léttfimmtug

þriðjudagur, apríl 17, 2007

Ég er hér aftur ;-)

óó, Den Haag, fallega borg á bak við sandhólana gargar Andre Hazes á hollensku, sem ég skil og tala svo óskaplega vel. Ég dilla mér í stólnum á hjólunum en þarf að passa að rúlla ekki út úr herberginu. Trallatralla, nú kemur þýsk sveifla og hliðarspikið hreyfist með.
Ójá, ég er með óráð, vitráð og bitráð. Á morgun á að bora í mig títan skrúfur og ég er stútfull af sýklalyfjum og svo er ég byrjuð á járni því ég er víst járnlaus og með lélegan skjaldkirtil eins og heimilisdoktorinn tjáði mér í dag... skyldi það vera ástæðan fyrir ört vaxandi holdi???

OK, elskurnar ég er í fráhaldi, komin til baka með vigtóriu og mínar máltíðar vandlega planaðar. Aðeins öðruvísi fráhald en ég iðkaði áður og er ég búin að vera í einu stóru panik kasti yfir að það myndi ekki duga. Ég mixa saman reynslu síðastliðinna ára og nota blandað matarplan. Enginn sykur, ekkert hvítt hveiti, engin einföld kolvetni. Vigta máltíðirnar mínar og tilkynni til hjúkrunarfræðings á heilsustöðinni minni. Tók þá ákvörðun með tilliti til búlemíunnar sem hrjáir mig að betra væri að ég væri undir eftirliti heilbrigðisfólks og með matarfráhald sem ég hef iðkað en stílfært svolítið.

Ég fæ þessa aðstoð 2x í mánuði ókeypis klukkutíma hjal við óskaplega vel gefna, fallegan hjúkrunarfræðing (má víst ekki segja hjúkkukona lengur) - nú er smá spönsk sveifla og mín bara komin í ástarfílinginn - sorry, fór aðeins útaf línunni. Mér finnst gott að hafa þennan ramma, að vita hvað ég ætla að borða næsta dag.

Sko, ég er ekki í megrun, aldrei aftur í megrun. Ég fer ekki á vigtina því ég vil ekki að hún stjórni lífi mínu en ég get sagt ykkur að ég hef farið upp um 1.5 númer í fatastærð. Ég á engin gömul föt þannig að ég þurfti að kaupa mér eitt stykki buxur, blússu og skokk til að komast i fermingarveislur. Mín er aftur komin í 42+ ....

Mér líður vel þrátt fyrir járnskort, hægan skjaldkirtil, títaninnplant á morgun, stóra sæta frábæra bumbu, æðislega flott brjóst og brasílískan rass sem er fylgifiskur ofáts míns. Ég á eftir að sakna hans því ég vildi gjarnan hafa útstæðan rass þegar ég er aftur orðin mjó í staðin fyrir rúllugardínuna sem muna prýða afturhliðina á mér.

Bið að heilsa að sinni