léttfimmtug

sunnudagur, desember 31, 2006

Dagur 211 - síðasti dagur ársins 2006

Ég sit í mínum gulu Snoopy náttfötum með smá blett á bringunni eftir morgunmatinn í morgun, en það er í lagi því ég fer í hreint í kvöld og undir hlý sængurföt sem ég hef skipt á. Fer líka í gott bað og skola af mér allt það sem liðið er bæði gott og slæmt þar sem ég ætla að halda inn í nýja árið með hreint borð.

Í byrjun þessa árs var ég á kafi í ofáti og aktífri búlemíu. Átröskunin á fullu og öll vanlíðanin sem fylgdi henni líkamlega, tilfinningalega og andlega. Ég var örg út í allt og alla. Þoldi ekki að vera komin á miðjan aldur með heilsufarslega vandamál tengd offitu og stressi, vera feit, lágvaxin og með slappari húð.

Ég var búin að vera í falli frá því í júní 2005 þegar ég tók fráhaldið mitt til baka eftir að hafa náð kjörþyngd (61.5kg), hafði byrjað að vigta og mæla 3x á dag 15. janúar 2004 og losað mig við 28kg. Á þessum tíma hafði mér liðið afskaplega vel og náði í fyrsta sinn í mörg ár að lifa kvíðalausu lífi. Ýmsir líkamlegir kvillar sem höfðu hráð mig s.s. hár blóðþrýstingur, vefjagigt, krónískt ristilbólga og hjartsláttartruflanir heyrðu fortíðinni til. Eitthvað fór úrskeiðis og ég fór að láta aðstæður fara í taugarnar á mér, hausinn á mér var fullur af mat alla daga og ég fór að telja mér trú um að ég gæti borðað einn bita mér að vandamálalausu.


Ég tók fyrsta hömlulausa bitann í júní 2005 og það var ekki aftur snúið. Ég þyngdist stundum um kíló á dag og ekki leið á löngu þar til ég var komin með extra 22kg aftur, vantaði bara 7 kg upp á þyngstu töluna mína.

Botninum var náð 7. júní þetta ár, ég gerði mér grein fyrir því að ég er matarfíkill og borða þegar mér líður illa, borða þegar mér líður vel og borða þegar ég get borðað. Ég laumast með mat, ég fel mat, ég borða í bílnum, ég borða á nóttunni og matur stjórnar lífi mínu. Ég skil ekki þetta ástand, finn bara fyrir því hvaða áhrif það hefur á mig að vera með hausinn fullan af mat allan liðlangan daginn.

Ég hef gefist upp einn dag í einu og plana mínar máltíðir, tilkynni og hef ekki áhyggjur af morgundeginum. Ég borða góðan mat og legg mikið í þessar máltíðir sem ég borða. Samferðarfólk mitt er mér hjálplegt og jafnvel þeir sem ekki skilja þessa áráttu mína að drekka bara kaffi þegar aðrir fylla diska sína kinka kolli samþykkjandi þegar ég útskýri ástand mitt í dag versus hvernig það var fyrir tæpum 7 mánuðum síðan.

Ég á ekki langt í kjörþyngd, ég lít vel út og er hraust. Útlitslega séð lít ég ekki út fyrir að vera orðin þetta gömul (53ja ára).

Í kvöld mun ég borða yndislegan mat með eiginmanni mínum. Við tvö saman með uppdekkað borð og kertaljós þakklát fyrir árið sem er að baki og full tilhlökkunar um enn betra ár 2007.

Ég þarf samt að vera á varðbergi því ég veit að letin og huglæg þráhyggja mun sækja á mig þegar grenningu er lokið (á 5kg eftir) og þá á ég örugglega eftir að segja sjálfri mér að ég geti borða einn og einn konfektmola.

Ég þakka ykkur öllum árið sem er að líða og óska ykkur farsældar á árinu 2007.

laugardagur, desember 23, 2006

Dagur 200 - jólakveðja

Óska öllum í bloggheimi gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Fer sjálf inn í jólahátíðina full tilhlökkunar og í fráhaldi minnug þess hvernig mér leið í ofátinu um síðustu jól. Ég mun að sjálfsögðu leggja eitthvað meira í matseldina hjá mér um hátíðirnar en venjulega en held mig við mínar þrjár máltíðir á dag.

Um þessi jól þá kemst ég í kjólinn og ég mun komast í hann að loknum jólum líka.

mánudagur, desember 18, 2006

Dagur 195 - jólahugleiðingar

Það er svartasta skammdegi og úrhellis rigning þarna úti. Dálítið erfitt að fóta sig á hálum ísnum og ég verð að hafa mig við að skauta varlega á háhæluðum stígvélum minnug þess að ég er komin af léttasta skeiði og vel útsett fyrir góðu broti færi svo að ég flygi á minn mjóa rass. Úps, já ég er komin með mjóan rass og stundum er mér illt í honum þegar ég er búin að sitja lengi. Finn fyrir gömlum meiðslum á rófu og spjaldhrygg þar sem bólstrunin er ekki mikil fyrir hendi lengur.

Ég er farin að heyra héðan og þaðan: Er ekki komið nóg núna? Þarftu ekki að fara að passa þig? Þú ert að verða ansi toguð í andlitinu! HALLÓ!!! Það voru ekki margir sem bönkuðu léttilega í öxlina á mér og sögðu. Ertu ekki farin að fitna einhver ósköp aftur? Þú ert nú komin með ansi margar undirhökur, sem fela annarrs myndarlegt andlit þitt. Hvernig er það með blóðþrýstinginn, versnar hann ekki við þessi 20 aukakíló sem þú ert að burðast með? Nei, það var enginn sem innti mig eftir þessu blíðlega. Það var frekar að maður fengi kaldhæðnislegar athugasemdir varðandi vaxtarlagið á sjálfum sér.

Ég sneiði varlega framhjá svona athugasemdum, brosi blíðlega þegar fólk vill að ég stoppi áður en rassinn hreinlega dettur af mér og sný mér frá þegar andstyggilegar athugasemdir eru sendar í mína átt. Ég á mér líf sjálf, ég get valið það sem ég heyri og ég get valið mér þá vini sem eru mér hliðhollir í hvað formi sem ég er.

Ég er dásamleg sköpun almættisins og farartæki mitt er í góðu ásigkomulagi þessa dagana. Mig langar ekkert til að sukka í mat og sælgæti og hlakka til jólanna í "moderation".

sunnudagur, desember 10, 2006

Dagur 187 - Úff púff í hausnum á mér

Ég er búin að komast að því að ég þjáist af alvarlegri andlegri þráhyggju gagnvart mat, mat, mat. Hausinn á mér er búinn að vera stútfullur af matarhugsunum í nokkra daga og ég hef nánast verið komin að þeim mörkum að gefa fráhaldið upp á bátinn og leggjast í "laumuát".

Í gær fór ég á Lækjabrekku með fyrrverandi vinnufélögum mannsins míns, ég tók með mér vigtina og fékk stóran disk með steiktu grænmeti á borðið hjá mér og vigtaði síðan mitt kjöt af hlaðborðinu. Ekki málið það skal ég segja ykkur. Þegar kom að því að sessunautar mínir voru farnir að gæða sé á eftirréttunum þá breyttist ég í anda eða draug og át í gegnum þau. Hver ein og einasta hreyfing handa þeirra þegar skeiðin færðist í átt að munninum með allri matarlitarflórunni þá störðu augu mín og ég nánast fann bragðið og áferðina í munni mínum. Það eina sem ég gat gert var að segja sjálfri mér að þetta myndi líða hjá, ég mér myndi líða betur í fyrramálið heldur en þau sem tróðu sig til óbóta.

Ég geri mér alveg grein fyrir því að svona augnablik sem vara í marga daga mun koma æ ofan í æ, það verður engin miskunn því minningin um stundarfróun þessa eina bita sem sendi mig áfram til himnaríkis og svo beina leið til helvítis mun skjóta upp kollinum.

Ég get bara gert þettta einn dag í einu eins og ég hef gert það einn dag í einu í tæp 28 ár að drekka ekki áfengi.

Mér líður mjög vel með hvað ég lít vel út líkamlega.

fimmtudagur, desember 07, 2006

Dagur 184 - vigtunardagur

Einu sinni í mánuði er vigtunardagur hjá mér. Hann var einmitt í dag. Niðurstaðan var sú að ég stend í stað á milli mánaða. Er ég svekkt? Nei! því ég er ekki í megrun og það geta komið þeir tímar að maður standi í stað. Ég held ótrauð áfram mínu lífi með mér, öðru fólki og þeim lífstíl sem ég kýs að lifa í.

Það er gott að vera ekki í megrun, að fara ekki í ofurgleði þegar mörg kíló hverfa af manni og niður til helvítis þegar kílóin sitja föst á mér.

Ég er sátt við útlitið í dag, sátt við hvernig mér líður innra með mér og hlakka til að eyða jólamánuðinum núna við að dytta að skemmtilegum jólaundirbúningi.

laugardagur, desember 02, 2006

Dagur 179 - hugleiðingar

Ég var að lesa póstinn hennar Super S. og gat ekki verið meira sammála henni hvað varðar að fóta sig í nýjum lífsstíl, ná árangi, misstíga sig og feta sig aftur til baka á einstigi fráhaldsins.

Mér er um mun að skilja hvers vegna við etum þessi reiðinnar ósköp af mat okkur til óbóta. Hvaða hugsanir og tilfinningar liggja að baki því að vera svona blindur á eigið útlit, innri líðan og hömluleysi eða vanmátt!? Fyrir mig hef ég fá svör, ég hreinlega veit ekki afhverju ég fór að borða þar til mér varð svo illt í maganum, sálinni og líkamanum að ég hreinlega gat ekki meira. Eitthvað gerðist, kannski þegar ég var barn, sem gerði það að verkum að ég sótti í einföld kolvetni, vildi meira og meira en aðrir og augu mín voru ætíð stærri en maginn (ég tróð og fyllti diskinn minn þar til hann varð barmafullur). Kannksi er ég með líkamlegt óþol sem gerir það að verkum að ég get ekki hætt þegar ég byrja að borða BRAUÐ, SÚKKULAÐI, KÖKUR ofl. - á sama hátt og ég er með óþol fyrir áfengi og gat aldrei hætt (áfengislaus í 27 ár rúm núna).

Mín fyrsta matarminning er frá því ég var ungt barn í skóla, eða var það í forskóla. Skipta átti sælgætisstöng á milli okkar systra og sá ég um skiptinguna. Fyrst var stöngin brotin til hálfs en annarr endinn var stærri, þá tók ég bita af stærri endanum til að jafna stærðarmuninn en þá varð sá biti minni, svona hélt þetta áfram koll af kolli þar til aðeins pínulítill munnbiti varð eftir handa systur minni.

Einu sinni eyðilagði ég jólin heima. Ávaxtadósir voru geymdar til jólanna fram í búri(ég er af þeirri kynslóð þegar ekki var svo mikill matur til í búðum þ.e. framandi matur í þá tíð), ég eigingjarna litla stúlkan, sem var með þetta matarskrímsli í maganum læddist að nóttu til fram í búr, pikkaði göt á dósirnar og drakk úr þeim safann - þetta þýddi að þegar átti að skreyta ísinn með blönduðum ávöxtum þá voru þeir myglaðir og þurrir. Skemmtileg jól fyrir yngri systkini mín. Þau fóru í jólaköttinn, en ég er enn með skömm útaf þessum "matarstuldi".

Þegar ég hugsa um unglingsárin þá eru margar flestar minningar mínar tengdar mat, ekki endilega þessum íburðarmikla mat sem við búum við í dag, heldur heitum hafragraut með mjólk og brauð með osti. Ég man enn tilfinninguna af heitum grautnum með mjúkri mjólkinni. Stinnu heimabökuðu hvítu brauði með smjörklípu og osti. Sykursteiktu slátri með kartöflum í uppstúf og grænum baunum. Einstaka pönnukaka fylltri með sykri og vanilluhringjum í desembermánuði. Á köldum vetrardögum ornaði ég mér við tilhugsunina hvernær næsta máltíð kæmi full tilhlökkunar.

Þegar ég var ung kona og bjó erlendis, þá fór ekkert meira í taugarnar á mér en níska innfæddra þegar mér var boðin hálfur kaffibolli með mjólkurslettu og einni þunnri piparköku. Verra var ef heimboðið var í kvöldmat, þá var borinn á borð matardiskur þar sem búið var að skammta kjötið, kartöflur og grænmeti og svo þunnur eftirréttur í skál, svona rétt botnfylli.

Ég var samt alltaf grönn, alger písl 52kg þegar ég var 33 ára gömul. Ég hafði bara átt eitt feitt tímabil þegar ég var rúmlega 16 ára gömul og þá leið mér frekar illa því ég upplifði að vera rúllupysla í síðum kjól. Ég fór ekki að fitna fyrr en 35 ára gömul og fannst ég ægilega feit 66kg í 160cm skrokki og ljótan var á fullu í mér á þeim tíma. Ástæðan vafalaust fyrir því að ég þyndist frekar hægt var að ég hafði þróað með mér bulemiu og ég reykti. Svo þegar ég hætt reykingum árið 1988 þá fór allt úr böndunum og ég varð þessi þybbna madonna og náði svo mínu hámarki í jan 2004 89.3kg.

Ég byrjaði að vigta og mæla í janúar 2004, náði af mér 30kg og var alsæl og alviss um að ég gæti borðað eins og venjulega manneskja aftur. Hætti að vigta og mæla og viti menn, frá fyrsta bitanum varð ég hömlulaus bæði í mat og ælum og varð klósettskálin minn besti vinur frá þeim degi eða í rúmt ár. Ég náði síðan aftur botni fyrir hálfu ári og plús 20 kg og er búin að vigta og mæla síðan. Ég er komin í eðlilega þyngd aftur og á ekki nema nokkur kíló í kjörþyngd. Ég brosi og er skapbetri, ég á auðveldarar með að umgangast annað fólk og líkamleg heilsa er eins og hjá unglingi sbr. að ég er ekki lengur á blóðþrýstingslyfjum.

Ég er ekki laus við matarhugsanir og stundum get ég tímunum saman horft á matarprógrömm í sjónvarpinum BBC51 er uppáhaldið hjá mér, og ég slefa. Þegar ég er aum og ekki upp á mitt besta þá legg ég á flótta í dagdrauma um súkkulaðitertur, mjúk truffel, þungar sósur með góðri steik og mjúkar kartöflustoppur með mismunandi kryddum. Ég læt mig bara dreyma vitandi að ég get ekki tekið þátt í svona áti, því það mun að lokum leiða mig til líkamlegar örorku og andlegs dauða.