léttfimmtug

laugardagur, júní 18, 2005

504-517 / Vigtunardagur

1.4kg upp eftir að vera komin í kjörþyng. 61.8kg segir vigtin. Gamla brýnið er á blæðingum og það kannski skýrir ástæðuna því ég hef vigtað og mælt skv. mínu plani en verið frjálsleg með fituna sem ég steiki upp úr bæði ávextina mína, grænmeti og kjöt. Held ekki að þessi aukaávöxtur sem ég bætti á mig skýri þyngdaraukninguna.

Ég er ekki í þráhyggju yfir þessu 1.4kg þar sem ég lít mjög vel út, er sátt og líður vel með það sem ég borða - svo held ég að það sé alveg eðlilegt að rokka svona á milli talna. Þar sem sveiflan er innan kúrfunnar minnar þá bara slæ ég á lærið og þakka mínum sæla fyrir að vera ekki í ofáti.

Veðrið þessa dagana er yndislegt og ég er flott og fín kona í góðri sjálfsvinnu, sem er að vísu smá sárt þegar maður er að vaxa að þroska og viti - sárt stundum að kíkja inn í sjálfan sig og finna sig vanmáttugan en jafnframt líka sterkan.

Hér áður fyrr hefði ég étið mig í gegnum þetta ferli en það myndi ekki laga neitt. Var næstum fallin um síðustu helgi og var ákveðin að fara og kaupa mér þrjú súkkulaðistykki en komst framhjá sjoppunum og heim - NOTABENE - ég var að hugsa um að fela átið fyrir öllum, ég var komin í lygina aftur og blekkinguna og þar liggur mín átsýki : Blekkingin.

laugardagur, júní 04, 2005

487-503 / Enn á lífi og í fráhaldi

Ég er í viðhaldi þ.e. búin að bæta á mig ávexti á kvöldin og var bara æði södd lengi frameftir.

Búið að vera þó nokkuð erfitt hjá mér heilsufarslega en það hefur ekki haft áhrif á að ég haldi mínu striki varðandi nýjan og breyttan lífsstíl í mataræði. Borða ekkert á milli mála og bara þann mat sem ég hef ákveðið deginum áður að borða.

Einn í vinnunni sagði fyrir stuttu síðan í grillpartýi hjá okkur að ég væri "geðveik" að vera að draga upp vigtina og mæla matinn minn - hann meinti þetta fallega því ég held að fólk beri dálitla virðingu fyrir því hvað ég er í raun staðföst að fara ekki út af þeirri braut sem ég lenti á fyrir tæpu einu og hálfu ári síðan.

Nú er ég búin að komast að því að erfiðleikar fella mig ekki og nú þarf ég bara að vera vel á varðbergi þegar mér líður vel og allt í rosa góðu standi, þá er kannski auðvelt að næla sér í fyrsta hömlulausa bitann.