léttfimmtug

fimmtudagur, desember 29, 2005

Dagur 3

Ég er í fríi í dag svo ég svaf lengi frameftir. Maður er alltaf dálítið ruglaður þegar svefninn verður svona langur.

Dagur þrjú í dag og ég er sátt. Ég fann fyrir smá söknuði í gær og var döpur, döpur afþví að ég ætla ekki að fæða "sjúkdóminn minn" - ég ætla að halda mig við fæðutegundir sem viðhalda ekki fíkn og vera mér meðvituð um hvernig, hvar og hvernær ég borða. Ég vissi svo sem að dapurleikinn myndi koma því ég er að taka í burtu eina félagann sem samþykkti allt ég ég vildi, jafnvel það að ég væri að borða mér til óbóta.

Ég er ekki svöng á milli mála, en það gefur samt tómleikatilfinningu að vera ekki með ofurfullan maga svo þungan að maður hugsar ekki eða finnur ekki fyrir neinum tilfinningum.

Mér er illt í öllum liðum, en það er afraksturinn af gengdarlausu ofáti síðast liðna mánuði, ég veit að þetta gengur til baka, ég veit að þrekið kemur aftur og ég veit að bráðum fer ég á rósrauða skýið sem fleytir mér áfram dögum ef ekki vikum saman. Síðan koma dagar þar sem ég held að mér sé óhætt að borða hvað sem er, vissan um að átköstin hafi bara vera á erfiðleikatímum í lífi mínu. Röddin mun hvísla að mér að ég þurfi ekki að passa það sem ég læt ofan í mig og þá fara kílóin að hrannast á mig aftur, mér fer að verða illt í líkamanum og ég fer þá aftur að taka eftir hvað mér líður oft á tímum skringilega andlega.

Ég nota þá sem vita hvað ég er a ganga í gegnum mér til stuðnings því það er besta leiðin til að halda sér frá hömluleysi.

Einn dag í einu tekst mér að lifa góðu lífi á sátt og samlyndi við mig og aðra menn.

miðvikudagur, desember 28, 2005

Dagur 2

Dagur eitt er að baki og ég er að hefja dag númer tvö. Mér líður vel og líkaminn er sáttur við að þurfa ekki að erfiða við að vinna úr ofgnótt af sykri og salti.

Einfaldleikinn er víst bestur, reglur henta mér vel og þannig mun ég vafalaust komast áfram til heilsu og betri sjálfsmyndar.

þriðjudagur, desember 27, 2005

Dagur 1 :-)

Þá er ég byrjuð á degi 1 skv. mínu gamla plani. Þrjár máltíðir á dag og ekkert á milli mála, allt vigtað og mælt.

Ég er búin að vera í hálfs árs falli og búin að bæta ansi miklu á mig, hef samt ákveðið að fara ekki á vigtina strax heldur halda mig við mína vigtaðar og mældu máltíðir sem ég nota bene skrifa niður og sendi til sponsor á hverjum degi. Þetta virkaði í sautján mánuði og ég held ég sé komin í gírinn aftur.

Einnig er það nauðsynlegt að ég passi það sem ég set ofan í mig, því ég er að greinast með Meniere sjúkdóminn og hluti af því að halda honum niðri er matartengt - ég var hress og kát og ekki með neitt líkamlegt vesen þegar ég var í fráhaldi, síðustu sex mánuði hefur vefjagigtin verið að versna, ég er komin með verki í liði, ristilinn er óþægur og síðast liðnar þrjár vikur hef ég verið í einu hringlanda kasti, sviminn svo ógurlegur að ég hef þurft að halda mig við rúmið.

En, nú er ég farin að taka ábyrgð á eigin líðan og byrja á að borða hollt og gott.

föstudagur, desember 02, 2005

Hugleiðingar/Staðhæfingar

Þannig er nú mál með vexti með mig: Ég var í góðu fráhaldi og léttist eins og gengur og gerist jafnt og örugglega á þeim 17 mánuðum sem ég var á mínu matarplani. Svo batnaði mér offitan og ég taldi mig geta etið eins og venjulega manneskju.

Staðan í dag, kemst ekki í fráhald, ét eins og "piggy" og stækka samkvæmt því.

Ég er stödd í stigvaxandi sjúkdómsferli sem ég í augnablikinu næ ekki að stoppa, eða vil ekki stoppa. Ég er alltaf að byrja á morgun.

Ég dæmi mig ekki og veit að annaðhvort kemst ég aftur á þann stað sem ég var og fer að borða til að næra mig eða að ég enda aftur í mjög feitum og óhraustum líkama.

Ég er líka þannig innrætt að ég er ekki sátt við að vera feit, því það er vont bæði líkamlega og andlega.