léttfimmtug

þriðjudagur, september 28, 2004

251 -255 - Já???!!!

Hummm... það er allt í bara fínasta lagi myndi ég segja. Ég vigta enn og mæli og mér dettur ekki í hug að víkja af þeirri leið. Rósa frænka kom í heimsókn í dag en heimsóknin kallar ekki á neina löngun í sérstakan mat!!! Jahérna, segi ég nú bara.
Ég fékk móðursýkiskast í dönskutíma í gær þegar kennarinn útdeildi einkunum úr fyrsta lotuprófi .. 9 .. ég fékk NÍU!! HAHAHAHA... Nei, ég svindlaði ekki.
Þetta er ótrúlegur andsk.. en ég er búin að fá tvö A í ensku, eina níu í íslensku og aðra tíu... þannig að á morgun hlýt ég að fá fimm í sögu því ég vissi mest lítið og skáldaði bara í eyðurnar.
Á föstudaginn ætla ég að skella mér með fyrirtækinu sem ég vinn hjá til London í árshátíðarferð. Ný vigt fær að koma með því ég ætla að kaupa mér eina nettari svo ekki beri eins mikið á því þegar ég vigta matinn. Það verður spennandi að vita hvernig til tekst. Maður er ekki með mjög mikla reynslu af ferðalögum og vigtun.
Verð að viðurkenna að ég keyri mig dálítið áfram á extra-tyggjói og diet drykkjum þegar mig vantar eitthvað - ekki gott ég veit það!! en mér líður betur þannig.

fimmtudagur, september 23, 2004

250 - Í fullu fjöri

Sko til mín bara fór í prófið í gær og skellti sér í að krossa og lét bara innri vitneskju ráða ferðinni - átti í smá basli með Súmera en vissi að konur höfðu það þar betra en í öðrum sambærilegum menningarríkjum og tók það sterklega fram - sögu kristninnar á tímum Rómverja, jah, skellti bara minni eigin túlkun á þeim kafla mannkynssögunnar og vona að ég fái plús fyrir það - manns eigin túlkun á sögunni er ekki alltaf endilega röng, en maður reynir að styðjast við C-12 mælingar og greiningu trjástofnshringa hér á Íslandi - annars, það er varla hægt þar sem skógur lagðist af á landsnámsöld, allt var höggvið í spón til að halda á sér hita...
Nóg um þetta, mér líður semsagt ágætlega og er hætt að reka við og staulast á klóið með harmkveinum.
Er á leiðinni í fjögurra tíma törn í skólanum í kvöld en ekkert próf.
Skellti saman í kvöldmat:
Hveitikímskaka úr 45 gr
setti á hana 30 gr majones
50 gr hot salsa sósu
80 gr niðursneidda tómata
80 gr gúrku
spældi svo 2 egg easy over -
Þetta er alveg ágætt svona smá sjoppu fílingur af þessu.
Gangi ykkur svo öllum vel í ykkar fráhaldi - sammála þér Lilja, þetta svínvirkar að vera að netast...
Hildur, þú ert með meilið mitt - viltu senda mér það svo ég geti sent þér myndina af mér orðna 67kg -
Fresníus, gangi þér ofsavel í Danmörku, ég er viss um að þið vinkonurnar komi til með að eiga frábærar stundir saman.

miðvikudagur, september 22, 2004

249 - heimavið lsasin og lærandi

Gjörsamlega búin á því eftir gærdaginn og sá mér ekki annað fært en að vera heima og halda mig í því sem Kanarnir segja "bedroom slippers" - allavega ég er í ósamstæðum náttfötum með ógreitt hárið nýbúin að borða sojapönnuköku með eplum og kanil - verð að segja að kakan var góð, skellti líka í mig einum sterkum espresso svona til að hressa mig við.
Stundum nýt ég þess að liggja upp í rúmi milli svefns og vöku, ætli ég sé aftur orðin unglingur? - í þessum milliheimi ræður maður alveg sínu lífshlaupi að því er virðist, allavega upplifi ég morguninn þannig. Ég er ein heima, enginn sem er að reka á eftir mér og ekkert nöldur. Get farið á fætur þegar ég vil og borðað þegar ég vil... verst er að raunveruleikinn slæðist þarna inn og maður verður að koma sér til verka.
Mín verk í dag eru að lesa undir sögupróf sem er í kvöld - Oh my God - ég er búin að lesa, skrifa verkefni og lesa aftur en mér finnst ekkert sitja eftir... andsk.. hafi það en kannski rifjast allt upp úr undirmeðvitundinni og ég fæ góða útkomu.
Ég er búin að undirbúa hádegismatinn og kvöldmatinn að hluta til - djöf... er þetta stundum fúlt að vera svona staðfastur, það er það sem ég hugsaði í gærkveldi: vildi að ég gæti bara tekið eitthvað fljótlegt og troðið því í mig: hummmm, þá bæti ég á mig kílóum það er víst og verð óhress með mig andlega.
Hei - er einhver sem býður sig fram til að fara í söguprófið fyrir mig?
Í dag ætla ég ekki að borða hömlulaust!!!

þriðjudagur, september 21, 2004

246-248 - Ekki auðvelt

Stundum er bara ekki auðvelt að vera til. Þarna úti eru vandamál sem elta mann uppi, gamlar syndir eða karmaaflausn eða hvað sem maður kallar það.
Maður kemst að því að það dugar víst ekki til lengdar að vera í strútsleiknum og stinga höfðinu í sandinn gagnvart óleystum málum... og nú er ég nauðbeygð til að takast á við þau og það meiðir.
Krumlan helltist yfir mig í morgun og mig verkjaði í maga, hjarta og höfuð og hver skyldi fyrsta hugsun hafa verið : Kolvetni, súkkulaði - Borða yfir óttann!!!!
Gerði ég það? Nei, eitthvað sem ég hef eignast síðustu mánuði kom í veg fyrir að ég tæki það fyrsta sem var á vegi mínum í verslunni einni hér í bæ. Höndin stöðvaðist þar sem hún teygði sig eftir glansandi súkkulaðinu og hrökk til baka að líkama mínum. Ég táraðist afþví ég átti svo bágt og ég táraðist enn meira afþví ég er svo meðvituð um fíkn mína og vanmátt gagnvart fyrsta hömlulausa bitanum... en minnug loforðana um það að ef ég bara ekki borða hömlulaust þá get ég leyst hvaða vandamál sem á mínum vegi verða.
Svo, ég greip í rassgatið á sjálfri mér og tók til við að finna plögg og pappíra sem til þarf svo ég renni nú ekki á bossann í þessum styrjaldarheimi/hvort heldur styrjaldir séu litlar eða stórar - þær meiða. Þær meiða líka ef maður er stríðsherrann.
Ég hef því ákveðið að vorkenna mér ekki heldur elda bara góðan mat, klára heimaverkefnin, fara í skólann og taka lotupróf og hananú!!!

laugardagur, september 18, 2004

244-245 Vigtun 3kg niður :-)

Þá er daman orðin 68.3kg semsagt efri kjörþyngdartölu náð :-) alls eru farin síðan 18. janúar 21kg og munar um.
Ég held ég setji stefnuna á 61-63kg og ef það fara 2kg á mánuði þá er ég orðin gasalega grönn um jólin.
Ég er svo hamingjusöm yfir að hafa fundið gsa.is eða greysheet anonymous og hafa viljað vinna samkvæmt þessu tólf spora kerfi.
Er að byrja að sponsa nýja konu í dag og er þá komin með tvær gellur en sú fyrsta er búin að léttast um 13kg á þremur mánuðum í greysheet fráhaldi.

fimmtudagur, september 16, 2004

243 - Feitt fólk - feit ég / bati = kannski hroki

Eitt hef ég lært í lífinu og af eigin reynslu - það er að reyna að fyllast ekki hroka þó svo mér gangi vel í því að drekka ekki, að koma mér úr vandamálum, sigrast á erfiðleikum og ná tökum á ofáti.
Hrokinn er ein af höfuðsyndunum og kemur manni/fólki í bobba ef undan er látið.
Tildæmis, ég er ekki hótinu betri þó svo ég hafi náð að halda fráhald og grennast síðustu mánuði, það er bara einn biti sem skilur á milli heilbrigðra matarvenja og hömlulausa ofátsins, taki ég fyrsta bitann þá get ég bókað það að kílóin hlaðast öll á mig aftur.
Þegar ég sé þjáningarsystkini mín í ofátinu þá hlakkar ekki í mér af því ég er í bata (ekki læknuð, en núverandi ástand gefur til kynna að ég sé í bata), en ég finn til samkenndar og sé sjálfa mig eins og ég var (og vona að verða ekki aftur) ... hömlulausa og í sársauka ... tala bara fyrir eigin munn en ekki annara.
Ég vona bara að ég geti gefið öðrum von um að hægt sé að breyta lífsstíl sínum og ná sætti við sjálfan sig bæði hið innra og utan ...
Það er samt varla dagur sem líður án þess að mig langi í hitt og þetta og fúlt skap gerir vart við sig þegar ég átta mig á því að mér er ekki gefinn sá munaður að borða eins og venjulegt fólk - ég er hömlulaus og á við matarfíkn að ræða.

miðvikudagur, september 15, 2004

238-242 - og hausinn snýst í þúsund hringi

Það er skrítið líf að reyna að vera í skóla. Dagarnir líða svo hratt að það er eins og maður sé staddur í þeytivindu og nái ekki að halda sér föstum í allri vindunni. Ég reyni að koma mér að því að læra og lesa og skilja það sem er skrifað og orðin verða að stóru skrímsli sem skyggir á skilning minn... skyldi þá nú ekki smá súkkulaði koma að hjálp til að opna huga manns fyrir nýju áreiti? Ég bara þori ekki fyrir mitt litla líf að prufa það né annan mat sem ekki er á mínum lista.
Ég semsagt er enn að halda fráhaldið.. einn, tveir, þrír og svona tel ég dagana áfram.
Heimsótti heimilislækninn í dag og hann hváði við.. hvað, maður þekkir þig ekki lengur þú ert svo lítil og smá þarna í stólnum... hummmm, maður getur vafið blóðþrýstingsdæminu (veit ekki hvað það heitir þetta þarna með franska rennilásnum) margfalt um handlegginn á þér... niðurstaða blóðþrýstingur 130/80 sem er gott fyrir dömu á mínum aldri.. öll önnur blóðgildi voru í lagi og kolestorolið eins og best verður á kosið... og ég er enn kona í fullu fjöri og ekki bólar á breytingarskeiðinu hjá mér..
Svo, ég ánægð og borðaði minn hádegismat þakklát fyrir að vera laus úr viðjum sjúkdóma sem eru fylgikvillar ofeldis...
Hitti tvær gellur sem voru með mér í prógramminu fyrr í vetur og voru þær að borða ís með rjóma og sósu í einni ísbúðinni í dag... önnur þeirra var búin að bæta á sig 10kg aftur og hin hafði aldrei komist í prógrammið og er orðin mikill sjúklingur með hjartavandamál og fleira... þær þekktu mig ekki aftur enda hef ég yngst til muna við að missa öll þessi kíló.
Æi, ég er að lesa íslenskar smásögur fyrir íslenskutímann á morgun og þarf að gera verkefni... það er eitthvað í mér sem mótmælir þessum lærdómu, ég vil að hlutirnir komi til mín auðveldlega sbr. ég vildi alltaf að ég grenntist án þess að hafa fyrir því.
Nú kemur það í ljós að ég þarf að hafa fyrir því að læra, eins og ég þarf að hafa fyrir því að grennast og svo að halda mér grannri áfram.
Ég vona að ég hafi styrk til að vera í þessum lífstíl einn dag í einu það sem eftir er lífs míns.

föstudagur, september 10, 2004

237 - matargatið

Já, og dagurinn teygði úr sér og ég komst upp úr þreytunni þegar líða tók á dag. Mikið óskaplega hefði verið gott að gefa eftir þreytutilfinningunni, koma sér heim úr vinnunni á miðjum degi og halla sér aftur í Lazy-boy með gott video, sykraðan drykk þeirri hægri og chocolade hið tælandi í þeirri vinstri.. En maður er kona öguð eins og spartanskur hermaður klædd skikkju einni fata (sjáið þið myndlíkinguna, hver vill sjá mig slitna og teygða með stóru brjóstin nið´r á maga í skikkju einni fata)... hummm, maður má alveg láta sig dreyma um dásamlega nekt og það að æsa upp alla fola landsins, nei, nei ég er ekki dýraníðingur, bara fimmtug kona í átaki sem er orðin gráðug í eitthvað sem hún man ekki einu sinni hvernig smakkaðist.
Svona nú, til að gera stutta sögu lengri eða ólæsilegri þá vil ég segja ykkur að dagurinn var hreint út sagt ágætur þegar kvöldmaturinn var yfirstaðinn. Ég hafði þá kýlt vömbina ærlega á "no time" - mettíma eins og það heitir nú á íslensku og sit nú hér ropandi með viðrekstrarfýlu af kollinum sem ég sit á við tölvuna... ok, má ég nú ekki vera smá grafísk í orðavali mínu, er stundum smáþreytt að því að mega ekki lengur vera siðlaus og illa orðaður þorpari eins og ég var hér í den..
Ég tók mér góðan tíma að elda mat úr bæði dýru hráefni úr Hagkaupum og ódýru úr Bónusi (eiga að vera tvo ss hér???)
250 gr soðnar rófur (meyrar)
150 gr laukur, paprikka og sveppir
steikt og síðan soðið í
2 msk pepperonata og 1 msk aubergine pesto frá Sacla
1 grænmetisteningur, sítrónupipar
þetta mauk sett yfir rófurnar
150 gr rifið hvítkál með 2 tsk xylitoli og smá sítrónusafa (dásamlegt cole slaw)
100 gr steikt svínahakk í tómapuré, parmesanosti, rauðu pestói, grænmetisteningi (átti ekki kjöt) og hvítlaukspipar og smá salt.
Dömur, þið trúið ekki hvað þetta er góður matur og mikið útilátinn.
Samt, þá er ég svöng, svöng, svöng .... mig langar í eitthvað, bara eitthvað til að fylla upp í þreytuna og tómarúmið...
En með því að iðka fráhald og fresta fyrsta hömlulausa bitanum þá grennist ég og eignast betri heilsu

fimmtudagur, september 09, 2004

234-236 - aumingjans námsmaðurinnn

Ég er uppgefin bæði líkamlega og andlega. Hefði aldrei dottið í hug að nám gæti verið svona krefjandi þegar maður er í 100% vinnu. Hef varla stoppað undanfarnar daga síðan ég kom úr fríi og veit varla hvað sjónvarp eða slökun er.
Langaði í gær þegar ég var að læra í súkkulaði, að hafa eitthvað til að narta í meðan ég lá og las skólabækur og reyndi að skilja hvað var verið að spyrja um.
En fráhaldið er það mikilvægasta í lífi mínu!!! Án þess væri ég ekki að þessu brölti sem ég held að komi mér til góða og hjálpi mér til að finna illa launaða en skemmtilega vinnu eftir ca. fimm ár eða segjum sjö ár - peningar og vinnugleði fara ekki alltaf saman.
Ég er heima í dag smálasin og þreytt og hef ekkert til að hugga mig við nema vatnsflöskuna og tyggjóið - reyni ekki að líta í efstu hilluna þar sem betri helmingurinn geymir allt nammið sitt. Segi ekki að það hafi ekki flögrað að mér að næla mér í eitthvað og segja aldrei frá því.
Í dag ætla ég ekki að borða nema það sem ég ákvað í gærkveldi.

mánudagur, september 06, 2004

230-233 - ekkert líf án þyrna

Hver lofaði manni lífi á vandamála? ég bara spyr? enginn!!! hef ég komist að raun um.
Stundum er maður duglegur að ýta á undan sér óþægilegum hlutum í þeirri von að þau bara hreinlega hverfi, kannast einhver við þetta varðandi að fara í megrun á morgun eða í næstu viku, eða þegar aðstæður eru orðnar aðeins betri? Minn raunveruleiki allavega, þeir kalla þetta svo fallega á ensku "to procrastinate" að ýta á undan sér vandamálum eða öðrum óþægilegum hlutum...
Núna að vísu er ég í voða góðum matarmálum, geri ekkert annað en að léttast og mitt þyngdartap komið á þriðja tug. Ég er búin að endurnýja fataskápinn og orðin svaka skvísa - sumir eru farnir að segja við mig að nú hljóti að vera nóg komið, farin að verða of grönn í andliti eða e-h aðrar athugasemdir. Ég þarf ekkert að kvarta þar, er sátt og á bara 6 kíló eftir og þá fer ég í viðhalds matarplan. Semsagt fyrir jól þá er ég væntanlega komin í neðri kjörþyngdartölu fyrir minn aldur.
Ég er í smá klemmu varðandi fyrirtækið sem ég átti og seldi - svona gamlir draugar sem skjóta upp kollinum og herja á mann og vilja tæta svona aðeins of mikið í budduna og ég fæ magaverk með öllu tilheyrandi.
Öllu tilheyrandi!!! Já, þegar vandamálin hrannast á mig þá langar mig að sukka, hverfa ofaní kolvetni og gleyma öllu óþægilegu... en ég vinn ekkert með það, tapa frekar tvöfaldri baráttu og enda í enn verri málum ef ég gef nú eftir.
Svo í dag ætla ég að vera í fráhaldi og vigta og mæla matinn minn. Skrifa niður matseðil morgundagsins og tilkynna til sponsors.
Enn eru þessar þrjár máltíðir nægjanlegar fyrir mig og ég er ekkert voða svöng á milli mála - en stundum langar mig í eitthvað sem fær mig til að liða illa.

fimmtudagur, september 02, 2004

229 - Minna þreytt í dag

Alveg ágætis dagur í dag og laus við mesta kuldann og þreytuna þar sem Rósa frænka ákvað að heimsækja mig í dag með miklum flóðgáttum. Ég er orðin kona óregluleg og tíðarhringurinn farinn að breytast og ég bara nokkuð sátt við það. Hugsa sem svo; ef þetta eru tíðarhvörfin þá þarf ég engu að kvíða. Breytingarnar bresta á hæglega og maður verður miklu rólegri svona eins og þegar maður var barn áður en unglingaveikin greip mann.

Ég er svo þakklát fyrir matarplanið mitt og þakklát fyrir þann mat sem ég borða. Hann veitir mér djúpa ánægju og nærir mig án þess að setja mig í fíkn eða loka mig af í einangruðum heimi.
Á laugardaginn er farið í óvissuferð á vegum fyrirtækisins sem ég vinn hjá og var mér einni sagt hvar væri borðað svo ég gæti pantað vigtaða og mælda máltíð - þið sjáið að vinnufélagarnir taka þátt í þessu með mér og eru sumar farnar að falast eftir leyndarmáli mínu - matarplaninu :-)
Ég hringdi í veitingastaðinn sem staðsettur er á Stokkseyri og pantaði mér eftirfarandi vigtað og mælt með velvilja vertsins.

100 gr pillaður humar steiktur í hvítlaukssmjöri
200 gr blandað salat
30 gr salatsósu án sykurs
300 gr svissað grænmeti í smjöri og kryddum
tvöfaldan expresso með sætuefnum

Ekki amalegt að vera á sérfæði sem fitar ekki.

Ég borðaði hveitikímsköku í kvöld með 60gr taco sósu, 30gr majones, 140gr lauk, tómat og icebergsalati og 100gr hamborgara með slettu af sinnepi ofaná - pakksödd og ánægð með hveitikímshamborgarann minn .. vantaði bara Tabið en það var búið í gær, nýjar birgðir keyptar á morgun.

Í fyrramálið fer ég í blóðprufu til að tékka á hvort þau gildi sem ekki voru í lagi áður en ég byrjaði á þessu matarplani séu ekki komin í lag, svo tékka á öllum hormónum til að sjá hvar ég er stödd á breytingarskeiðinu... og til að kanna öll helstu blóðgildi... ég geri þetta eins og með að fara með bílinn í árlega skoðun, það er betra að láta tjékka sig á hálfs árs fresti og geta brugðist rétt við ef eitthvað er að og lagað það t.d. eins og með það að hafa grennt sig um 20kg (leyndó hér).

miðvikudagur, september 01, 2004

227-228 oh svo þreytt

Mín er voða þreytt og teygð... og þvílíkur kuldi sem hefur sótt að mér undanfarnar tvær nætur. Greyið litla hefur þurft að sofa undir tveim sængum og ekki dugað til að halda á sér hita. Í den hefði maður sko hitað upp á sér holdið og innyfli með heitum kakóbolla, ristuðu brauði með miklu smjöri og hlunk af osti... einn bolli hefði ekki dugað til heldur heill lítri af "chocomelk" eins og ég fékk meðan ég bjó í Hollandi...
Ég andskotast þetta áfram í mínu fráhaldi þrátt fyrir allt sem gerist í lífi mínu.. kem heim eftir tólf tíma törn í vinnu og skóla. Leggst í það að elda mat fyrir kvöldið og hádegi næsta dags, tékka á póstinum í tölvunni og kíki svo í skólabækur og fæ vægt taugaáfall... MÉR TEKST ÞETTA EKKI!!! hrópar eitthvað innra með mér. Orðin snúast í hausnum á mér og ég fæ svona gargandi flóttatilfinningu, vil hlaupa í burtu frá öllu og öllum. Taka inn eina stóra, góða og róandi. Leggjast undir feld og fela mig á vald ljúfum draumum þar sem engir flóknir atburðarásir eiga sér sað. Þar sem heimurinn er sniðinn að mínum þörfum og draumur.
Svo vaknar maður aftur upp við matröð og man að lífið heldur áfram þrátt fyrir allt og að maður er eigin herra og skapari að eigin innri veröld.
Ég fékk þær fréttir í dag að yndislegur gamall vinur minn í Hollandi, maður rúmum 30 árum eldri en ég sem var minn sálufélagi bæði í þessu og fyrra lífi hefði látist... ég var bæði sorgmædd en um leið glöð því ég vissi að hann var alveg tilbúinn til að fara.. allavega sagði hann mér það fyrir tæpum tveimur mánuðum þegar hann hringdi í mig.
Nú get ég ekki lengur hvíslað í símtólið sorgir mínar og sigra með hann hinum megin við tólið - héðan í frá verð ég að beina orðum mínum til stjarnanna og biðja þær um að flytja honum hugsanir mínar og pælingar.
Elsku vinur, ég óska þér góðrar ferðar á nýju ferðalagi um himingeima og þakka þér fyrir að hafa hjálpað mér að kynnast mínum innri manni og læra að treysta þrátt fyrir ógnir og ótta... ég borða ekki þótt söknuður sé í hjarta mínu gamli vinur.
Ég dreg andann einn tveir þrír og gleymi mér í talningunni eins og sannur zen hugleiðandi... þá leið tamdir þú þér á gamals aldri.
Þessi aldraði vinur minn kenndi mér að aldrei er of seint að læra, að engin stöðnun er til í honum heimi... allt endurnýjar sig á ógnarhraða þó svo ber augu nemi það ekki.
Ég er þakklát fyrir hvert augnablik sem ég hugsa vel um mig því þá er ég öðrum meira virði.
Í dag borða ég ekki fyrsta hömlulausa bitann.