léttfimmtug

föstudagur, desember 31, 2004

345-348 / árið á enda

Nú er árið næstum á enda. Hálfur dagur eftir og sjáið veðrið :-) hvítt yfir, rok og blautur snjór. Ég hlakka til að liggja í leti, skoða blöðin og fara yfir farin veg. Ég er ánægð þegar ég lít yfir liðið ár, ekki bara vegna þyngdartaps heldur vegna þess að mér líður svo miklu betur andlega og líkamlega heldur en til fjöldamargra ára.

Ég var í fráhaldi yfir jólin og ætla mér að vera í fráhaldi í dag og á morgun, svo er ætlun mín að skjóta upp flugelda þann 17. jan en þá er gamlárskvöld í mínu fráhaldi og hefst ár númer tvö þann 18. jan n.k.

Fram að þessu þá hef ég losnað við 24.7kg og er orðin ca. 64kg - það eru bara nokkur kíló í kjörþyngd skv. mínum skilningi, en læknisfræðilega er ég búin að ná kjörþyngdinni. Ég fer í tékk í Hjartavernd þann 6. jan, en fyrir ári síðan þá var ég komin með verulega kólestrólhækkun, mjög háan blóðþrýsting og hjartsláttartruflanir. Fyrir þessum einkennum hef ég nánast ekkert fundið fyrir síðan ég byrjaði mitt fráhald.

Í gær fór ég í fertugsæfmæli hjá vinkonu minni, þar hitt ég fyrir þó nokkuð marga kunningja sem ég hef ekki séð í þó nokkuð langan tíma. Andlitið datt af sumum því þeir hafa bara séð mig feita (159.5cm og 89.3kg er frekar feitt) - og var ég yfirheyrð stranglega :-).

Ég vil þakka ykkur öllum fyrir árið sem er að líða og vona að allar komi tvíelfdar til baka á nýju ári, fullar af krafti í fráhaldi.

mánudagur, desember 27, 2004

341-344 / ég hélt fráhaldið

Mér tókst að komast í gegnum jólin og vigta og mæla. Var auðveldara en ég átti von á. Í raun þá langaði mig ekkert sérstaklega í sósurnar, sykruðu kartöflurnar og eftirréttina, var bara mjög sátt við minn mat sem var mjög góður.

Ég var að skoða myndir af mér sem voru teknar í janúar sl. - þvílíkur munur á mér núna og fyrir 25kg síðan... ótrúlegt og mig langar ekki þangað aftur.

fimmtudagur, desember 23, 2004

336-340 / Gleðileg jól

Ég óska öllum átaksstelpum og fjölskyldum þeirra gleðilegra jóla.
Megi okkur öllum ganga vel í því að borða ekki á okkur of mörg kíló.

laugardagur, desember 18, 2004

334-335 / Vigtunardagur

Já, það fóru 900gr þennan mánuð og eru farin samtals 24.6kg síðan 18. janúar 04. Ekki slæmur árangur. Í dag er ég 64.7kg og fer óðum að styttast í kjörþyngd sem ég lækka alltaf. Stefni á 58-59kg skv. því sem einkaþjálfari segir. Geri ráð fyrir að þar sem ég er farin að æfa, með tilheyrandi harðsperrum og bólgum þessa stundina, að þyngdartapið verði í hægagangi - vöðvar þyngja mann víst þó svo að ummálið minnki.

Þetta er töluverð breyting að koma sér út úr húsi um kl. sjö á morgnana og fara beint í líkamlegt púl, hef verið þreytt og geyspandi allan daginn - ég bara vona að ég haldi þetta út og gefist ekki upp.

Óska ykkur öllum góðrar helgar.

miðvikudagur, desember 15, 2004

330-333 / hoppandi hamingja

Hipp hipp húrrah - ég náði öllum prófunum og meira segja með mjög góðum einkunum, og það allra besta ég náði sögunni sem ég hélt að ég myndi örugglega falla í - ohohohoho, og hvað haldið þið? Jú, einmitt, fyrsta hugsun var að verðlauna sig með súkkulaði. OK, skynsemin hafði betur og ég fékk mér Kristal í munn og góðan mat þegar ég kom heim.

Í morgun byrjaði ég í einkaþjálfun (réttara sagt 11 manns í hóp hjá tveimur þjálfurum)... úlllallla. En allavega, daman sem þjálfar mig er sex barna móðir, 38 ára gömul með rennisléttan maga og kúlurass. Hennar mat, jú, ég get náð flötum maga og stinnum rass þrátt fyrir aldurinn :-) YES...

Þetta er bara mjög gaman og hrópandi hamingja í neyslumesta mánuði ársins.

Ég er 24% fita og á skv. henni bara 4kg í kjörþyngd ... og fitan er orðin það laus að hún brotnar vel í burtu ??? hvað svo sem það þýðir.

laugardagur, desember 11, 2004

324-329 / prófin búin

Þá eru prófin búin - ég las heilar 200 blaðsíður kvöldið áður en ég fór í söguprófið og mér gekk sannarlega ekki vel í prófinu, býst frekar við að hafa ekki náð því. En verði það sem verða vill. Það er of mikið fyrir mig að vera fjögur kvöld í viku í skóla með fullri vinnu og í fráhaldi, sem krefst í raun mjög mikillar vinnu og skipulagningar.

Það var spennufall í gær og ég varð einhvernvegin mjög þreytt og döpur, hugurinn hvarflaði beint í mat og vildi ég kýla mig út á bara einhverju. Ég lét ekki verða af því.

Nú er bara að byrja á því að klára að kaupa síðustu jólagjöfina sem á að fara til útlanda. Halda áfram að þrífa en ég kláraði eitt herbergi í gær, versla inn jólakort og skrifa þau. Skoða hvort ég eigi að baka fyrir karlinn.

Svo þarf ég að búa til "slys" fyrir vinnuna, en ég á fimmtíuogeins árs afmæli á mánudag og þá er venjan að koma með kökur í vinnuna - mitt slys er marens í þeyttum rjóma og kókosbollum, með fullt af súkkulaðirúsínum og brytjuðum ávöxtum ofan á - ekki fyrir mig heldur vinnufélagana.

Síðan ætla ég að snökta smá af gleði yfir því að mega á nýbyrjuðum sextugsaldri hafa fundið heilbrigði og betri lífstíl - ég lít betur út í dag en ég gerði fertug.

sunnudagur, desember 05, 2004

321-323 - Jólahlaðborðin búin í bili

Þá er það yfirstaðið - blessuð jólahlaðborðin, drekkhlaðin mat og drykkjum. Þvílík náð að vera í fráhaldi, segi ég nú bara, þegar ég heyri fólk barma sér af magaverkjum og uppþembu. Ég sjálf er blessunarlega laus við of mikið álag á magann, en einhvernveginn hefur mér tekist að ná mér í góðan hausverk og stífar axlir. Mér dettur einna helst í hug að ég hafi stífnað þetta upp við að taka ekki þátt í gamninu eins og aðrir. Það viðurkennist hér með að það er auðvitað erfitt að vera sér á báti með sérþarfir, hummmm....

En ég fékk frábæran mat bæði á Hótel Loftleiðum á föstudaginn og svo í Skíðaskálanum í gærkveldi, kokkarnir þar eiga heiður skilið fyrir að vilja vigta og mæla matinn minn. Úrkoman úr þessu er að daman hefur ekki þyngst um gramm, frekar má telja kíló niður til viðbótar þeim sem farin eru.

Núna vonast ég bara eftir því að ég verði dugleg við lesturinn því næsta vika er prófvika og á ég eftir að lesa töluvert og ætla mér að redda því án þess að liggja í kolvetnum.

Mikið hlakka ég til þegar þessari önn er lokið og ég get tekið við að einbeita mér að jólahreingerningu og jólainnkaupum.

fimmtudagur, desember 02, 2004

317-320 / Ótrúlegt en satt

Já, ótrúlegt en satt. Jóla, jóla er ekki að stressa mig eða trufla. Ekki heldur prófstressið. Ég veit satt að segja ekki hvað hefur gerst með mig þetta árið varðandi mataráráttuna, það er eins og ég hafi hreinlega verið slegin heilögum anda, það er ekkert sem fær mig til að narta í sælgæti eða kökur. Segi ekki að hugsuninni slái ekki niður, en einhvernveginn þá er fráhaldið það mikilvægasta hjá mér.

Á morgun er ég að fara í jólahlaðborð, búin að panta sérmat fyrir mig. Sama á við laugardaginn, þá fer ég líka í jólahlaðborð, búin að senda tölvupóst á kokkinn varðandi hvernig minn matur á að vera. Þetta hljómar líkt og hjá brjálæðingi, en þá verður maður að hugsa til þess að maður er átvagl og að sumar matartegundir koma af stað hjá "mér" - tala alltaf bara um mig - fíkn í meira og meira. Þannig hefur mitt ferli verið frá 25 ára aldri, megrun, fitna, megrun, fitna meira, megrun, fitna enn meira... lélegt sjálfsmat, ennþá lægra sjálfsmat. Verri heilsa, andlega og líkamlega.

Það sem af er þessu ári eru farin, tæp 25kg farin, þunglyndið farið, kvíðinn farinn, vefjagigtin farin, hjartsláttarköstin farin. Það sem komið hefur í staðin, meiri glaðværð, rólegra skap, minni paranoia, vaxandi kynhvöt (úps, hjá fimmtugri konu), finnst ég vera skvísa og lífsgleði.

Alltaf þegar matarlöngun hellist yfir mig, þá hugsa ég, vil ég skipta aftur yfir í gamla farið!!!! Nei, nei, nei, ég kæri mig ekki um alla vanlíðanina í staðin fyrir súkkulaðimola eða annað..

Ég er samt alltaf að verða duglegri að búa mér til þannig mat sem gerir mig ánægða, hver máltíð er blessun og nærandi, og oftast stend ég upp frá borðum þakklát fyrir mitt daglega brauð.

Jólin hjá mér verða, 15-20 manns í mat á aðfangadag og verður að sjá fyrir þörfum allra, það verður hollt og gott á boðstólum ásamt gúmmulaði fyrir þá sem ekki þurfa að passa sig. Ég elda bæði gamalt og nýtt.