léttfimmtug

laugardagur, ágúst 20, 2005

2 / Í gírinn aftur

Pjúfff, ég er byrjuð aftur: dagur 2 hjá mér. Vigta og mæla 3x á dag og einn millibiti. Ég gafst upp fyrir vanmættinum og því að vera í eigin mætti og nú skrifa ég niður fyrirfram það sem ég borða og vigta og mæli svo það verði hvorki of eða van sem ég borða.

Var búin að fá algjörlega nóg af stækkandi bumbu og minnkandi fötum og næsta skrefið hefði ég haldið áfram að borða eins og ég gerði væri að fara að endurnýja fataskápinn uppávið... Noh, það gerir maður ekki.

Mér finnst gott að vera komin í þessa rútínu og svo verð ég bara að muna það að ég drepst ekki á milli máltíða.

miðvikudagur, ágúst 10, 2005

Held áfram einn dag í einu

Aldrei hefði mér dottið í hug eftir fjögurra ára ótta við að fara í Títan implantið að þetta myndi ganga svona vel. Ég er í fullkomnu fráhaldi skv. Dignity of Choice (OA) vigta og mæli, borða þrjár máltíðir og tvo millibita, held mig frá sykri, hvítu hveiti og einföldum kolvetnum, sem vekja hjá mér fíkn.

Ég skoða sjálfa mig á hverjum morgni og viðurkenni hömluleysi mitt gagnvart mat og á þeim stað sé ég stjórnlaus. Ég viðurkenni viljastyrk minn og skynja að viljaleysi hefur ekkert með átfíkn mína að gera, því ég er frekar viljsterk og ákveðin kona.

Ég fer á fundi þar sem ég deili reynslu minni, styrk og vonum og þannig næ ég betra sambandi við sjálfa mig.

Ég lít ótrúlega vel út þrátt fyrir þessar sex skrúfur í kjálka og nánast engar bólgur né mar til staðar. Sterarnir eru að fara úr skrokknum (vona að ég daprist ekki við það) en er enn með niðurgang af penisilíninu (draumur átsukkarans, borða og skíta med den samme - ég veit, ég er ógeðsleg)...

Vinn ca. 75% í dag og á morgun þar til ég er búin að jafna mig.

Ótrúlega gott að vera komin aftur í gírinn og vilja halda áfram að hugsa vel um sjálfa mig.

Hef ekki farið á vigtina og ætla þeirri elsku að leyfa sér að vera í hvíld, finn á fötum og fingrum að ég er að renna aftur. Þarf ekki að kaupa mér stærri föt og held að þyngdaraukningin sé komin í stopp aftur.

sunnudagur, ágúst 07, 2005

Að gefast eða gefast ekki upp!

Einn og hálfur mánuður frá því að ég ákvað að setja stopp við sautján mánaða fráhald, þar sem ég losaði mig við ca. 29kg.

Hömluleysi í raun frá fyrsta bita þó svo að einn eða tveir dagar hafi liðið frá fyrsta sukkdegi að þeim næsta. Alltaf sú hugsun (eins og ætíð áður) á morgun byrja ég aftur. En það er ekki alveg að ganga upp.

Felur og undanskot, ótal ferðir í hinar ýmsu verslanir, heimsóknir á salerni og föt sem hlaupa í þvotti er minn veruleiki í dag.

Samt, ég er ekki ósátt. Mér líður eins og þetta sé undanfari andlegrar uppljómunar, reynslu sem á eftir að skilja mig eftir ríkari að auðmýkt og vilja til að lifa einn dag í einu í auðmýkt og fúsleika. Eða þetta gæti líka verið upphafið af hægsömum dauða í stöðugt þyngri líkama með öllum þeim sjúkdómum sem fylgja ofáti og búlemíu. Ég er að skoða þetta, bæði innanfrá og utanfrá.

Í dag er ég með magatruflanir, er á Amoxillini þar sem ég er að fá 6 Títan skrúfur í gómana á morgun. Ég veit ekki hvort niðurgangurinn stafi af kvíða eða aukaverkunum af sýklalyfinu. Ég er andlega tilbúin til að takast á við þessa aðgerð, sem tekur þrjá tíma og er að hluta sársaukafull. Aðgerð sem kemur til með að skilja mig eftir illa útlítandi eins og ég hafi lent í hræðilegum barsmíðum. Ég verð bólgin og marin í andliti. Matarlega séð er bara maukfæði framundan og ætla ég að reyna að hafa ekki sætindi í mínu maukfæði, heldur að undirbúa hina ýmsu góðu rétti lausa við sykur og einföld kolvetni.

Hér er ég 8kg þyngri eftir 6 vikna ofát og stend á krossgötum.