léttfimmtug

miðvikudagur, júní 30, 2004

165 - rosastuð

Það er búið að vera geggjað stuð í dag og í kvöld - átta átaksgellur voru mættar heim til mín í kvöldverð og var frábær "fráhaldsmatur" á boðstólum - blómkálsstappa í karrýsósu, lauk og hvítlauk. Sveppir, eggaldin, kúrbítur, sveppir, gulrætur, laukur og hvítlaukur í tómat- og pestósósu, lambalæri og blandað hrásalt ásamt góðum low carb köldum sósum - og stelpur diskarnir voru troðfullir af yndislega góðum mat.
Frábært að geta talað saman um heima og geima og þó sérstaklega um það að halda sér í fráhaldi og læra að lifa með nýjum lífsstíl.
Ég get ekki verið annað en ánægð með þennan dag, sem takið nú eftir: var án allrar hreyfingar nema með puttum og munni :-)

þriðjudagur, júní 29, 2004

164 - smáhreyfing

Í dag hreyfði ég mig svona þokkalega - 20 mín hraðganga í hádeginu og svo 1 klst í línudansi eftir vinnu .. þessi hreyfing er fínt mótvægi við allan sperringin sem hefur verið á mér síðustu vikur og ætla ég að slaka mér niður fyrir norðurferð á föstudaginn en ég ætla að dvelja á Tjörnesinu í heila 9 daga og njóta þess að fara í göngutúra um holt og hæðir, niður bakka og í fjöruna - gott íslenskt sumarfrí.
Ég borðaði minn venjulega mat sem hefur lítið breyst síðustu 164 dagana, orðið svona rútína og maður er farin að kunna reglurnar utanbókar.
Það dugar mér alveg þessar 3 máltíðir og ég er nánast ekkert svöng á milli. Í dag keypti ég mér Pepsi Max og tyggjópakka - kláraði tyggjóið á No Time en drakk bara 1/2 Pepsí, hafði enga löngun í þetta gervisykraða dót, allavega ekki í dag.
Á morgun hittumst við nokkrar konur í GS hér heima hjá mér, borðum saman og ætlum svo að láta gamminn geysa og hafa það huggulegt.. Ætli við verðum ekki allar með okkar eigin vigtar og býst ég við að mikið verði hlegið. Það verður gaman að hafa allar þessar grönnu konur sem eru búnar að vera í prógramminu lengi, sumar allt frá tæpum 2 árum og upp í 4 ár -
Það að deila með öðrum reynslu sinni og vonum styður fráhaldið og gerir manni lífið auðveldara í því að halda sig frá mat sem kemur fíkn af stað.

mánudagur, júní 28, 2004

163 - hreyfingarlaus orka

Svona til að vera dulítið normal þá ákvað ég að láta af hlaupum eða göngum og gefa þessum miðaldra skrokki smáfrí enda kvartaði hann illa og "ég" sem bý í honum vildi smáfrið fyrir þessum átaksfíkli sem líka ferðast með skrokknum - það eru stundum smá slagsmál á milli, jahh, hvað skyldi maður nú kalla það - mismunandi persóna sem virðast búa innra með manni!!! - nei, ég er ekki geðklofa eða með einhverjar alvarlegar hugraskanir en ég er manneskja sem berst við ýmsar fíknir og stundum hafa fíknirnar sjálfstæðan vilja og ráða gjörsamlega yfir þessu svokalla betra sjálfi.. jamm ... hver hefur haft betur varðandi mataræði síðastliðin ár??? Vambarpúkinn sem stöðugt gargar allan liðlangan daginn og eftir því sem meira berst af mat niður í maga því háværari verða öskrin - svo kemur sektarpúkinn og hann rífst og nagast þar til allar varnir eru niðurbrotnar og enn bætist við átið til að deyfa þessar ærandi raddir sem segja manni að ef svo verður áframhaldið í ofáti þá hreinlega leiði það til dauða - fyrst deyr sjálfsálitið, svo slitnar húðin, stoðkerfið hrynur, blóðrásarkerfið verður stjórnlaust og allt stefnir í eina stutta 170cm kistu og 6 fet niður - nema ég hef ákveðið að láta brenna leifar mínar "my remains" ...
Sem betur fer þá heyrist stundum rödd að ofan (frá innri manni) sem talar til manns djúpum rómi.. nonono.. maður getur nú alveg rifið sig frá þessum leiðinda niðurbrotsvana og komið sér í betri gír, ekki þarf maður nú alltaf að vera éta frá sér allar tilfinningar eða bara hreinlega lífið, eða hvað? segir þessi djúpraddaða vera. Manni býðst hönd að láni til að kippa sér uppúr gömlum lífsgönguleiðum og að öðrum vegaleiðum í átt að betra lífi .. en janframt er manni sagt að sú leið verði ekki endilega alltaf auðfarin, hún verður oft illfarin og erfið yfirferðar... maður hefur val, annaðhvort að deyja hægfara dauða í mikilli andlegri vanlíðan, ekki talandi um þá líkamlegu eða að þora að rétta út hönd og grípa leiðsögnina..
Ég greip þessa hönd og nú er ég búin að vera á ferðalagi í 163 daga en flestir af þeim dögum hafa verið mjög þægilegir og auðveldir yfirferðar ... ég hef ferðast hratt yfir en nú er þörf á smáhvíld í einn eða tvo daga (ekki matarlega séð) svona til að finna aftur fyrir smá slökun og leti...
Æi, þetta er smá bull hjá mér svona fyrir svefninn .. ég hef haldið fráhaldið í dag, ekkert gengið eða hlaupið og legið svo eins og skata fyrir framan sjónvarpið án þess að sjá nokkurn skapaðan hlut nema eigin hugsanir og framtíðarsýnir á fleygiferð inní þokuhulinn heim.

sunnudagur, júní 27, 2004

162 - Áfram geysist lífið

Ég rétt get haldið mér uppréttri til að blogga þennan dag.. búin að ganga fram af mér með hreyfingu. Þegar ég leit út um gluggann fyrr í dag og horfði til Esjunnar og yfir í Mosfellsbæinn datt mér í hug að gott væri nú að ganga úr Grafarvoginum og þangað yfir - það var haldið af stað og gefið í alla leiðina og var gengið fram og til baka á tveimur klukkustundum - púff - ég borðaði síðan um kl. fimm og ákváðum við þá að fara í sund til að mýkja vöðvana og komum við núna rétt fyrir kl. sjö gjörsamlega soðin til baka. Mér finnst eins og ég hafi verið að vinna erfiðsvinnu í allan dag. Með allri þessari hreyfingu þá finnst mér líka draga úr löngun í óholl kolvetni ... mér duga enn mínar þrjár máltíðir .. er að vísu smá svöng núna en minn næsti matartími er kl. níu þar sem það verða að líða minnst fjórir tímar frá síðustu máltíð... drekk bara vatn þangað til og sofna kannski bara yfir sjónvarpinu.

laugardagur, júní 26, 2004

161 - rok rok rok

Það getur verið svo gaman í rokinu. Það er eins og rokið blási burtu öllu sem er að angra mann og eftir stendur maður dáltítið veðurbarinn í fjallshlíð ánægður með að hafa ekki tekið þátt í grill sukkeríi hjá starfsmannafélagi eiginmannsins :-) ... enn einn dagurinn í fráhaldi er að kveldi kominn og maginn sáttur við sínar þrjár máltíðir. Fór á GS fund og hitti frábærar kellur sem allar vinna í sinni fíkn, frábært að hafa svona hóp kvenna (þvímiður láta karlanir ekki sjá sig) sem styðja mann í því að ná aftur eðlilegum vexti, betri sýn á afhverju maður er að borða yfir tilfinningar og hvernig hægt sé að lifa án þess að hlaða í sig mat, mat og aftur mat.
Ég fór í stutta göngu eða eigum við að segja tvær stuttar göngur í dag um smá fjallshlíðar. Önnur bara í 10 mínútur og hin í 30 mínútur - mín fyrsta hreyfing síðan á mánudag og fann ég hvað það gerði mér gott - ég nefninlega áttaði mig á því í morgun að herðar og bak voru orðnar stífar af vöðvabólgu og ég komin með smá vott af höfuðverk, en allt þetta lagast við þessa daglegu hreyfingu þar sem maður lætur aðeins reyna á mæðina og kemur hjartslættinum upp.
Ég er farin að bursta húðina því ég heyrði að burstun komi í veg fyrir slappa húð, vil allavega reyna það og komast hjá þeirri útlitsfíkn minni og áráttu að halda að lýtalækningar bæti mig alla - veit af gamalli reynslu þegar ég lét taka svuntuna af mér eftir fæðingu elstu dóttur minna fyrir rúmum 31 ári síðan (en aðgerðin fór fram 1979) að ég var dofin alveg frá lífbeini og langt fyrir ofan nafla í mörg ár á eftir - er enn dofin í kringum nafla ... smá slit er þó skárra heldur en flennistór ör held ég - annars á ég ekkert að vera að pæla í svona hlutum núna - bíða frekar í eitt ár eftir að kjörþyngd er náð og ef ég vil þá láta hysja mig upp og strekkja og á nóg af pening og nægan tíma til að jafna mig - þá hver veit.

föstudagur, júní 25, 2004

160 - Guð hvað það er kalt í dag

Brrrrr ... það er hræðilega kalt í dag og ef maður væri ekki í fráhaldi þá væri verulega freistandi að hringja sig inn veika og liggja undir heitri sæng með kakóbolla, brauði með smjöri og osti og væmna vídeómynd :-) - en þetta er bara draumur. Maður er í vinnunni með kalda loftræstinguna sem færir manni gæsahúð og hellir ofan í sig heitu svörtu kaffinu sem þvælist í meltingarfærunum ásamt þessu epli sem ég borðaði í morgunmat og mjúkri AB mjólkinni - sú fæða verður að duga fram að hádegi.. svo bíður maður að eitthvað spennandi gerist sem fær mann til að gleyma kulda og löngun í kolvetni sem hlaðast bara utan á skrokkinn á manni.
Ég er svona farin að hugsa um kjörþyngd en geri mér ekki almennilega grein fyrir hver hún á að vera - stundum er eins og fólk sjái einhverja mjög lága tölu sem er út í hött -eiga allar konur 160cm (kannski 158.5cm) að vera 56-59kg??? - þá verð ég svo hræðilega hrukkótt með brjóstin hangandi niður fyrir nafla og slitinn maginn krumpast slappur yfir buxnastrenginn .. að sjálfsögðu get ég hent einhverri milljón í að láta lyfta brjóstum, strekkja magann allan hringinn og lyfta þannig upp rass og lærum, taka í burtu mesta slitið og vera svo með flenni ör allan hringinn plús doða í húð langt upp að brjóstum ... og tölum ekki um áhættuna sem svona aðgerð fylgir.
Þið þarna elskurnar eru enn svo ungar (sumar jafnungar eiginmanni mínum sem er 14 árum yngri en ég) að þið kannski horfið ekki endilega að tíminn sé að styttast og að líkaminn sé farinn að vera svona antik hlutur - antik húsgöng þykja voða flott og eru eftirsótt ekki satt? - ég horfi á líkama minn og sé að hann hefur ekki þennan sama stinnleika og þegar ég var 14 ára en það er kominn glæsileiki sem fylgir vaxandi aldri -hver hrukka og hvert slit hefur sína sögu að segja og satt að segja þá þykir mér vænt um allar þær minningar sem felast í hverri misfellu líkama míns. Það sama má segja um andlitsdrætti mína - saga hálfrar aldar er þar sögð og eru þessar fínu hrukkur kringum augun og örlítið sígandi haka eins og síðari Picasso verk - ekki vil ég skemma það málverk.
Núna þegar holdafarið er ekki sýkt af offitu og þegar líkamsstarfsemi hefur náð að jafna sig, þolið orðið betra þá er ég eins og nýuppgerður fornbíll, gljándi og hraustur í mjúkum bylgjum sem malar þetta áfram á jöfnum hraða eftir Lífsinshraðbraut ekkert að flýta sér að endalokum heldur horfir í kringum sig á breytilega náttúru okkar mislynda lands.

fimmtudagur, júní 24, 2004

159 - borga fyrir bloggið

Hæ stelpur

Enn í frháhaldi og góður dagur eftir góðan nætursvefn - tókuð þið eftir snjónum í Esjunni og Bláfjöllum í morgun?

Hvað geri ég í þessu??? Vil helst ekki nota Visa á netinu?

Hello,

Your backBlogPro account will expire on July 1. You will be downgraded to backBlogBasic, which lacks some of the features of backBlogPro, including feedback-to-feedback, mail notification on new feedback, customized smilies set, deleting feedback, and more.

To continue using your backBlogPro account, please pay the $10 annual subscription fee within a week. Payments are made through PayPal which accepts Visa, MasterCard and American Express. To pay for your account, log in to your backBlog account at http://www.blogextra.com/backblog and click on the 'Pay for backBlogPro' link.

If you no longer need your backBlog account, please log in and click on the 'Delete Account' link.

Thank you for your support,
Yariv @ backBlog
yariv@israblog.co.il
http://www.blogextra.com/backblog




miðvikudagur, júní 23, 2004

158 - hringavitleysa

Þá er þessum hringavitleysudegi lokið - ég flutti að heiman og heim aftur á innan við fimm klukkutímum - vigtaði og mældi allar máltíðir dagsins í dag ásamt morgundeginum ef svo vildi til að ég væri enn snælduóð (því jú fráhaldið er það mikilvægasta í lífi mínu í dag) og myndi kannski slysast til að taka bita sem ekki má má!!! - fékk vinkonu mína til að keyra mig til Keflavíkur til að heimsækja aldraða vinkonu mína sem býr yfir mikilli lífsspeki - afþakkaði góðan saltfisk, rófur og kartöflur að íslenskum sið en dró upp minn vigtaða og mælda mat og át hann þar sátt við fráhaldið - tók á móti miklu hrósi frá vinum vegna mikils þyngdartaps :-) síðan svo sótti elskulegur eiginmaður mig og ég er komin heim
- semsagt snælduvitlaus dagur en ekki vikið frá þessari einu reglu að borða ekki það sem ekki má ...
Nú er komin ró aftur í hjartað mitt og ég get tekist á við morgundaginn vitandi það að ég fæ ekki svona fýlukast næstu fimm mánuðina... fékk mér pepsí max til að róa taugarnar en samkvæmt manni mínum og hans sjúkraþjálfara þá auka snefilefni í sykurlausum drykkjum líkurnar á að maður fái Alzheimer - svei mér ef ég gamla rauðhærða spengilega konan sé bara ekki komin með snefil af Alz...

158 - tilfinningalegt uppnám

Það kom að því - ég datt af bleika skýinu og er búin að vera í uppnámi síðan um hádegi í gær - en ég reyni að halda mig við fráhaldið, vigta og mæla 3 máltíðir og hugsa þannig um mína velferð 3x á dag -- engar göngusögur - engar sigursögur í dag

mánudagur, júní 21, 2004

156 - sólarmegin framhald

Okei - ég er glaðvakandi og allar frumur leika á alls oddi því hvað er meira orkugefandi en góður göngutúr og fjallganga!!! Dreif mig af stað rétt upp úr klukkan átta eftir að hafa borðar góðan málsverð fullan af hollustu og mikið af honum, Takk Fyrir...
Enn var það Úlfarsfellið en gengið var frá Mosfellsbæ og reyndist sú leið upp að topp ásamt tveimur karlmönnum og labradorhundi um 58 mínútur á toppinn og 50 mínútur niður - geri aðrir betur og ég kerlingin hafði vel við körlunum... þó svo mig gruni að þeir hafi sýnt tillitsemi og dregið úr karlmennsku sinni til stuðnings dömunni sem lallaði þetta móð upp brattar hlíðarna.
Öðrum karlinum var að orði,( en hann sjálfur hafði vegna vaxandi heilsuvandamála tengdri stórri bumbu tekið upp á því að fara að ganga, fyrst stafagöngu með Gauja lita, svo Esjan og aftur Esjan og aftur Esjan og núna Úlfarsfellið :-) sumir og fleiri verða brjálaðir í hreyfingu þegar matur er lagður til hliðar), þegar maður er búinn að keyra sig svona upp fjallið lafmóður þá áttar maður sig allt í einu á því að svefnþörfin er minn, og það er rétt. Maður myndi ætla að verða örþreyttur eftir svona hreyfingu, en nei, orkan er gífurleg og ég nenni hreinlega ekki í bólið - kannski verð ég þreytt og úrill í morgunsárið en það gengur yfir.
Þegar á toppinn var komið var þrammað upp á hæsta topp vörðu sem þar var og sigurópið hljómaði eins langt og eyra heyrði - þvílík gleði, þvílíkt frelsi.. ég var komin upp á topp, nær himninum og stjörnunum - vindurinn var eftirrétturinn minn í kvöld og mig langaði í ekkert nema tært lækjarvatnið sem streymdi óhindrað niður hlíðina.
Þetta eru launin mín sem ég fæ út úr fráhaldinu.

156 - sólarmegin

Það er ótrúlegt veður, glampandi sól og hiti. Leitt að þurfa að hanga inni og vinna en maður verður víst að hafa salt í grautinn og aur fyrir sérstöku fæði og svo ný föt bráðlega þar sem allt er orðið of vítt eina ferðina enn þrátt fyrir minnkun á betri fötunum.
Enn gengur þetta eins og fyrri daginn - tek þessu fráhaldi mínu eins og ég væri með sjúkdóm (sem ég er með ef maður telur ristilvandamál, hækkaðan blóðþrýsting, verki í hnjám og mjöðum, þunglynd og allt sem fylgir offitu) .. ég þarf að taka inn lyfin mín þ.e.a.s. borða það sem ekki veldur fíkn hjá mér og fitar mig ekki - ef ég væri með krabbamein þá þyrfti ég að gangast undir miklu erfiðari meðferð til að bjarga lífi mínu ... svo ég lít á að ég geti gert heilan helling með því að halda mig fjarri kolvetnum sem æra mig stöðuga og huga að hreyfingu ásamt breyttu viðhorfi til lífsins og minnar eigin getu til að snúa lífsvenjum mínum við ..
Þar sem ég er búin að berjast við vambarpúkann (ég hef ekki enn farið yfir 100kg töluna) í yfir 20 ár þá veit ég að þetta er eina leiðin sem getur hjálpað mér aftur til bæði líkamlegs og andlegs heilbrigðiðs - afhverju, jú, þegar ég er ekki í ofátsmóðu þá fæ ég aftur heilan líkama og létta lund til baka - þannig er minn veruleiki búinn að vera að mestu leiti síðustu 5 mánuði.
Borðaði frábæra kjúklingabringu ofnbakaða með kolvetnasnauðu BBQ (keypa í Hagkaupum) með ofnbökuðu grænmeti í Dijon sósu (lögleg þar sem sykur er í 5. sæti) og salat með blue cheese dressing - ég get alveg lofað ykkur því stelpur að gulrætur, rófur og laukur bakað á þennan hátt er betra en kartöflur eða hrísgrjón :-)
Ég fékk mér AB og jarðarber í morgunmat og ætla að borða silung, hveitikímsbrauð og salat í hádeginu - massa mat - í kvöld svínahakk eldað í bolognesesósu með eggaldini, sveppum og lauk ásamt salati - svo fer ég út að ganga með Bumbubönum eftir mat.
Ó, já, gleymdi - fór á toppinn á Úlfarsfelli á 30 mín þannig að ég er búin að bæta tímann minn um nánast helming - fórum síðan í sund þar sem ég synti 200 metra og slakaði svo á í heita pottinum

sunnudagur, júní 20, 2004

155 - letimorgun

Þá er nýr dagur kominn á ný og aftur sit ég hér fyrir framan tölvuna ánægð með árangur gærdagsins. Að lokinni útskriftarveislu frænda míns sem gekk bara mjög vel og ég ekkert áfjáð í þann mat sem á boðstólum var (var spurð sí svona hvort ég hefði nú ekki vigtað og mælt, með ljúfu brosi af viðkomandi) ... að vísu var þarna epla- bláberjapæ og hnausþykkur rjómi við hliðina á því og varð mér starsýnt á þau þrjú föt sem innihéldu gúmmulaðið ÓÓÓÓ ... eitthvað gerði græðgispúkinn vart við sig þegar heim var komið og var hugurinn kominn á flug í matarfantasíum allt þar til ég fór að sofa rúmlega eitt í nótt - ég stóðst freistinguna og var mjög sátt í morgunsárið eða skulum við segja síðla morguns þar sem ég fór ekki á fætur fyrr en klukkan tíu og borðaði hefðbundinn helgarmorgun mat...
Systur minni og bróður ásamt öðrum fjölskyldumeðlimum sem ekki hafa séð mig í nokkrar vikur voru undrandi á því hvað ég væri orðin grönn og einn meðlimurinn sagði - það eru ár og aldir síðan ég hef séð þig svona granna - jibbí, ég er skvís og gella og ég hlakka til að eyða fúlgu fjár í vönduð og falleg föt nk. haust þegar ég verð komin í kjörþyngd.
Á eftir ætla ég að klára hæsta tind á Úlfarsfelli og reyna að komast hraðar yfir en síðast. Síðan ætla ég um fimm leytið að hlusta á gamla söngkennara minn halda tónleika í einni kirkjunni hér í borg - ég ætti svo bara mega vera ánægð með þessa helgi sem hefur verið helguð uppbyggingu sálar og líkama hjá mér.

laugardagur, júní 19, 2004

154 - kvennahlaupið

Þá er maður búinn að fara sitt fyrsta kvennahlaup - betra seint en aldrei.. ég, Fresníus og Sía löppuðum upp á gamla gönguklúbbinn og tóku 5 kílometrana á góðum gönguhraða.
Ég held að ég sé orðin föst í þessum nýja lífsstíl - það sækir nánast aldrei á mig löngun í sætindi eða annan mat sem kemur fíkninni í mér af stað - borðaði góða pönsu með steiktum eplum canderel og kanil og cappucino í stórum bolla en ég notaði 200gr af mjólk af morgunproteininu mínu - nammi namm - þetta er svo næs upp í rúmi með Moggann sinn og önnur helgarblöð.
Í hádeginu eða réttara sagt kl. 14:00 fékk ég mér hveitikímsbrauð, 1 egg, reyktan silung og salat - mjög gott og er ég södd núna.
Svo í kvöld ætla ég að borða áður en ég fer í útskriftarveislu þar sem ég er ekki alveg viss um hvort þar sé matur við hæfi þar og ég nenni ekki að taka vigtina með mér - hef þetta bara nice and easy, borða heima og fæ mér sódavatn og kaffi í veislunni..

föstudagur, júní 18, 2004

153 - Vigtunardagur - 2.5kg

Jæja allar saman - það fóru þá 2.5kg þennan mánuð og eru farin á fimm mánuðum 13.3kg og daman er orðin 76kg.. sem eru 9kg í hæstu kjörþyngdartölu og 16kg í þá lægstu en ég er ekki búin að ákveða hvað verður - læt bæra ráðast með tímanum. Þetta gengur það vel og ég er rosa ánægð með 2.5kg þyngdartap á mánuði.

Ég þurfti að breyta og sms breytinguna á morgunmatnum mínum í morgun þar sem ekki var nóg til af AB mjólk - ykkur finnst þetta kannski skrítið en svona virkar þetta fyrir mig og marga aðra með góðum árangri að tilkynna á hverjum degi matardagbókina og hringja inn breytingar eða með smsi - ég kæri mig ekki um að breyta neinu hér því þessi leið er að svínvirka fyrir mig :-)

Ég fór í klukkutíma göngu í Elliðarárdalnum í brilliant veðri og voru fáir á ferli þar sem miðbærinn var pakkaður af tugþúsundum manna...

fimmtudagur, júní 17, 2004

152 - það er kominn 17. júní

Og enn heldur sigurgangan áfram - í gærkveldi Úlfarsfellið klifið á meiri hraða og hærra upp en í síðustu viku - 20 mínútna hraðari uppganga. Þessu hefði ég aldrei trúað, að ég þessi víðáttufælna kona ætti eftir að ganga á fjöll, meðfram sjónum án þess að finna þessa nagandi óttatilfinningu innra með mér: hver skyldi ástæðan vera fyrir utan margra ára sjálfskoðunnar og innri vinnu??? Jú, ég veit það!!!! Sykur og einföld kolvetni hafa kolruglað öll eðlileg boðefni til heilans sem hafa lýst sér í auknum kvíða, hjartsláttartruflunum, meltingartruflunum og ýmsum vöðvaverkjum... !!! Ég set svo sannarlega samhengi á milli breyttrar matarvenja og hreyfingar - og myndu menn nú ætlað að ég myndi vilja hverfa til fyrri neysluvenja??? ÓNEI!! Allsekki.. þessa tilfinningu sem ég hef í dag vil ég fyrir engan mun vilja missa - ég vil halda áfram að vera það barn sem ég man eftir í einföldu neysluþjóðfélagi fyrir 40 árum síðan - þegar sælgæti, kökur og önnur óhollusta var ekki á boðstólum nema við einstök tækifæri.. en mér líður í dag eins og mér leið þegar ég var sex eða sjö ára gömul.

Ég kúrði fram til klukkan ellefu og fór þá hægt á fætur og bjó mér til sojapönnuköku ásamt soðnum eplum, canderel og kanil og hellti svo upp á rótsterkt kaffi sem ég tók svo með mér inní rúm og sötraði á meðan ég las morgunblöðin. Það er léttskýjað úti og tilvalið til að fara í góða göngu, annaðhvort Heiðmörkina eða Elliðarárdal eða janfvel meðfram sjónum ´... hver veit? ég læt það ráðast eftir því sem líður á daginn.

Ég borða hádegismatinn seint eða um klukkan hálf fjögur og ætla að fá mér hveitikímsbrauð með léttosti og venjulegum osti, tómata gúrku og iceberg salat. Í kvöldmat ætla ég að hafa kjöt og grænmeti í bolognese sósu - bakað í ofni, ásamt hrásalati.

miðvikudagur, júní 16, 2004

151 - og áfram er þetta létt :-)

Svaf vel í nótt enda sperrur á undanhaldi.
Fór í línudans í klukkutíma eftir vinnu í gær. Eldaði frábæran rétt úr svínakjöti, lauk, hvítkáli og rófum og Uncle Bens karrýsósu (sykur í 5.sæti) ásamt Tilda Zasli veg. curry sause - og lét þetta malla í klukkutíma í ofni - sælgæti stelpur - með þessu hafði ég icebergsalat og gúrku með 18gr majones blönduðu 20gr af bluecheese sósu (löglegt allt saman)- og ég verð að segja að ég sakna kolvetnanna ekki baun.

Er einhver ykkar snillinganna sem getur sagt mér hvernig ég edita linka inn á síðuna.. hvorki ég né maðurinn minn kunnum á HTLM dúdið

þriðjudagur, júní 15, 2004

150 - bráðum 5 mánuðir

Á föstudaginn verða 5 heilir mánuðir síðan ég byrjaði í mínu fráhaldi - þá er líka vigtunardagur.
Ég svaf varla í nótt vegna harðsperra :-) dásamlegir verkir sem bera keim af árangri.
Fékk mér sojapönnuköku í morgunmat ásamt vanillu skyri og bláberjum. Í hádeginu ætla ég að fá mér blómkál, brokkál, lauk og hakk í karrýsósu - ásamt hráu grænmeti - í kvöld svínalærisneiðar í ofni og grænmeti - namm namm

mánudagur, júní 14, 2004

149 - Harðsperrur

Svo ég taki mér í munn orðatiltæki unga fólksins í dag þá er ég með "harðsperrur dauðans" í mjöðmum og lærum frá Esjugöngunni í gær - svo er ég líka þreytt þannig að ég hef þetta létta göngu í hádeginu í dag - engin hlaup.

Nú eru bara 4 dagar í næstu vigtun en ég er ekkert voða spennt yfir því - þetta er orðið svo daglegt brauð að vera í þessu átaki og þar sem ég lít á þetta sem langtímaverkefni þá er ég ekki að rembast við stórar tölur lengur - hægt fer hægt kemur á.

Mér líður vel og ristillinn er kominn í lag aftur - yippie

sunnudagur, júní 13, 2004

148 - Esjuganga

Í banastuði þrátt fyrir auman ristil - fráhaldið er enn auðvelt og matardagskrá hefðbundin og ekki vikið frá henni.

Gekk á Esjuna í dag, ekki upp á topp því þolið er ekki alveg orðið 100% en úthaldið "stamina" er svo sannarlega til staðar, maður gafst ekki uppp og fikraði sig áfram og var ég í ca. 1 klst og 45 mínútur upp 70% Esjunnar - súld og þoka skrýddi hana en það er bara líka ákveðinn sjarmi þar -

Ótrúlegt, ótrúlegt - það er eins og sykurleysið og skortur á einföldum kolvetnum hafi hreinlega bjargað lífið mínu - ég finn ekki fyrir víðáttufælni, kvíða eða svefnleysi sem plagaði mig þetta líka fyrir hálfu ári síðan.. ég held svo sannarlega áfram á þessu mataræði og ætla mér að bæta við enn meiri hreyfingu komandi daga og vikur -

laugardagur, júní 12, 2004

147 - og hann rignir :-)

Fráhaldið gekk í gær þrátt fyrir órólegan ristil með tilheyrandi verkjum því honum fylgir - bætti bara við Huskið og ætti að geta hreinsað hann út og losnað við sýkingu.. Ég er svo ógurleg svefnpurka um helgar (enda engin börn á heimilinu) og svaf mínu græna fram til kl. 11:00 en þá fékk ég mér mína sojahveitipönnuköku með jarðaberjum og vanilliskyri - þetta er mjög gott - í hádegismat sem verður kl. 15:30 ætla ég að borða brauð úr hveitikími með 25 gr léttosti, 50 gr skinku og 200 gr hrátt grænmeti - í kvöld ætla ég að borða kjúkling og soðið og hrátt grænmeti 500 gr ..
Í gegnum árin er ég búin að vera að berjast við aukna vigt frá því að ég byrjaði í megrun 28 ára gömul og þá aðeins 57kg að þyngd og síðan hefur vigtin verið á uppleið og í góðum rykk eftir að ég hætti að reykja árið 1988 - ég hef reynt ýmislegt til að grennast og þær leiðir alltaf endað í mikilli sprungu og þyngdaraukningu.
Núna er ég að vonast til að hafa dottið niður á leiðina mína (auðvitað langar mig í súkkulaði og annað gúmmulaði) sem byggist á 12 spora kerfi matarfíkla (er alki og búin að vera edrú í 25 ár) þannig að ég geri þetta einn dag í einu..
Ég lít á að ég sé með sjúkdóm - kolvetnafíkn - og að ég þurfi að halda mig fjarri þeim vörum sem koma fíkninni af stað (eins og sykursjúkir verða líka að gera) - ef ég geri þetta ekki þá leiðir þetta af sér alls konar niðurbrot á líkamsstarfseminni t.d. minn órólegi ristill er afleiðing af ofáti og óreglu í mataræði - hár blóðþrýstingur afleiðing af ofþyngd - líka vefjagigtin þó svo áverkar spili þar inní og hjartsláttartruflanir - allt þetta hefur lagast til muna hjá mér síðustu mánuði - já, svo var kolesterolið orðið of hátt líka ...
Nú í dag 147 dögum eftir að ég byrjaði á mínu fráhaldi eru farin mörg kíló og líkami minn er að öðlast eðlilegt form, ég er ekki eins mæðin sbr. alla þá hreyfingu sem ég er farin að stunda, ég stend með sjálfri mér í því sem gerist í daglegu lífi mínu - og mér er farið að þykja það vænt um þennan skrokk sem ég bý í að ég vil að hann haldi heilbrigði sínu svo ég geti ferðast í honum í ca. 30 ár til viðbótar eða kannski 35 ár og þá vil ég alveg skila honum til baka til moldarinnar svo sál mín megi ferðst lengra áfram ...
Svo í dag er fráhaldið það mikilvægasta í lífi mínu og útkoman er betri líðan og gott skap.

föstudagur, júní 11, 2004

digit 146

Gærdagurinn var fínn - gekk og hljóp í hádeginu og var hress. Fór á fund um kvöldið og torgaði mínum mat að venju.
Vaknaði í morgun með órólegan ristil og bið til æðri máttar að ég fái ekki sýkingu eins og stundum hefur gerst - búið að hóta að taka hluta af ristlinum ef ég fæ síendurteknar sýkingar í hann - þetta setur smá strik í fráhaldið hjá mér þar sem hætta er á að ég þurfi að fara á fljótandi, en ég reyni að vera jákvæð, drekka minna kaffi og meira af vatni.. þetta gengur yfir.

fimmtudagur, júní 10, 2004

Dagur 145

Fór í klukkutíma hraðgöngu í gærkveldi inn með Staðarhverfinu og svo meðfram sjónum.. þvílíkt augnakonfekt sem landið okkar er í svona fallegu veðurfari.
Sultarpúkinn lætur ekkert á sér kræla svo ég held að ég sé gangandi sönnum um hvað kolvetnafíknin gerir manni. Tek það fram að ég er ekki á kolvetnalausu fæði heldur eru tekin út öll einföldu kolvetnin sem auka á fíknmyndun - að sjálfsögðu skjóta upp kollinum minningarbrot um hina og þessa nammifæðu og þá iðar maður aðeins í skinninnu - en ég tími ekki að eyðileggja þennan góða árangur sem ég er búin að ná og hvað þá síður að fara aftur í þokuna sem ég var í þegar ofátið var á fullu -

miðvikudagur, júní 09, 2004

Dýrðarinnar dagur

Dálítið þreytt í skrokknum eftir Úlfarsfells gönguna í gærkveldi og vildi bara ekki á fætur í morgun - en skyldurnar kölluðu og ég dreif mig framúr - morgunmatur eins og síðustu 143 dagana, hádegismatur skv. mínu fráhaldi og fór í 20 mín. göngu/hlaup í hádeginu áður en ég borðaði - er núna að pústa smá og finn fyrir að líkaminn þarf að aðlagast breyttum lífsstíl og þá sérstaklega þessari daglegu hreyfingu - ég ætla, skal og get verða ofsa fit fimmtug kona.

þriðjudagur, júní 08, 2004

Dugleg

Vá - ég fór í fjallgöngu að loknum línudansi, pjúff - allur kvöldmaturinn brenndur í burtu, en hann var 100 gr kjúklingu og 400 gr grænmeti í Chicken tonite karrý sósu (sykur og kolvetni í 5 sæti eða ofar) 100 gr hvítkál rifið niður með 20gr majonesi, 3 tsk sítrónusafa og candrell - og ég er svo söddddddd
Þessi dagur er búinn að vera hreint út sagt frábær.

Bloggdagur 2

Góðan og blessaðan !!!
Allt bara í blússandi gúddí gúddí hér - byrjaði minn dag eins og venjulega á AB mjólkinni og ávextinum. Fór síðan í labbihlaup í hádeginu :-) labba meira en hleypt en þetta er allt í rétta átt, þolið uppá við og löngunin til að hreyfa sig alltaf að verða meiri og meiri.
Borðaði síðan mitt hveitikím (sem ég kaupi í heilsudeildinni í Hagkaupi eða Yggdrasil)ásamt skinku og léttosti + 200 gr hrátt grænmeti + 15 gr fitu viðbit..
Það var svo gaman þegar ég talaði um barnabörnin mín og ein stúlkan í vinnunni sagði: þú ert svo voða ungleg!!! áttu ömmubörn?? ÓÓ.. .yndislegt að vera ungleg og mjúk (ekki feit, nei, nei) amma..´
Eftir vinnu fer ég í línudans og losa mig þannig við nokkrar hitaeiningar og svo eru bara 10 dagar í næstu vigtun

mánudagur, júní 07, 2004

Léttfimmtug

Ég get ekki verið ein á bumbana blogginu svo "here I come" .. Ég byrjaði í mínu átaki rúmlega fimmtug kona 160 á hæð og 89.3kg - ég var búin að fá nóg - gjörsamlega nóg enda heilsan farin að gefa sig - skiljanlega, komin á minn aldur :-)

Ég nýti mér 12 spora kerfið í minni matarfíkn og vigta og mæli 3 máltíðir á dag - skrifa allt niður og tilkynni til sponsors.. ég er á kolvetnasnauðu fæði.

Þegar ég vigtaði mig 18. maí sl. þá hafði ég lést um 11kg síðan 18. janúar - já, ég fer bara 1x í mánuði á vigtina - næsta vigtun er 18. júní. Öll föt eru orðin of stór og er það gleðiefni en líka að hluta til kostnaðarsamt.. ég reyni þó að ganga í víðum druslum þar til 5kg til viðbótar eru farin...

Ég er aldrei svöng og ég þarf ekki að borða yfir tilfinningar lengur eins og ég gerði : komi eitthvað upp hvort heldur er í persónulega lífinu eða í vinnu þá hleyp ég ekki lengur í brúna kolvetnið, ég missi frekar matarlystina - ég er semsagt laus úr kolvetnafíkninni - tek það samt fram að ég innibyrði ca. 80-100gr af flóknum kolvetnum á dag, en þau er að sjálfsögðu nauðsynleg heilabúskapnum...

Nú var ég rétt í þessu að búa mér til mína eigin pizzu: 50 gr sojahveiti, 30 gr hveitikím - bý til deig úr þessu og blanda við það hvítlauksdufti og basilikum + matarsóda til að fá smá lyftingu - set á deigið þegar ég er búin að forbaka það bolonese sósu (sykur í 5 sæti eða ofar) - og grænmeti - til samans reiknast grænmetið 500 gr, sojahveitið og 25 gr af osti reiknast sem 1 prótein og er þá kvöldmaturinn minn tilbúinn.