Borðaði í dag:

400 gr AB mjólk með kanil og canderel
1 epli brytjað út í

Hveitikímköku úr
45 gr hveitikími
50 gr pepperoni
200 gr skyr
15 gr smjörvi

100 gr kjúklingapylsur
350 gr rófur, gulrætur, laukur og paprikka í kryddaðri Taco sósu
150 gr blandað salat
30 gr majones.

Nú er ég að þjóta í Menntaskólann minn að reyna við stúdentinn þrjátíu árum seinna.

Bæ dömur nær og fjær - nú árið er liðið í aldanna skaut og aldrei ég sukka í matmatmat ... á morgun ég vigta og mæli minn mat og skrokkurinn grennist að vana.

föstudagur, janúar 14, 2005

359-362 / jájá

Ójá, bráðum bráðum er árið liðið hjá mér. Það er bara að þrauka fram að miðnætti á næsta mánudag. Spennt að vita hvað vigtarskömmin segir, á ekki von á að hafa þyngst en hversu mikið léttunin verður það kemur í ljós.

Ég er að drepast í skrokknum eftir ræktina, hver einn og einasti vöðvi er ómögulegur og mér líður eins og uppblásinni dúkku, sem er ofblásin og stíf. Ég bara vona að þetta séu byrjunarverkir og strengir sem hjaðni.

Svo er ég byrjuð í skólanum, þannig að mín dagstörn er orðin ansi löng, en ég ætla ekki að kvarta þar sem þetta er sjálfskapað og ég hef engan nema sjálfa mig og manninn til að hugsa um - cummon girl, keep up the good face - :-) -

Það er ótrúlega vinna að vera í fráhaldi, ég þarf að hafa fyrir því að vera orðin grönn. Ég er stundum pirruð út í fráhaldið og skammast og röfla, en kemst samt alltaf að þeirri niðurstöðu að ég vilji frekar þetta heldur en feitan og þreyttan skrokk - ég vil frekar vera 63kg eins og ég er vafalaust í dag heldur en þessi tæpu 90kg sem ég var fyrir ári síðan.. svo ég held áfram að vigta og mæla og plana matinn minn fram í tímann.

Ég borðaði góðan morgunmat:
400 gr AB mjólk
200 gr Ananas

HM
100 gr baconkæfa
Hveitikímskaka úr 45gr kími og kryddi
15 gr smjör
100 gr rauðrófur í xylitoli og eplaediki

KM
100 gr kjúklingur
300 gr rófur
200 gr laukur, paprikka, sveppir og kúrbítur í Balti karrýsósu
30 gr fita

Bráðum bráðum bráðum fer ég að fá meiri mat.

Jæja, ég ætla að reyna að fara í gott skap núna og gera eitthvað úr deginum

Ein í fráhaldi og fýlu

mánudagur, janúar 10, 2005

353-358 / köld og svöng

Brrr, mér er kalt og ég er svöng og það er ekkert sem ég get gert í því nema bíða að þetta líði hjá. Kuldann get ég klætt af mér en öllu verra er með svengdina, ég er bundin þessu loforði að vigta og mæla þrjár máltíðir á dag og ekkert þar á milli. Ég vil ná árinu sem er í næstu viku eða þriðjudaginn 18. janúar - hvað ég geri svo á eftir að koma í ljós. Kannski ákveð ég að taka mér pásu, en þá minnug þess að í gær hitti ég konu sem tók sér frí í desember og er búin að fá á sig 4kg til baka, bjúg og líkamleg óþægindi og ætlar hún að taka aftur upp þráðinn næstu mánaðarmót.

Mig langar ekki til að fitna aftur og mig langar til að viðhalda þessu góða líkam- og andlega heilbrigði sem ég hef fengið í kaupbæti við grennri líkama. Það er jafnvel bara kannski eðlilegt að finna til svengdar og löngunar í kolvetni og það mikið af þeim, en mig dreymir stóra drauma þegar ég hugsa um yfirvofandi fall mitt!!!!

Svo er ég búin að vera að drepast í vinstra brjósti, það er eins og það sé verið að rista það með rakvélarblöðum. Ákvað að kveljast ekki lengur af verkjum og ótta við að ég mér væri að ræktast krabbi og dreif mig á heilsugæsluna, útskurður: vöðvafestubólgur í mjólkurkirtlinum, gott mál, þá er ekkert að óttast nema þennan óþægilega verk þegar ég fer úr brjóstahaldinu og herlegheitin fylgja þyngdaraflinu og togast í átt að gólfi. Ég læt minn elskulega bara nudda og bera hitakrem á þetta svæði.

Byrjaði í einkaþjálfun í morgun eftir hátíðarnar: þjálfi vill að ég borði meiri prótein, en ég afþakkaði það þar sem ég hef náð grenningu og heilbrigði í mínum lífsstíl. Þarf ekki að kaupa mér rándýra próteindrykkji... vil bara vera þarna á mínum matarforsendum og fá aðstoð við að þjálfa vöðva og þol - skiptumst á skoðunum og ég stóð fast á mínu.

Nú, svo byrjar skólinn á miðvikudag þannig að ég verð önnum kafi næstu mánuði, vonandi held ég fráhald í öllu þessu brjálæði.

þriðjudagur, janúar 04, 2005

351-352 / Kuldi þarfnast bruna

Ég skil ekki þetta kvart í mér varðandi þennan íslenska vetur sem heiðrar okkur all hressilega þessa dagana. Er það ekki svo að eftir því sem kaldara er þá þurfum við á fleiri hitaeiningum að halda til þess að verma þetta farartæki sálar okkar? Og grennist maður þá ekki í kulda ef maður er í fráhaldi? Ég bar spyr.

En ég er næstum orðin svo „skinny“ að mér er alltaf kalt brrrrr. Kuldinn læðist að mér á nóttunni og ég skelf í rúminu og vorkenni mér afskaplega, því, já, næturátið er ekki lengur leyfilegur gestur í þessum húsum. Ég semsagt má ekki hugga mig í því að skreppa fram í eldhús, opna búrskápinn hljóðlega, taka fram hnetusmjörið, sultuna, hið alíslenska smjör og „OK“ BRAUÐ - ég tek andköf - af söknuði.

Ég reyni að láta ekki heyrast í mér, vil ekki að maðurinn minn sem sefur á sitt græna vakni upp við gráðuga drauma mína í mat. Það er líka það sama nú og áður, ég hef engan áhuga á því að deila mat mínum né draumum um mat með öðrum, þetta er mín einka athöfn.

Ég rista brauðið, smyr það síðan með smjörinu og læt það bráðna ofan í brauðið áður en ég smyr það þykku lagi með hnetusmjörinu. Þegar ég hef slétt þetta fallega á tvær brauðsneiðar þá bæti ég ofan á sykurskertri sultunni (oh, þvílík blekking, alveg eins og hamborgari, franskar og diet coke) og hef hana ekki of þykka. Helli síðan ískaldri léttmjólk í hátt glas og staldra aðeins við, hjartað í mér tekur ótal kippi og vatnið seytlar um munnhol mitt. Ég get varla haldið aftur af mér, ég hlakka svo til að finna þessa fullnægju, þessa unaðslegu lausn frá argandi röddunum í neðri heila (magasvæðinu). Ég leyfi púkunum að garga aðeins, þeir geta beðið aðeins lengur, aðeins lengur og aðeins lengur. Ég lyfti brauðsneiðinni upp að munni mínum og augu mín lokast af minningunni um augnablikslausnina sem ég er í þann mund að fá, þessi yndislega lykt af ristuðu brauði og fylltri höfgan af hnetusmjörinu. Mér er ekki lengur kalt, blóðið rennur hratt um æðar mínar og ég er alsæl!!!

Skyndilega byrja háværar bjöllur að glymja og gamlar myndir streyma fram, ég sé eina myndina af annarri, ég þarna með signa undirhöku og hörundið rautt af hækkuðum blóðþrýstingi. Ég sé sárið á milli læra minna sem stöðugt stækkaði við aukna þyngd mína. Ég finn axlir mínar kikna undan ofurþunga brjósta minna og hjartað slær ótt og títt af áreynslu ofátsins.. ég hrekk við og stöðva framrás brauðsneiðarinnar í munn mér minnug að það er aðeins tæpt ár síðan ég var í rusli og þá var líka kaldur janúarmánuður..

Draum mínum er lokið og ég opna augun, ég skelf aðeins af kulda en velti mér á hliðina og laumast undir sængina hjá manni mínum og stel af honum líkamshita - hann verður bara að vera mitt ristaða hnetusmyrða brauð í nótt.

sunnudagur, janúar 02, 2005

349-350 / Nýtt ár byrjað með kuldakasti

Ég hélt fráhald um áramótin eins og ég hafði einsett mér. Ekkert erfitt en þó finn ég fyrir ákveðnum söknuði, maður er aðeins á skjön við þetta neyslusamfélag á svona hátíðardögum - hver vill vigta og mæla þegar aðrir eru með kúfaða kolvetnisdiska? Ég!! eða ég verð að trúa að það sé minn vilji að vera í lausn frá hömlulausu ofáti!!

En ég má alveg sakna gamalla neysluvenja og finna fyrir þessum ljúfsáru minningu um fyllingu sem fylgdi troðfullri bumbu og höfginni í kjölfar ofátins - í dag liggur mér einna helst við að taka eina "dísu" til að finna ekki fyrir einmanaleikanum sem fylgir frostinu og rokinu.

Já, mér hefur liðið þannig í dag, ég er einmana þegar ég horfi á kuldarlega náttúruna, ég finn fyrir tómleika í brjóstinu þegar bíllinn rennur stjórnlaus í frosnum hjólförum í miðbæ borgarinnar. Það er dimmt og það er kalt, og ég hef ekki heitan kakóbollann til að verma mig við.

Ég ætla að heita því í kvöld að vera í fráhaldi á morgun og ég bara bíð þar til sólin fer aftur að skína og geislar hennar hita upp hjartað mitt aftur - ef ég bara freista því í einn dag að taka fyrsta hömlulausa bitann, þá get ég horft framan í vorið sátt og ánægð í grönnum líkama.