léttfimmtug

miðvikudagur, janúar 31, 2007

Aumingja apinn

Hann á ekki dagana sæla þennan daginn apagreyið. Það er enginn stuðningur af öxlinni minni í dag, sérstaklega þar sem ég í gærkveldi fór og lét særa hann í burtu. Þrátt fyrir að vera frekar tæknisinnuð og "updeituð" miðað við aldur og fyrri störf, þá heillar mig alltaf Nornaseiðurinn og dansinn, hið dulda og dulræna í veröldinni.

Þar sem ég er haldinn andlegri þráhyggju og líkamlegu óþoli gagnvart sumum matartegundum, þá verð ég að beita öðrum ráðum en þeim sem læknavísindin bjóða uppá. Til dæmis þá myndi gastric bypass (hjáveituaðgerð) ekki gagnast mér nema að ég tæki með í myndina hinn andlega þátt matarþráhyggju minnar.

Maturinn er það sem síðastliðin 28 ár hefur verið félagi minn og huggari, svo þið getið ímyndað ykkar tómleikann sem skapast þegar átpokarnir eru ekki lengur á sínum stað. Einmanaleikann þegar maginn er gargandi tómur og ekkert heitt og mjúkt sem rennur niður vélindað, í magann og svo sem róandi verkun út í blóðstreymið, en bara í stutta stund, örlitla stund áður en þörfin fyrir meira matarstöff gerir vart við sig.

Mér finnst voða asnalegt að vera haldin þráhyggju gagnvart mat. Að pukrast með það sem ég borða. Þegar aðrir fara að vera uppteknir af matarvenjum mínum (á sérstaklega við þegar samstarfsmenn verða varir við hin mörgu súkkulaðistykki og kexpakka sem ég sporðrenni), ég hreinlega skil ekki að "matarfíkn" sé raunveruleg fíkn sem herjar á fólk - HANANÚ - ég vil bara vera eðlileg og borða þegar ég er svöng.

Mig langar að blogga um eitthvað annað en mig og mat. Hvernig væri að ég færi að bögga ykkur með reynslu mína af því að fara í gegnum breytingarskeið kvenna án þess að roðna? Hvernig það er að eldast, fá hrukkur, styttast og fitna (þarna byrja ég á fitunni aftur)! Já!!!! Þetta er fasi útaf fyrir sig, tímabil sem allar konur ganga í gegnum vilji þær lifa langa ævi. Það verður víst enginn gamall án þess að líkaminn láti á sjá.

Mig langar að skoða mig eldast, finna söknuðinn eftir ungu konunni sem ekkert skildi og bara lifði. Mig langar að finna þessa gleði sem hellist yfir mann þegar sáttin er til staðar. Þegar maður einn dag í einu finnst lífið bara dásamlegt og sólarlagið það fallegasta sem til er í heiminum. Ég trúi því að þegar maður er á þeim stað þá hverfi allt sem heitir fíknir.

Æi, ég er bara að hugsa upphátt - það eru hvort eð heldur ekki margir sem lesa þessar hugrenningar mínar.

mánudagur, janúar 29, 2007

Apinn sigraði

Ég tapaði orustu en ekki styrjöldinni. Apinn er þaulsetinn á herðakistli mínum og náði að flengja mig í gólfið og dansa trylltan stríðsdans á tómum mallakút mínum í síðustu viku. Það eru tvær ef ekki þrjár síðan apinn byrjaði að hrella mig og er ég ekki fjarri lagi að öll fjölskylda og ættbálkur apans hafi ákveðið að ég væri þeirra næsta "target" - það liggur við að ég blóti bara upphátt hér í bloggheimi.

Ég er á degi tvö núna og hef þurft að tæma vasann þar sem ég geymdi dagperlunar mínar rúmlega tvö hundruð og núna eru þær bara tvær sem liggja á vasabotni. Það er vottur af skömm í mér að skrifa þessar línur og ég vil helst ekki þurfa að viðurkenna opinberlega að "ég" mitt í góðu fráhaldi og fínu þyngdartapi hafi sjálfviljug (með hjálp apans) ákveðið að borða á mig eitt stórt feitt gat.. en "ce la vie" hér er ég átvaglið að rembast við að reka á brott svengdarhugsanir (Kommon! Ég get ekki verið svöng rétt eftir hádegismat), segjandi við sjálfa mig að ég geti klárað daginn án þess að fara í hömluleysi gagnvart mat. Ég segi við sjálfa mig líka að ég hafi engu tapað nema dagatalningu við það að endurnýja kynni mín við gamlan félaga (ofátið) í nokkra daga. Samt veit ég að fyrri reynslu að það er erfiðara að komast í fráhald heldur en að vera í fráhaldi.

Ég er samt ágætlega sátt við þann stað sem ég er á núna

mánudagur, janúar 15, 2007

Dagur 226 - apinn á öxlinni

Apinn er búinn að vera á öxlinni á mér í allan dag og eiginlega alla síðustu viku. Ég er ekki alveg að höndla að hafa hann þarna sveiflandi sér á milli axlna, upp á haus, niður á kvið og svo á bólakaf í tilfinningarnar mínar. Því miður, eða kannski sem betur fer þá er ég sveiflugjörn í skapi og á köflum er ég eins og íslensk veðrátta, ofurheit eina stundina, blaut og slabbaralega þá næstu og svo tekur þessi ísakuldi við og þannig hef ég verið í dag.

Ég er ekki auðveld í umgengni og hef þann brest að níðast á þeim sem næstur mér er og bestur og sýni ekkert nema lágvaxna fýluna og er svo hissust á því sjálf hversu loftið í kringum mig er illa lyktandi.

Einhverstaðar í góðum hóp fíkla í bata er stikkorðið HALT mikið notað (hungry, angry, lonely and tired - hungruð, reið, einmana og þreytt). HALT er það ástand sem rekur flesta fíkla í bata inní sitt gamla neyslumunstur og er það ástand lífshættulegt ef það rekst saman með brestinum "sjálfsvorkun". Í dag var ég í lífshættu og hömlulausu átinu næstum að bráð, en góður fundur og þolinmótt eyra vinar reyndist bólusetningin við þessu bráða ástandi og slapp ég með skrekkinn þennan daginn.

Öðru hvoru þá einfaldlega sogast ég ofan í þessa leiðinda bresti sem ræna mig brosinu og létta skapinu. Þetta ástand vil ég kalla spennufíkn því ég fer í ástand persónu sem lifir hratt og berst við að halda lífi þegar hún þeytist niður straumharða á yfir úfna kletta á móti straumhörðum sjónum. Ég þekki þennan barning og veit miklu betur hvernig ég á að bregðast við en þegar allt er í ljúfri röð og reglu.

OK, ég sökkti mér ekki niður í ofátið, ég fékk mér ekki súkkulaði - ég vigtaði og mældi, borðaði, fór í heitt bað, undirbjó morgun- og hádegisverð fyrir morgundaginn. Skellti mér í heitt bað, blés á mér hárið og smurði andlitið með svona ekki alltof of dýru rakakremi. Voila, hér sit ég þá aðeins skárri í skapinu og apinn stokkinn á einhverja aðra öxl til að angra.

sunnudagur, janúar 07, 2007

Dagur 218 - Vigtun

Jæja, þá er þessi hræðilega ögurstund að baki. Ég á í ástar-haturssambandi við vigtina. Annað hvort er ég alltaf á henni eða ég þoli ekki það augnablik sem ég þarf að fara á hana. Búin að vera smá með hjartslátt yfir því að í dag er vigtunardagur! Finnst eins og ég hafi ekki grennst og jafnvel fitnað (er þetta ekki það sem átröskun og útlitsfíkn gengur út á).

Jólin að baki og mikið um reyktan mat, lítið um hreyfingu og ég jú er komin af hinu fjörlegasta aldursskeiði, þó svo að öllu jafnan ég finni ekki fyrir því. Svo er Rósa í heimsókn með sínu ofurflóði þannig að það jók líkurnar á þyngdaraukninguna líka.

Ég skreið á fætur með úfið spreyjað hárið, dröslaðist fram á baðherbergi og gerði það sem við nefnum ekki, þvoði mér um hendur og skvetti vatni á svefnþrungið andlitið. Síðan hélt ferðin inn í svefnherbergi, skáphurðin opnuð 0g Viktoría dregin fram úr stofufangelsi sínu, en þar hefur hún dvalið síðan 7. desember á síðasta ári. Það var ekki laust við að smá skjálfti færi um mig þegar ég steig fyrsta skrefið á vigtina, svona rétt til að kveikja á henni. Safnaði kjarki og steig á vigtarbrúnina!!! Jippí, vá... komin niður fyrir tuginn, bara 3.5 kg í takmarkið.

Tala dagsins 68.5kg - léttingur 1.8kg og 21kg léttari en þegar ég var sem þyngst. Þetta eflir mig í að halda áfram í þeim lífsstíl sem ég er búin að tileinka mér.

Það hefur oft hvarflað að mér að nenna þessu ekki, vilja borða eins og aðrir og ekki alltaf vera á skjön (sbr. í gær í matarboði þegar ég þurft að borða 600 gr hrátt grænmeti því ég hafði gleymt að taka með mér grænmetið mitt) ... ég meira að segja neitaði að taka sveifluna með systur minni (ég var í fýlu, skiljið þið), en við erum hinar bestu dansmeyjar og kunnum svo sannarlega tjúttsveifluna. En þegar svona tala mætir manni í seinna morgunsárið á vigtunardegi þá er maður húrrandi happy, borðar sína pönsu með blönduðum ávöxtum og mjólkurkaffi ákveðin í að næsti dagur, vika og mánuður verði í fráhaldi.

Á þriðjudag er ég að fara á vörusýningu og verð í burtu í fjóra daga, vigtin fer með og samlokugrillið líka (til að baka hveitikímskökuna mína). Ég á vafalaust eftir að þurfa að útskýra "why are you doing this weighing and measuring?" - og ég mun bara segja, well I have a condition with my metabolism - ich habe eines grösse problemen mit meine metabolismus, kann ekki að segja þetta á kínversku. Kann ekki við að segja útlendingum að ég sé hin hömlulausasta ofæta sem ráði ekki við fyrsta súkkulaði bitann. Mér hefur tekist þetta áður á ferðalögum og ætti að geta það líka í þetta skiptið - eitt er víst, það verður mikið etið af hráu grænmeti.

Aumingja ég, ég á svo bágt að vera ekki eins og aðrir! - Hei, nei! Ég er heppin að hafa fundið lausnina í lífi mínu og að geta lifað svona frábærlega einn dag í einu í heilbrigðum vel útlítandi skrokki. Tala ekki um hvað taugakerfið mitt er í góðu ásigkomulagi og ég í þokkalega góðu andlegu jafnvægi.

Kveð að sinni
Ein hömlulaus ofæta í bata