léttfimmtug

þriðjudagur, október 31, 2006

Dagur 147 - Brjóstaminnkun á morgun

Í dag er ég að kveðja hluta af líkama mínum sem hefur fylgt mér frá því ég var tæplega tólf ára gömul. Líkamshluti sem hefur alla tíð verið of stór, sama í hvaða þyngd ég hef verið.

Frá og með morgundeginum, eða upp úr kl. 10, þá er ekki aftur snúið. Þó nokkuð mörg grömm, nærri kílói munu hafa horfið af barmi mínum og í staðin eru komin minni brjóst þakin örum frá geirvörtu, niður og undir. Ég krossa fingur og bið um að gróandinn sé það aktífur í mínum líkama að ör verði að ári liðnu aðeins hvítar rákir, eins og rákirnar sem ég ber á kvið mínum eftir meðgöngu frumburðar míns. Stærsti hlutinn af þessu er þó að fá lausn frá vöðvabólgu, verki í háls og hnakka.

Ég er dálítið hrædd og þegar ég er hrædd þá hverf ég inn í sjálfa mig og segi sem minnst. Hendur mínar verða kaldar og andlitið er fölara en venjulega. Samt er ég ekki komin á hátind ótta míns, hann mun vafalaust birtast með miklum ákafa seinna í kvöld eða snemma í fyrramálið rétt áður en ég fer á spítalann. Ég mun samt ganga þessa göngu, því reynsla mín segir mér að allir slæmir hlutir enda að lokum.

Hef eldað og undirbúið þrettán máltíðir sem eru frystar og ekkert annað að gera fyrir kallinn minn en að búa til hrátt grænmeti og hita gumsið frysta. Ég hef líka planað að mér verði færður matur á spítalann svo ég slysist ekki til að detta ofan í kolvetnaátið sem alltaf leiðir mig á fallbraut.

Svo vona ég að ég festist ekki í þeirri hugsun að skurðaðgerðir geti gert mann yngri, grennri og hamingjusamari - því það er ekki reyndin.

föstudagur, október 27, 2006

Dagur 143 - Stressuð

Fór í innskrift á gamla Borgarspítala í gær. Guð minn góður, þvílík skriffinnska og bið, heilir 5.5 tímar sem fóru í hjartalínurít, bið hálftími, spjall við svæfingalækni 15 mín, bið 1 klukkutími, spjall við fallegan grískan deildalækni, hlógum mikið og henni fannst ég skemmtilega furðuleg 15 mín, bið klukkutími, spjall við deildarhjúkrunarfræðing í dyragáttinni 1 mín, þurfti að hlaupa og sinna öðru. Ég og aðrir sjúklingar voru farin að æða um gólf, allir hótandi að fara bara heim. Ég réðst inn á skrifstofu og sagði blíðlega með glóandi brjálsemi í augunum að það væri að verða uppreisnarástand frammi - skýring - skyndileg krufning á heila- og taugasjúklingi sem hafði dáið, og í skjóli þess að þetta er nú háskólasjúkrahús þá þurftu deildarlæknar að vera viðstaddir. Bið í klukkutíma í viðbót (eru þeir kannski orðnir of margir), loksins deildarhjúkrunarfræðingarviðtal, allt í gúddi þar til blóðþrýstingur var tekinn og hann frekar hár. Bið, síðan vísað á deildina þar sem ég á að liggja og aðgerðin útlistuð fyrir mér, og þá fór ég að kjökra því ég var orðin svo stressuð og hrædd.

Ég er stressuð, með ónot, vil hætta við en ætla ekki að hætta við. Er að undirbúa núna matarmálin mín svo ég geti verið í fráhaldi meðan á innlögn stendur, og fyrstu vikuna meðan ég er að jafna mig. Ég er líka búin að fá mér konu sem kemur heim að þrífa, strauja og skipta á rúmfötum í 4 vikur.

Svona er þetta í dag hjá mér -

Ég skoða stóru brjóstin mín á hverjum degi og er að kveðja þau þessa dagana. Ég á örugglega eftir finnast það skrýtið að vera ekki svona barmamikil.

föstudagur, október 20, 2006

Dagur 135

Er í feikna góðum málum og líður alveg ótrúlega vel. Sátt, sátt, sátt við mig, menn og æðri mátt. Maður á sjálfstæðan vilja og ég hef fengið að reyna það á sjálfri mér að ég ræð för að mestu leiti hvað varðar mitt eigið heilbrigði og lífsstíl.

Það hafa fullt af aðstæðum hent mig sem ég réði ekki við, en það hafa líka aðstæður hent mig þar sem ég kaus að lifa í eymd og volæði. Ég harma samt ekkert því ég hef val um hvar ég stend í dag.

Í dag er ég í heilbrigðu holdafari, lít vel út og er heilsuhraust. Ég vona að mér beri í þetta skipti gæfa til að halda ekki að ég geti borðað hömlulaust án þess að þyngjast. Er búin að fara marga hringi í megrun, fitna, megrun, fitna und so videre -

Svo þann 30. okt þá!!! Fer ég í brjóstaminnkun, ekki til léttingur næsta mánaðar veðri meiri ;-) Neihei. Ég er búin að skoða þetta fram og til baka í 1.5 ár og niðurstaðan er þessi, brjóstin fá að fjúka. Annars, þá eru þau óþægilega stór og valda mér vandamálum í hálsi, hnakka og herðum og er þetta leið til að bæta lífsgæði mín.

Ég fer úr DD (er 158cm á hæð) í C skál og fer tæpt kíló af mér að framanverðu. Ég fæ ör, ég gæti fengið mjög ljót brjóst, ég gæti misst geirvörtur, ég gæti misst tilfinningu í geirvörtunni. Ég gæti dáið í svæfingunni, samt kýs ég þessa aðgerð.

sunnudagur, október 08, 2006

Kaupmannahofn

Er ad klara helgarferdina/arshatidina og fer heim seinnipartinn i dag.

Thetta hefur gengid ljomandi vel og eg vigta og mælt eins og ekkert sé.

Versladi mér föt og er komin í blússustærd Small og buxur 40, nánast komin aftur í kjörthyngd.

Mér er ad ganga miklu betur tilfinningalega í fráhaldi í thetta skiptid en hinu fyrra, thó svo ég hafi nád líka gódum árangri thá.

Skrifa betur thegar ég kemst í íslenska stafi.

fimmtudagur, október 05, 2006

Dagur 121 - komin heim

Þá er ég komin heim frá Spáni, brún og frekknótt og þokkalega vel úthvíld. Maður tekur sér ýmislegt fyrir hendur á efri árum sem maður ætlaði aldrei að gera. Ég ætlaði aldrei að fara á sólarströnd þar sem ég er innilokuð á milli hárra blokka, sumar hverjar allt að 52 hæðum og þar fyrir utan hvít ströndin þéttlegin af fólki í eldri kantinum. En ég fór og slakaði á, naut þess að vera með fjölskyldu mannsins míns.

Ég verð að segja eitt, ég hef aldrei, aldrei séð svona feitt fólk í "grúppum" eins og á Benidorm, ég er alger písl miðað við fólkið sem þurfti "skutlur" til að komast á milli staða. Heilu fjölskyldurnar sem eru feit, feitari, feitust - ekki 20kg yfirþyngd heldur frekar 80kg eða meira.

Ég vigtaði og mældi og fyrstu dagarnir voru hreint helvíti, ég bölvaði og lamdi hnefum í borð - andskotans helvíti að geta ekki tekið þátt í venjulegum athöfnum eins og annað fólk, að drattast með vigtina og mæla ofan í mig. Ég spriklaði þetta svona í tvo daga og þá komst ég í gírinn. Mínar þrjár máltíðir og ekkert á milli mála nema vatn, vatn, vatn, einstaka kaffibolli og Coka Cola Light öðruhvoru.

Á morgun er svo haldið til Kaupmannahafnar og þá tekur sama við, vigta og mæla meðan aðrir dæla í sig dýrindis krásum og drykkjum.

Ég hef valið að vera í mínum lífsstíl frekar en að fitna, fara aftur í fráhald, hætta í fráhaldi, fitna og gefast að lokum upp. Mig langar ekki til að enda í skutlu á Benidorm í náinni framtíð.