léttfimmtug

laugardagur, júlí 08, 2006

Ég er enn á lífi

Og ekkert farið. Þurfti bara minn smátíma til að átta mig á hvar ég væri stödd, hvert ég vildi fara og hvernig!!!

Náði mínum botni og tók þá ákvörðun að fara aftur í gamla farið sem ég og gerði þ. 7. júní s.l. Þorði á vigtina og viti menn 20kg hafa bæst á skrokkinn á einu ári og mældist sú gamla 81.3 kg - svona er nú það. Megrunarkúrar virka ekki nema í smátíma, ef maður gleymir sér eitt augnablik þá er allt komið til baka.

Breyttur lífstíll er víst það eina sem dugar, ekki bara einn dag heldur flesta daga þar til ég yfirgef þetta jarðlíf, það er að segja ef ég nenni því. Í dag er ég að nenna því og hef gert sl. 32 daga og svo gleymi ég mér bara á milli máltíða og leyfi líkamanum að komast í eðlilega þyngd fyrir mína hæð og minn aldur.

Ég dvel nú fyrir norðan í dásamlegri náttúru og klæði mig í lopasokka og flíspeysu, horfi út um gluggan á úfinn Skjálfandann og sé Grímsey tóra þarna í fjarska á 66° N -ég er bara hluti af eilífðinni, þessari hægfara breytingu sem á sér stað í þróun jarðarinnar og mannskepnunnar líka.. ég ætla að nota mér smáskrefin til að komast þangað þar sem ég er ánægðust og kúra þar svo lengi lengi.

Ég er sæt, það fer ekki á milli mála. Ég er lágvaxin, það dylst engum. Ég er bolla, það er víst!! Ég er þessi dásamlega sköpun og mér er ætlað og gefið að vera heil í langan tíma án áráttu- og öfgahegðunar.