léttfimmtug

mánudagur, apríl 18, 2005

454-456 / Upp upp

Þá fór vigtin upp þennan mánuðinn: 400gr. Ég er sátt þar sem ég bætti við mig mat og hef verið frjálsleg með fituna.
Ég er ekki í megrun þannig að ég lít hvorki á plús eða mínus í vigt, sem mælikvarða á andlega líðan mína. Ég er komin í það gott form að ég er mjög sátt eins og ég er í dag og ég vafalaust rokka nú eins og manneskja í eðlilegri líkamsþyngd.
Það eru strembnar þrjár vikur framundan, próflestur og fleira - ég þarf samt ekki að hafa áhyggjur þar sem ég kem vel undan vetrareinkunum og er tæknilega séð komin í góð mál, það er bara spurningin um hvort ég sættist á 6, 7, 8 eða 9 í lokaeinkun :-)
En ég borða ekki mat sem hentar mér ekki þó svo að ég hafi varla tíma til að anda.

föstudagur, apríl 15, 2005

447-453 - og lífið er enn jafngott

Mér líður enn mjög vel bæði inní mér (sálinni), í lífærunum og stoðkerfinu. það eina sem hrjáir mig nú orðið er tímaleysi og í dag svefnleysi (fór að sofa kl. að ganga 2 í nótt) afþví það er svo gaman að vera til.

Ég hef sjaldan verið svona aktíf í mannlegum tengslum. Ég fel mig ekki lengur heima í fýlukasti afþví ég er úttútnuð og aum allsstaðar. Ég nýt þess að vera meðal fólks og ég hef breytt eftirnafni mínu í Bros, finnst það við hæfi þar sem ég syng og tralla nánast alla daga. En svona samt til að vera heiðarleg, þá er ég ekki skaplaus og rýk upp af gömlum vana reglulega!! hihihi.. maður má ekki breytast alveg í öllu og einu, eitthvað verður að vera eftir.

Ég eins og fleiri í hér fór og keypti mér gallapils í Hagkaupum, no 38 sem er eiginlega of stórt, en það var ekki til pils í stærðinni 36 - ég hlýt bara að geta skellt því á suðu og minnkað það þannig? eða hvað? þið frómuðu húsmæður?

Á mánudag er vigtunardagur og á ég von á að standa í stað eða hafa bætt á mig - ég hef nefninlega verið að bæta á mig mat og verið of dugleg við að steikja eplið mitt í smjöri á morgnana, sykra það með xylitoli og kanil og setja út í vanilluskyrið mitt. En það er ekki að trufla mig, ég er komin í það góða þyngd að ég á ekki að vera að kvarta. Svo er ég líka komin á þann aldur að ef ég grennist of mikið þá verður húðin teygð.

Svo eru próf framundan hjá mér og ég bara læri ekki heldur tek sjens á því að ná prófum af því ég er svo lífsreynd - en samt, mikið hlakka ég til að geta slakað á eftir vinnu og jafnvel farið að fara aftur í líkamsrækt eða sund - og svo hlakka ég líka svo til sumarsins.

föstudagur, apríl 08, 2005

441-446 / Er að fara úr bænum

Jæja kellur, þá er ég að fara úr bænum í kvöld vestur á Snæfellsnes. Nokkrar ofætur sem ætla að eyða helginni saman í að stilla saman átaksstrengi sína. Ég þekki bara eina þeirra en hlakka til að kynnast fleirum sem eru að vinna í átpúkanum sínum og gera eitthvað í sínum málum.
Ég er enn að og hef verið heiðarleg í því sem ég er að gera einn daga í einu. Ég ætla líka á morgun að vera heiðarleg í matnum mínum.
Búin að pakka niður reiðinnar ósköp af mat og svo vigtinni minni - gönguskóm og hlífðarfatnaði.
Eigið góða helgi.

laugardagur, apríl 02, 2005

435-440 / Gerrit lifir enn

Ég er enn á lífi og virðist vera orðin vikulegur bloggari. Allt við það sama og rútínan breytist ekkert.
Fór í búð í dag og keypti mér fallegan grænan boli í SMALL!!!! síðan keypti ég mér breiðröndótta græna, svarta og appelsínugula hnésokka, rauða og bláa öklasokka og ljósgræna hnésokka. Hef semsagt sagt skilið við svarta klæðnaðinn sem ég bar á herðum mínum öll mínu feitu ár -
Nú er liturinn aftur kominn á mína kálfa, kvartbuxur og bol í stíl við sokkana sem príða smáa fætur í skóm á háum hælum.
Aftanfrá séð er ég sem unglingur, en óvei, snúi daman sér við þá skín í glettin augu bak við breið gleraugun, djúpar hláturhrukkur og gránandi vanga -
Ég er að borða góðan mat, ég á yndislegan mann, frábæra dóttur og barnabörn, ég er heilsugóð, laus við kvíða og fælni, ég stunda fullt nám á kvöldin, ég hlakka til að sofna til að geta vaknað aftur að morgni nýss dags og haldið áfram að gleðast yfir því hvað lífið er mér gjöfult - hvað vil ég meira? jú, eilífa æsku og þroska roskinnar konu. Ahhhh, æskuna hef ég fengið aftur og svo er ég þroskuð kona á sextugsaldri - takmarkinu náð að því er virðist!!!!