léttfimmtug

laugardagur, júlí 31, 2004

196 - róleg helgi

Dömur - það er verslunarmannahelgi og aldrei betra að vera í henni Reykjavík en einmitt nú. Allt hefur þennan rólega blæ yfir sér, ekkert öngþveiti á strætum borgarinnar og kyrrð hvílir yfir nánast öllu.
Fór í sund eftir að hafa tekið heimilið í gegn og naut þess að synda fram og til baka í ca. hálftíma eða meir, gleymdi mér hreinlega og taldi ekki ferðirnar. Það skein bæði sól og ringdi, en það er hið besta mál enda á Íslandi.
Borðaði frábæran hádegismat, kjúkling, ost, grænmeti í sósu, gulrætur og blandað hrátt grænmeti.. ekkert slor.
Það segir mér hugur að þó nokkuð af grömmum sé farið síðan í síðustu vigtun þ. 18. ágúst og er ég alltaf best ángæð með að vera búin að ná tökum á breyttum lífsstíl.
Í kvöld ætla ég að borða grillkjöt, steikt hvítkál í sósu og gjláðar gulrætur og gulrófu ásamt blönduðu hráu grænmeti.. svo drekk ég gleði minni í Tab flösku.
Það fer óðum að styttast í mitt seinna sumarfrí og ætla ég að skreppa til Danmerkur í tvær vikur þann 14. ágúst, vonandi verð ég heppin með bæði sumarhús og veður. Þetta verður þá líka fyrsta utanlandsferð mín með vigtina, en ég á ekki von á öðru en að það gangi bara vel - ég hef engan áhuga á því að bæta á mig því sem ég er búin að missa, nógu lengi tekur að losa sig við þessi aukakíló.

föstudagur, júlí 30, 2004

193-195 - Minnka enn meir

Í gær þá lét ég af hendi fyrsta hluta af stóru fötunum mínum :-) æðisleg tilfinning og ég ætla aldrei aftur í svona stór föt.
Ég er enn að minnka, finn það þó svo ég fari ekki á vigtina. Galla buxur sem ég keypti vel þröngar eru að verða víðar. Dragt sem smellpassaði fyrir þremur vikum hangir nú utaná mér.
Eflist öll við þetta í fráhaldinu og það hvarflar ekki að mér að hverfa aftur til fyrri ofátstíma. Ég vil hvorki fá á mig aukakílóin aftur eða missa þessa fínu heilsu sem ég er komin með.
Verst hvað veðrið er róstursamt í dag, en vonandi lagast það um helgina. Ég þigg alveg mikið af göngutúrum. NB fer í göngutúr á hverjum degi núna í hádeginu og svo líka á kvöldin ef ég kem ekki of seint úr vinnunni. Þessi hreyfing hjálpar mikið til við þyngdartap og að auka á úthald og betri heilsu.
Mér líður semsagt vel í dag.. búin að vigta og mæla bæði morgunmat og hádegismat og allt á hreinu hvað ég borða í kvöld.

þriðjudagur, júlí 27, 2004

190-192 - vöðvabólgan að drepa mig

Ef maður gæti bara farið í vöðvabólgufráhald - betvítans bólgan hefur verið að angra mig að undanförnu og leggst það illa í mig, næ bara ekki að slaka á í herðunum og hálsi.  Dálítið fúl afþví mér hefur liðið svo andsk... vel að undanförnu.  Þarna er um að kenna brauðstritinu held ég og afþví að maður er of gráðugur vinnulega séð - hei, hafið þið heyrt þetta orð gráðug/ug/ugt, jamm, mín reynlsa er sú að mikill vill meira!!! ef ekki mat þá eitthvað annað t.d. spennu, vinnufíkn eða eitthvað annað sem hendir manni út úr leiðindum daglegs lífs... ég er bara að pæla í þessu án þess að hafa nokkur svör.
Þrátt fyrir þessi leiðindi sem hafa tekið sér bólfestu á herðum mínum þá er ég ekki að borða neitt sem ég má ekki, vigta og mæli á hverjum degi og mataseðillinn hjá mér tekur örum breytingum til batnaðar.  Ég borða aldrei vondan eða litlausan mat.  Legg mikið uppúr því að fá eitthvað gott í munn og maga :-D -
Fór út að ganga um helgina,  í gær og eftir vinnu í dag.  Þegar ég strunsa þetta svona áfram þá líður mér vel og rýkur stressið úr skrokknum á mér.  Ég er líka farin að skynja umhverfið á allt annan hátt en áður, miklu mildara og fallegra og er ég í góðri sátt við Guð, menn og steina.
Á ekki von á öðru en að ég haldi fráhaldið á morgun enda búin að plana það sem ég á að borða.  Ætla síðan að loknum vinnudegi að verðlauna mig með góðu nuddi frá einni kellu sem er að fást við sama matarfráhaldið og ég ... ætla leyfa henni að vinna smá með orkubrautirnar og stíflurnar sem hafa tekið sér bólfestu þar.
Bið alla vel að lifa og njótið þessa góða sumars sem hefur heimsótt okkur í ár.

laugardagur, júlí 24, 2004

188-189 - alltaf gott veður á Íslandi

Gleymdi að blogga í gær þar sem ég var að kveðja stelpuna mína en hún var að fara ásamt manni og börnum aftur heim til sín í Svíþjóð. Gærdagurinn gekk vel  og komst ég í gegnum hann en með smá löngun í eitthvað - gat ekki fundið út hvaða fæðutegund það væri. Þegar svona löngun hellist yfir mig þá fæ ég mér tyggjó og diet gos og næ þannig að halda mér góðri.
Það var smá grillveisla í gær og kom ég of seint af ásettu ráði en viti menn, fólkið var ekki farið að borða og mér auðvitað boðið borða með...ummmNeiNei, búin að borða og útskýrði afhverju - allir sáttir við það og ekkert amast við mér... segi ekki að ég hafi ekki slefað pínu yfir súkkulaðiísnum og fersku ávöxtunum með rjómaútáhellingu. Maður verður bara að vera strangur á svona augnablikum og bíta í sig Neiið... reynist mér ekkert voða erfitt.
Vaknaði hress og kát fyrir utan vöðvabólgu og verkjum sem þeim fylgja í herðum, hálsi og höfði og útbjó mér minn venjulega helgarmorgunmat og skrapp síðan aftur í rúmið með cappucinoi, mjög huggulegt og rólegt. Fór á GS fund og síðan eftir það með eiginmanninum í göngutúr í miðbænum og á veitingahús... það voru allir að borða borgara og franskar, gos, bjór og ís, en ég sötraði á diet coke. Maður er stundum pínu utanvelta afþví maður tekur ekki þátt í svona áti.
Ég móðgaði konu í Bónus í gær en hún var að bjóða kökur í smakk, sagði við hana, Nei takk ég er svo grönn og sæt, ég vissi ekki hvert hún ætlaði að fara: grönn og sæt, er þá grannur sætur en feitur ljótur.. úpsss.. neinei, ekkert svoleiðis sagði ég en ákvað að útskýra ekki frekar að maður er sætur hvort heldur maður sé feitur eða ekki, en mér líður betur grannri og finnst ég vera sætari...

fimmtudagur, júlí 22, 2004

187 - léttoglaggot

Allt við það sama hérna. Ekkert svind og engin löngun. Fráhaldið er orðið að vanafestu og er ekkert sem virðist geta haggað því. Að sjálfsögðu er ég ángæð með það að þurfa ekki að remabast með langanir í þetta og hitt. Hlutirnir eru einfaldir, þetta borða ég og þetta ekki.
Ein góð vinkona mín sagði á fundi í kvöld.. ég kýs að hafa glasið hálf fullt í staðin fyrir hálf tómt, kýs að líta svo á að í GS megi ég svo margt í staðin fyrir að hugsa: ég má ekki. Eins og talað úr mínum eigin munni. Þessi vinkona er búin að missa plús 40kg og lítur geislandi út.
Ég prumpa dálítið af xylitolinu og lít bara á það sem ágæta strákafælu, þeir eru nefninlega farnir að gjóa til mín augunum þessar harðgúrkur þarna ... þá er bara að reka rækilega við og burt er dóninn... leyfi mér hér hið margrómaða skáldaleyfi. En það er satt, ég lít vel og út er bara dálítið sexy fyrir minn aldur og ætla bara ekkert að reyna að fela það.
Er nú að undirbúa morgundaginn sem er nánast sá sami á hverjum degi en það spara pælingar fram og til baka. Setti kanil í hveitikímið í staðin fyrir basilikum þannig að á morgun borða ég kanilhveitikímsbrauð.. nammi namm .. ofan á set ég 25gr ost, 50gr skinku og 15gr smjörva.
Svo borða ég í kvöldmat 100gr hakk í eggaldin, kúrbít og lauk soðið í basilikum tómatsósu, salat með þistilhjörtum... góður matur og bragðmikill.

186 - stútfull

Var að skríða í hús eftir velheppnað kvöld á Hereford steakhouse.  Það var vigtað og mælt ofan í mig þessu líka yndæla pönnusteikta grænmeti og 100 gr af ótrúlega mjúku lambafilleti og brjálæðislega miklu hvítlaukssmjöri.  Ég byrjaði samt máltíðina með 100 gr af blönduðu salati og 1 stk af þurrkuðum tómati í olíu - svo fékk ég mér espresso í eftirrétt.  Ekkert mál að fara út að borða á þennan hátt og heyrðist mér á þjónunum að þetta væri oft gert hjá þeim s.s. fleiri en ég á þessari línu.
Ég get ekki státað mig af hreyfingu þessa vikuna svo við köllum hana bara letivikuna.  Verð þó að segja að ég kann betur við mig í hreyfingu en án.. verð öll hressari og betri í skrokknum við að klifra fjöll og ganga sjó.. ekki misskilja mig, ég er ekki Jesús sem gengur á vatni bara kona 17kg léttari og flýt auðveldar á lygnum sjó eða öllu heldur sundlaugum.´
Ég gæti alveg hugsað mér að vinna bara hálfan daginn og nota hinn helming dagsins til að vinna að hugðarefnum og koma mér í enn betra lag líkamlega.  Mig langar nefninlega núna til að fara að byggja upp vöðva og koma þolinu á fullt.  Væri alveg til í að fara að hlaupa/skokka og finna andann verða frjálsan á hlaupum.  Vonandi rætist þessi draumur einn góðan veðurdag.
Það er komið framyfir miðnætti og ég á eftir að ganga frá matnum fyrir morgundaginn, ekki vil ég stofna fráhaldinu í hættu.
Bið alla góða vætti að vera með ykkur og forða ykkur frá hömlulausa bitanum ;-)

þriðjudagur, júlí 20, 2004

185 - Ó hversu ljúft lífið er

Já, lífið er ljúft þrátt fyrir gigtina sem er að reyna að finna sér bólfestu í einum fingra minna og stífra vöðva í öllum skrokknum. Satt er það að mikið af vondum öndum hafa yfirgefið líkama minn og ég er öll miklu verkjaminni nú en fyrir hálfu ári síðan...
Bauð sjálfri mér í ljúft nudd að lokinni vinnu og sat svo ein alsber í sauna þar til líkaminn var orðinn eins og eldrautt gull - hahaha - notalegt að sitja svona og geta séð lífbeinið á sjálfri sér sem er ekki lengur að fela sig undir stórri slitinni bumbu. Ég segi sjálfri mér á hverjum degi að ég líti vel út og ég þakka líkama mínum fyrir að bera mig áfram hvernig svo sem ástandið er, ég þakka honum líka að vera svona þægum og að öskra ekki lengur á mat.
Ég er eins og þroskaður tómatur, sætur og nærandi en að sjálfsögðu ponsu hrukkóttur og siginn. Nýr banani er sléttur, grænn og harður og vondur undir tönn - þroskaður banani gefur frá sér ilmandi lykt og er mjúkur undir tönn og fer vel í maga (verst að hann má ég ekki borða of mikil sterkja)... svona er ég í dag, þroskuð, siginn, ilmandi og fer vel í maga sjálfrar mín þ.e.a.s. ég kann að meta mig í dag.
Ummm... ég borðaði svo góðan mat í kvöld.

Pottrétt úr:
100 gr ss vínarpylsur
350 gr blómkál og laukur í paprikku salsa sósu - grrrrrr rosa gott
og blandað salat
150 gr Iceberg salat, tómat, gúrku og púrrulauk
30 gr blue cheese sósu

Og nú er ég að drekkja mér úr lítra af sítrónu Egils kristal.

Ég nenni ekki út að labba, ætla bara að fleygja mér fyrir framan imbann og fara snemma í bólið í kvöld.

Er búin að panta borð á Hereford steakhouse á morgun og ætla þeir að vigta og mæla matinn minn - fer samt með vigtina svona til vara ef eitthvað gleymist - mér finnst þetta ekkert vandræðalegt. Ánægð með að vera viðundur og það sérstaklega afþví ég græði svo á því heilsufarslega.

mánudagur, júlí 19, 2004

184 - þakklæti

Í dag er ég þakklát fyrir að fá að vera til - að fá að finna lyktina af lífinu, sólinni og öllu sem hreyfist í kringum mann.. fegin að hafa þroskast eftir áralangt streð í lífinu... fegin að hafa áttað mig á eigin ábyrgð.
Fór í sund í dag með barnabarninu og fékk skemmtilegar athugasemdir.
AmmOlla - þú ert með stór brjóst niður á maga: mamma ekki svona, hún er með stór brjóst hátt uppi - svona hátt sagði hún og lyfti upp höndunum :-) ... AmmOlla, afhverju svona rákir á maganum hjá þér og potaði í hann - hummm, mér varð svarafátt enda margir í búningsklefanum og ég ekki alveg viss um hvernig maður segir tæplega 3ja ára telpu sannleikann um barnsburð og slitin maga.
Heima: AmmOlla er pabbi þinn lasinn gleyið (á erfitt mer rrið).. Amma: viltu kakó mjólk elskan. Snúllan: Nei, ekki gott fyrir litlar stelpur, kakómjókk ekki góð í maga - svona kók voða vont fyrir litlar stelpur....
Sú litla fékk að elda með AmmOllunni sinni og hlæðli í pottinum - svo kenndi hún AmmOllunni nokkur barnalög og AmmOllan var ekki lagin við að muna textann og skríkti þá í þeirri litlu, AmmOlla rugla.
Yndislegur dagur og fráhaldið hélst í dag.

sunnudagur, júlí 18, 2004

183 - Og!!! það fóru 3.1kg :-)

Ójá, já, já - það sannast hreyfing og breytt mataræði orsakar betri heilsu, léttari lund og grennri líkama - nú eru farin 16.4 síðan 18. janúar og annaðhvort 6kg eða 10kg eftir :-). Með þessu áframhaldi verð ég komin í kjörþyngd fyrir jól, Hip hip húrra!! - en dömur mínar takið eftir, þá byrjar það erfiðasta: að viðhalda kjörþyngd því eins og við flestar vitum þá er kannski auðveldast að ná þyngdartapi með því að vera agaður og gera allt rétt svo mánuðum skiptir og jafnvel árum eða tveim betur og tapa sér svo síðan þegar allt virðist vera komið í rétt horf...
Þar kemur þá inn fundarsókn mín og vilji til að halda áfram að vigta og mæla og tilkynna til sponsor matardagbók mína - ætla ég að gera það??? Ójá, ekki spurning, ég vil ekki lenda í því aftur að þyngjast og fá alla kvillana mína til baka - hvað þá heldur að þurfa að kaupa stærri og stærri föt og sjá eftir litlu númerunum aftur inn í skáp. Svo er aldrei að vita hvenær maður eignast aftur kjark til að takast á við vambarpúkann þegar offitan er sest á mann aftur - ég þekki það af fyrri reynslu, kílóin af, svo farið aftur í gamla farið og meiri þyngdaraukning hleðst á mann.

Lífið mitt er einn dag í einu bundið fráhaldi og því að taka ekki fyrsta hömlulausa bitann.
Ég fagnaði þessu þyngdartapi með því að fá mér eftirfarandi:

1 sjojapönnuköku úr:
25 gr sojahveiti
1 egg
1/4 tsk matarsódi
1 tsk xylitol
sletta af sykurlausu karamellusírópi

Steikti 1 stórt jónagold epli

Setti eplin yfir pönnukökuna og strái kanel xylitoli yfir - nammi namm

Á eftir fékk ég mér stóran expresso kaffibolla með 100gr flóaðri mjólk, smá kanil og sætti með canderel töflum - tók síðan bollann með mér inn í rúm og las morgunblöðin - kallinn minn kom til mín kyssti mig á kinnina ofurblítt og óskaði mér til hamingju með dugnaðinn, sagði síðan með bros í augum, ég er rosa stoltur af þér... hvað vill maður meira, nema ef sé að sjálfsálitið og væntumþykja í garð eigin líkama er frekar mikil þessa dagana - ég er falleg kona í þroskuðum líkama, úr augum mínum skín mild lífsreynsla og sátt við almættið og lífið. Ég ætla ekki að sleppa takinu á þessum nýja lífsstíl mínu - einn dag í einu.

laugardagur, júlí 17, 2004

182 - æðislegt sumar

Ég var búin að skrifa langa tölu hérna áðan og það týndist :-( er orðin nokkuð þreytt eftir góðan og skemmtilegan dag þar sem farið var í sumarbúðarferð til vina í Svínadal. Vigtin góða var með í för og allur matur vigtaður og mældur fyrir framan vini sem hreinlega tóku vel í þetta og hrósuðu mér fyrir góða frammistöðu í mínum breytta lífsstíl.
Á morgun er vigtunardagur og er ég spennt.

föstudagur, júlí 16, 2004

181 - byrjuð að hreyfa mig aftur

Ahhh... fór í hraðgöngu í hádeginu og svo í sund að loknum vinnudegi:-) æðislegt.  Það er líka virkilega gaman að skoða sig berrassaða og sjá að líkaminn er kominn með fínar línur fyrir minn aldur og er reisn yfir blessuðum skrokknum...
Ég synti 500 metra og fannst það gott þar sem ég er ekki með sterka handleggi og frekar stutt í annan endann.. aðrir sundgestir bruna framhjá mér meðan ég syndi þetta í rólegheitum og nýt þess að finna kyrrðina setjast að í huga mínu.  Ekkert annað kemst að annað en að kljúfa blátt vatnið og komast að hinum bakkanum ferð eftir ferð.
Mig kitlar í fæturnar núna því veðrið er yndislegt.  Ég þarf ekki nema að kíkja út gluggann og þar blasir Úlfarsfellið og býður mér að ganga á sig - samt hefur letiblóðið yfirhöndina og ég býst við að ég njóti bara að horfa á kvöldsólina út um gluggann og láta mig dreyma um ilminn af nátturunni..
Ég borðaði góðan mat og hef ekki þörf á sætindum.  Fæ mér vænan sopa af Egils Kristal og finnst hann dágóður og svo er ég búin að brugga mér kanilte.
Í dag fór ég í bleikan jakka sem ég notaði við kjólinn sem var alltof þröngur þegar ég gifti mig fyrir tæpum 3 árum síðan ... jakkinn náði mér ekki yfir brjóstin, nú get ég hneppt honum og hann er þokkalega rúmur... gaman að uppskera að vera komin í eðlilega stærð.

fimmtudagur, júlí 15, 2004

180 - Nei, ég læt ekki undan

Þar sem commentið hjá mér tekur ekki nema 5 svör þá neyðist ég til að svara Lilju hér - Nei, Lilja ég læt ekki undan og fæ mér smakk af einhverju svokölluðu gúmmulaði :-) gömul reynsla hefur kennt mér að ef ég tek þennan eina bita þá er ekki aftur snúið.  Einnig hefur það sýnt sig að hvert átakið - MEGRUN - hefur endað í einni stórri sprengju og ég alltaf þyngst í kjölfarið og bætt á mig meiru en ég missti.  Það er ekki þar með sagt að hugurinn hvíli ekki hjá súkkulaði, kökum og ýmsum mat sem ég huggaði mig svo oft við og ég hef oft sagt að þegar ég sé komin í kjörþyngd að þá muni ég smakka á hinu og þessu!!! - ég bara veit ekki hvað ég geri, hvort ég haldi fráhaldið eða sökkvi mér í gamlar venjur.. en núna er það bara einn dag í einu og ég fresta þessum aukabitum í 10 mínútur, klukkutíma og fram á næsta dag og það hefur dugað hingað til.

180 - hálft ár

Í dag er hálft ár síðan ég ákvað að byrja á nýjum lífsstíl og á sunnudaginn er hálf ár síðan ég byrjaði í mínu fráhaldi - tíminn líður og flýgur -

Ég er búin að vinna eins og skepna í dag og hef varla tekið eftir því að ég sé til. Hugsa ekki um mat en gleymi samt ekki að borða mínar máltíðir.. í öllu þessu havaríi hef ég ekkert hreyft mig og ætla ég að taka mig á og fara í sund á morgun eftir vinnu og hreyfa mig vel um helgina.

Læt þetta duga í dag -

miðvikudagur, júlí 14, 2004

179 - góður dagur og létt lund

Mikið er þetta nú skrýtið að vera svona oft í góðu skapi!!! Jahérna, svei mér þá - skil varla þessa breytingu sem átt hefur sér stað síðan ég byrjaði í mínu fráhaldi: segi nú ekki að einhverjar freistingar læðist að manni t.d. í Hagkaupi eftir vinnu, vann langan vinnudag í dag, rölti ég meðfram hillum af góðgæti og slefaði smá þar til ég áttaði mig að maður á ekki að vera að espa sig of mikið með því að vera að góna á súkkulaði, kex og annan varning sem kemur manni beina leið í ótrúlega vanlíðan - ég greip í öxlina á sjálfri mér og kom mér burt frá þessum rekkum - fyllti körfuna af grænmeti og nokkrum ávöxtum, kom mér heim á leið og eldaði þennan góða blómkálsrétt og brasaði svínakótilettur uppúr salvíu MJÖG GOTT ..

Ég þarf að planleggja dagana mína hvað varðar máltíðir, gera ráð fyrir hinu óvænta ef ég fer í veislur og vita af því að næsti kolvetnabiti er við næsta fótmál. Hvað geri ég þegar ég fer í veislur!!!?: ég borða áður en ég fer og ef ég vil virkilega vekja á mér athygli þá bara hreinlega kem ég með mitt eigið grænmeti vigtað en vigta próteinið sem er á boðstólum - við spurningum sem lagðar eru fram er einfalt svar - ÉG ER MEÐ MATAROFNÆMI - og það dugar til að fólki finnist þetta í lagi að maður borði ekki það sama og það... ég er með matarofnæmi, ég borða of mikið og eitra á þann hátt fyrir mér, ég undirbý jarðveginn að alls konar sjúkdómum sem erfitt er að ráða við þegar aldurinn færist yfir mann... ef ég fer aftur í gamla farið og ét yfir mig af einföldum kolvetnum og sykrum og þyngist eða jafnvel þyngist ekki, þá þarf ég blóðþrýstingslyf, blóðþynnandi lyf, kólesteról lyf, lyf við magabólgum, við ristilbólgu, þvagræsilyf, þunglyndislyf og svefnlyf.. en með því að huga að því sem ég læt ofan í mig þá fæ ég, grannan skrokk, aukið sjálfsálit, innri frið, rólegan hjartslátt, jafnan þrýsting í æðum, bjartari huga, rólegan svefn og vinirnir koma til baka afþví lundin er létt og jákvæðni hefur tekið við af neikvæðni - þetta er ástæðan fyrir mínu fráhaldi.

þriðjudagur, júlí 13, 2004

178 - brrr rok og kalt en held mig í fráhaldi

Sit hér með heitan jurtadrykk, stífar herðar og smá pirrí pirr - það er svona að vera kona með Rósu í heimsókn og enn ekki komin á breytingarskeiðið þrátt fyrir árin fimmtíu og sjö mánuði í dag - mér blæðir svona hóflega og líkami minn gefur ekki frá sér nein harmakvein enda þekki ég ekkert annað ástand frá því að ég var nærri orðin tólf ára gömul.
Lundin hefur verið tamin svo síðustu tæpa sex mánuði að það er ekki spurning um að narta í eitthvað sem gæti komið mér af stað í át át át og aftur át (syngist með laginu lax lax lax og aftur lax)... samt í gær þegar dóttla, maður hennar og mín yndislega fallegu frábæru barnabörn komu í heimsókn frá útlandinu og ég þurfti að skreppa í búð til að kaupa einhverja dísæta köku og íslenskt súkkulaðikex handa þeim, sem þau svo ekki einu sinni nörtuðu í - halló, halló - ég hefði étið hálft kíló ef ég væri svona grönn eins og þau... æi, ég ætla að klára þessa setningu sem í byrjaði á fyrir ekki svo langa löngu - við kaupin og geymslu þessar hræðilegu kolvetna hvarlaði svo sem að mér að gott væri að sökkva tönnunum í helv.. kökuna og bryðja kexið.. arggggg... en enn liggur þetta í poka inní skáp þar til minn elskulegi ekta maður (195cm á hæð og 86.5kg á þyngd) fær sér smá bita af þessu og borðar upp á einni viku - hummm... ég aftur á móti hefði sporðrennt þessu á hálfu kveldi, svolgrað með því hálfan líter af fjörmjólk og endað í ælukasti inná klói.. jamm, þar skaut ég því út úr mér semsagt semi bullemia - lærði þetta þegar ég bjó í útlandinu fyrir tuttugu og einu ári síðan .. svona úr fræðsluþætti um átröskun og hélt mig himin hafa höndum tekið - borða og æla, það hélt manni grönnum... heppin samt afþví ég gerði mér grein fyrir fáránleika svona athæfis og hvað skaða maður gerir bæði hjarta og æðakerfi og ekki talandi um meltingarvegina og tönnslurnar...
Þessvegna í dag er ég svo ánægð með að hafa fundið minn botn og að ég borði til að lifa en lifi ekki til að borða - einn dag í einu held ég fráhaldið og vitandi sem óvirkur alki í tuttugu og fimm ár að ég get jafnvel haldið matarfráhald svo lengi :-)

Í kvöld nenni ég ekki að hreyfa mig - það er rok úti og kalt, vil bara hafa það smá huggó og blogga smá.. undirbúa síðan hádegismatinn á morgun sem ég tek með mér í vinnuna og hver veit nema ég leggist snemma undir feld og lesi smá...

Í dag er ég ánægð afþví ég kýs að vera jákvæð í eigin garð.

mánudagur, júlí 12, 2004

177 - allt á rólegu nótunum

Ekkert merkilegt að gerast í raun. Dagurinn drallast þetta áfram í rólegheitum og maginn lætur mig í friði alveg þrælsáttur við að fá bara þrjár máltíðir og gleymir jafnvel að kalla á magafylli.
Eina hreyfingin í dag var æfing á hælaháum skóm dillandi léttari bossa í þröngum gallabuxum og eldrauðri peysu í stíl við vel málaðar varirnar. Fólk er farið að hæla mér fyrir gott og fersklegt útlit og bossinn í vinnunni sagðist vera mjög ánægður með breytingarnar á mér :-) .. og ég manna ánægðust sjálf þar sem sjálfsöryggið er orðið meira... ég veit að ytra útlit hefur ekkert með innri mann að gera, kjarninn er alltaf sá sami hvernig sem útlitið er, en mín reynsla síðustu mánuði með batnandi heilsu sannar fyrir mér að heilbrigður líkami er betra farartæki fyrir sálina/egoið manns og ég vil ekki hafa það öðruvísi héðan frá.
Ég geri mér líka grein fyrir því að enginn annar en ég sjálf næ þessum breytingum í gegn.. það grennist enginn fyrir mig, það borðar enginn hollt fyrir mig og það hreyfir sig enginn annar fyrir mig .. ég sjálf ber ábyrgð á andlegri og líkamlegri líðan.
Það er svo miklu léttara að borða sínar vigtuðu og mældu máltíðir og finna fyrir þessu frelsi og vellíðan innra með sér heldur en að svamla um í þokukenndri kolvetnamóðu með bólgna ökla og þrútinn ham með garnirnar allar í hnút... í dag vil ég ekki skipta yfir í brúna hlunkinn (þetta komandi dýra súkkulaði)...
Matseðill morgundagsins er ákveðinn og þarf ég ekki að hafa áhyggjur af honum fyrr en annaðkvöld... svo nú get ég farið og vermt sófann og gónt á TVíð í smátíma dreypandi á sprite zero..

sunnudagur, júlí 11, 2004

168-176 - fráhaldið hélst í sumarfríinu

Jæja elskurnar, þá er ég komin til baka eftir stórkostlegt frí á Norð-Austurlandi þar sem sólin skein upp á hvern dag og hitinn þetta frá 20-27 stigum... Oh my God, og ég þessi rauðka er bara orðin brún og freknótt.
Fráhaldið hélst eins og alla aðra daga, ég skrifaði hvern dag niður og tilkynnti til sponsors. Frábær stuðningur frá mínum elskulegu tengdaforeldrum og aldrei haldið að mér mat sem ég tel að sé ekki fyrir mig, plús það að engin kolvetnalöngun gerði vart við sig þrátt fyrir kökur og kræsingar sem hinir lögðu sér til munns.
Viðurkenni þó að marengsslysið sem ég bjó handa þeim (kókosbollur, marengs, rjómi og ávexir allt í bland) greip augun mín og smá vatn kom í munninn, en bara orð tengdamóður minnar um ásetinn bjúg sem settist á hana eftir át kom í veg fyrir að ég félli fyrir freistingu...
Ég keypti mér gallabuxur í no. 31 og útivistarbuxur í no. L á vsk lausum dögum og er ég himinlifandi, svo núna þegar ég kom heim þá losaði ég mig við öll föt sem ekki eru 40 í skápnum því þau hanga utan á mér eins og druslur - þetta ætla ég að fara með í Rauða Krossinn því ég ætla aldrei í þau aftur.
Ég er dálítið pirruð í dag afþví að ég er að byrja á túr en elsku líkaminn minn ákvað að fresta blæðingum um 9 daga meðan ég var í fríi og kom Rósa í heimsókn um leið og ég kom heim :-) stórkostlegt ekki satt.
Það er mjög freistandi að fara á vigtina en ég ætla að halda mig við það að fara bara einu sinni í mánuði og fer ég ekki fyrr en 18. júlí ...
Vinna á morgun :-( en ég bíst við að ég jafni mig á því innan 4ja tíma frá því ég stimpla mig inn.

föstudagur, júlí 02, 2004

166 - 167 - og enn heldur fráhaldið áfram

Skrifaði ekkert í gær enda á fullu að pakka niður fyrir 10 daga dvöl á Norðurlandi - pakkaði niður grænmeti, sósum og hveitikími fyrir heila viku og útbjó svo matinn minn fyrir daginn í dag sem ég tek með mér... ekkert á að koma á óvart sem gæti kippt mér úr fráhaldi.
Fór í tjékk hjá doksa í gær og viti menn, blóðþrýstingurinn er kominn úr 150/95 niður í 130/80 sem er hreint útsagt frábært og er ég núna að minnka lyfin niður um helming og allt stefnir í að ég hætti á þeim lyfjum með haustinu..
Samkvæmt hans kokkabókum varðandi kjörþyngd þá finnst honum að 68kg sé fínt og ekki niður fyrir 62kg þannig að þá eru annað hvort 8 eða 12 kg eftir - ekki amalegt eftir að hafa verið feit í 15 ár.
Það er engin nettenging fyrir norðan þannig að ég mun ekki blogga fyrr en 12. júlí næstkomandi.
Hafið þið allar það rosalega gott og haldið ykkur í fráhaldi.