léttfimmtug

sunnudagur, mars 27, 2005

428-434 / Fyrsta hreyfingin í langan tíma

Lífið er svo dásamlegt. Fyrr í dag fór ég í mína fyrstu gönguferð síðan ég kom heim frá London í enduðum febrúarmánuði, til að vera nákvæm í dag akkúrat einn mánuður!!! Ég datt út úr því að fara í líkamsræktina og allri hreyfingu nema þeirri sem er þetta daglega eins og þið sjálfar vitið.

Fór í Heiðmörkina og ætlaði bara að tipla á jafnsléttu, vön því síðustu tvo áratugina að vera móð við að reyna að fara uppí móti - viti menn, ég nánast hleyp eins og hind og ekkert er mér ofviða. Lundin er létt og líkaminn léttari. Hjartað fær að pumpa eðlilega og fer ekki á suðupunkt eins og þegar ég var föst í kolvetniseitruðum líkama með ofursnúningi á hjartað sem endaði í stóru felmsturskasti.

Ég fer enn eftir mínu plani og er komin á fimmtánda mánuð, ég borða bara mínar þrjár máltíðir og ekkert þar á milli og ég líð ekki skort. Mér finnst yndislegt að geta farið í gegnum hátíðina án þess að þurfa páskaegg eða annan kolvetnisríkan mat. Ég býð mínum nánustu upp á þann mat sem ég borða en að sjálfsögðu bæti ég við einhverju gúmmulaði handa þeim sem vilja - ég er bara í fráhaldi fyrir mig og þarf ekki að troða mínu upp á aðra. Að sjálfsögðu vonast ég til að mín bætta heilsa og útlit virki aðlaðandi fyrir þá sem eiga við offitu vandamál að stríða og eru komin í yfirþyngdarflokkinn þ.e. obese - ég var obese og átti stutt í "morbid obesity" -

Mér var gefið gullið tækifæri fyrir tæpum fimmtán mánuðum síðan og ég hef ekki sleppt hendinni af þeirri líflínu síðan og ég ætla mér að hanga á henni einn dag í einu það sem eftir er að lífið mínu þrátt fyrir allt.

Fór í Kringluna í gær og fékk heim föt til að máta, gallapils no. 10 - takið eftir no. 10 og æðisleg buxnadragt í litlu númeri no 40. Þetta er líka í fyrsta skipti í tvo áratugi sem ég er ánægð með mig í pilsi.

Svo, okei, ég segi það bara - en ég upplifi mig sexý - já, maður getur alveg verið sexý á sextugsaldri.

sunnudagur, mars 20, 2005

426-427 / Ætla að reyna að setja inn mynd

Ég lýsi mig sigraða. Hef ekki hugmyndi hvernig ég á að edita mynd inná þessa bloggsíðu. Svo ég verð víst anonymous eitthvað lengur.

Sendi myndina á SúperS og Lilju og þær geta staðfest að ég er svaka pæja komin í kjörþyngd þannig séð.

Kannski sigra ég tölvuskrímslið og næ tækninni við að setja inn mynd.

föstudagur, mars 18, 2005

417-425 / Vigtunardagur

Það fóru 2.3kg þennan mánuð og ég sem bætti á mig bæði próteini og grænmeti, sem um munar. Alls eru farin síðan 18.1.2004 28.2kg og er ég orðin 61.1kg.

Nú þarf ég að fara að hugsa alvarlega um hvar ég ætla að setja kjörþyngdina mína, fyrst var ég að hugsa um 65kg, svo 62kg, núna 60kg og svo veit maður ekki.

Hvað á 51 árs 159cm kona að vera þung? Ekki getur maður verið á sama þyngdarróli og þegar maður var tvítugur!!! Gengur ekki upp afþví húðin teygist og maður verður og teygður og hrukkóttur. Líkamshúðin er líka lausari, en samt er ég þokkalega ánægð með ástandið.

Mér finnst gott að vera búin að bæta á mig mat, og ætli ég hafi þetta ekki bara þannig að ég taki ákvörðun 18. apríl um hvort ég stoppi þá í léttun og fari í viðhaldsprógramm.

Kemur í ljós.

föstudagur, mars 11, 2005

414-416 / frábær dagur

Þegar sólin skín þá er yndislegt að vera til :-) - en það er satt, það er mjög gott að vera til og vera komin nánast í kjörþyngd. Sumarið framundan og maður getur skartað sjálfum sér léttklæddum heima og að heiman.
Ég er svosem ekki í megrun, ég hef breytt um lífstíl og held áfram því sem ég er að gera.
Byrjaði að bæta á mig mat, 20gr af kjöti eða fisk í hádeginu og á kvöldin og heilum 80gr af mjólkurvörum á morgnana. 80 gr af grænmeti í hádeginu og 100gr á kvöldin. 40 gr viðbót af ávöxtum á morgnana. Ég varð dálítið hrædd í byrjun að bæta við mig því óttinn um að þyngjast er svo rótgróinn í mér, en ég ákvað að treysta og ég get þá alltaf dregið í land ef ég þyngist - kemur í ljós - ég er enn á grenningarstigi, en þessar breytingar eru gerðar afþví að við reiknuðum únsu fjöldann ekki réttann á móti grömmunum.
Ég hlakka til komandi helgar, að þrífa íbúðina mína og bregða síðan á leik með barnabarninu mínu, sem er statt á landinu - skottast svona smá í Smárann og í bíó.
Hafið það sem best um helgina.

sunnudagur, mars 06, 2005

412-413 / Komin heim

Eins og planað var gekk allt vel hjá mér. Kom á Örkina rétt fyrir tvö og skellti mér í heilnudd og náði að slaka mér niður í góðan gír. Fór síðan upp á hótel og lét renna í heitt bað og nostraði við sjálfa mig í heitu baðinu. Yndislegt að geta legið í baði án þess að það þrengi að manni. Nuddaði skrokkinn upp úr body lotion frá Body Shop, Passion Fruit, og lagaði til hárið en mér til mikillar furðu er krullurnar komnar aftur á minn koll. Mér líst þannig á að ég sé aftur orðin barn og að ég hafi fundið mig til baka og því séu krullurnar aftur komnar, verst að kastaníu rauði hárliturinn lætur ekki á sér kræla en þeim hvíta fjölgar. Ég lita bara krullurnar og segi mér að maður sé eins gamall og maður hugsar. Þannig að ég hugsa mig heilbrigða af líkama og sál, laus undan eilífum ásóknum ofáts púkans - í dag á ég líf á milli máltíða, sem er æðislegt.

Maturinn var OK en ekkert sérstakur, ég tek samt ofan hattinn fyrir þeim því þeir vigtuðu og mældu eins og ég hafði beðið um og salatdressingin var mjög góð. Í morgun tók ég með mér vigtina, anans í eigin safa og dósaupptakara. Alltaf að vera með í bakhöndinni ef eitthvað skyldi vanta, og já, þarna voru ekki ávextir svo ég var í góðum málum. Að sjálfsögðu er alltaf eitthvað um að fólk horfi þegar ég vigta en ég kippi mér ekki upp við það.

Útlitsþráhyggjan kom upp í mér og ég fann hitt og þetta athugavert við það hvernig ég leit út.. húðin var slitin og sigin, enginn rass og ég leit út eins og rúllupylsa, ég er gömul og grá... osfr... maður getur grennst um tugi kíló en samt liðið illa og fundið þennan tómleika og verður maður þá að leita aðeins dýpra innra með sér afhverju þetta lélega sjálfsmat er. Datt líka í hug þar sem ég horfði á Skjá Einn, en þar var verið að sýna nokkurs konar Extreme Makeover - konur eru farnar að keppa í því eins og í Survivor hver getur látið fitla mest við sig... eldingu laust niður í hausinn á mér hvað við "konur" erum farnar að láta stjórnast mikið afþví að okkur geti aðeins liðið vel ef við lítum út eins og "Barbí" - við látum lyfta brjóstum, skera í burtu umframhúð, lyfta rassi, fylla sig af sílikoni og halda að þannig nái maður hamingju!!!! Sjálf er ég líka í þessum pakka að halda að ef ég læt afmá slitið á maganum og lyfta brjóstunum og taka augnpokana og strekkja á undirhökunni að þá hljóti ég að verða að eilífu hamingjusöm.. jamm - en það er ekki bara svo - ég var búin að hlakka til í heila viku að skella mér í Karin Miller dragt og stígvél og var svo viss um að þegar ég væri uppáklædd og greidd að þá væri allt frábært, það sem gerðist var að útlitsfíknin mín sagði mér að ég væri ómöguleg og að þetta og hitt væri í ólagi. Karen Miller virkar því ekki ef hausinn á mér er ekki í lagi...

Ég er samt mjög ánægð með að vera í fráhaldi og að ég þurfi ekki að borða yfir allar þessar tilfinningar sem þeytast fram og til baka eins og skopparakringla í hausnum á mér - Mér líður mun betur líka grannri heilsufarslega, já og líka tilfinningalega - en ég verð að vinna í því að viðhalda þessari líðan.

föstudagur, mars 04, 2005

408-411 / enn ein sukkhelgin

Jæja, ég bara hreinlega hef ekki tíma til að pósta mikið hérna. Lífsorkan er að ganga af mér dauðri, ekki í beinni merkingu, en ég bara er að drukkna. Vinna, skóli, ritgerðir og próf dynja á mér.

Það kemur mér alltaf á óvart hvað ég er að komast í gegnum daginn án þess að detta í kolvetni og þá sérstaklega þegar svona mæðir á mér - og NB, ég er ekki með fullt hús af börnum, eins og ein sem er með mér í skólanum - 2 börn, full vinna og 16 einingar á önn - ég væri á kafi í sukkinu ef ég væri í hennar skóm.

Fór á Heitt og Kalt í hádeginu og vigtaði og mældi daman fyrir mig - það var alveg ágætis matur þar, en samt kýs ég það sem ég elda sjálf - og sérstaklega auralega séð hihihi - það er svo undarlegt hvað þetta er auðvelt að gera sína hluti og láta umhverfið ekki trufla sig.

Er á leiðinni á Hótel Örk á morgun á árshátíð og kem ég heim á sunnudag - er búin að senda matseðilinn minn þangað og á ekki von á öðru en góðu. Maðurinn minn býður mér upp á nudd þar í bæ þannig að ég næ að slappa af smá - verð samt að lesa á brjálað bæði laugardag og sunnudag svo námið fari ekki í hundana. Verst hvað ég er mikill frestunarsinni :-)

Ég hlakka til að spóka mig í flottum fötum og finna muninn á mér núna og í fyrra þegar ég var nýbyrjuð í mínu fráhaldi 27kg þyngri en ég er í dag.

Óska ykkur öllum góðrar helgar.