léttfimmtug

mánudagur, janúar 23, 2006

Dagur 28

Allt gott að frétta af mér. Er í góðu fráhaldi og sátt við menn og FellaMýs. Hef þurft að aðlaga mig að sveigjanlegu mataræði þar sem eldhúsið hjá mér er á haus (verið að flísaleggja) og ég get ekki athafnað mig eins og ég vil.

Ég er ekki að fara á vigtina og hef ekki hugmynd um hvað ég er þung, finn bara að ég er á góðu róli og hægt og rólega stækka fötin og öll einkenni ofáts og þeirra skemmda sem því tilheyra eru á undanhaldi.

Ég fer alltaf bloggrúnt nánanst á hverjum degi og gleðst með sigrum ykkar allra.

sunnudagur, janúar 15, 2006

Dagur 20

Mér er að ganga mjög vel og er ákaflega sátt við hvernig mitt "matarlíf" er þessa dagana. Skrokkurinn er eitthvað að léttast og ég er aftur komin í buxur sem voru orðnar alltof þröngar.

Mér líður vel andlega, en er þó pirruð að smiðurinn sem á að vera setja upp nýja eldhúsið hjá mér svíkur mig hvað eftir annað, en það gefur mér ekki afsökun að borða yfir pirring og reiði. Ég reyni bara að skilja að eitthvað liggi að baki hjá smiðnum að hann komi ekki og skrökvi að mér - skrítið hvað fullorðið fólk getur skrökvað, komið sér undan og kennt öðrum um! Skyldi ég falla inn í þann hóp? Já! á stundum held ég. Stundum er ég með StrútsHeilkennið, stinga höfðinu í sandinn og vilja ekkert sjá og halda að aðrir sjái mig ekki afþví hausinn er fastur í sandinum.

Ég býst fastlega við að þurfa að vera á verði gagnvart mér og minni matarþráhyggju þar sem eftir er af mínu jarðneska lífi, en það er líka allt í lagi. Ég kippi mér ekki upp við að þurfa að taka blóðþrýstinglyf og lyf við vefjagigt það sem eftir er. Það góða við að vera á heilbrigðu fæði, er að vafalaust mun ég losna við stóran hluta af lyfjunum ef og þegar ég kemst í kjörþyng með réttu mataræði og eðlilegri hreyfinu.

þriðjudagur, janúar 10, 2006

Dagur 15

Þriðja vika byrjuð og allt lofar góðu. Hugarfarið á réttum stað og vilji um heilbrigði er settur í forgang. Einn dag í einu tifa ég þetta áfram minnug þess að megrun, átak eða skyndilausnir hafa aldrei haldið mér grannri.

Breyttur lífsstíll, breytt hugarfar er það sem skiptir máli hjá mér. Tímabundið þá hef ég sett til hliðar hvað ég er þung, hversu mikið ég þarf að losna við og hversu fljótt. Ég er líka ekki það ofurþung núna að þurfi að hafa áhyggjur, ég náði að stoppa áður en ég var búin að bæta á mig öllum þeim 29 kílóum sem voru horfin.

Þetta gengur semsagt vel og ég er á þessu líka fína skýi sem ber mig áfram.

föstudagur, janúar 06, 2006

Dagur 11

Nú er vel liðið á aðra viku og ég er hér enn í fráhaldi. Það er eitt sem mér finnst svo gott, ég er ekki svöng sífellt þ.e. líkaminn. Vaninn, fíknin, púkinn situr samt þarna á öxlinni og hvíslar létt öðru hvoru... common, bara eitt stk, ein brauðsneið með miklu smjöri og osti, ein hnetusamloka, hvað er það á milli vina!? Þú getur alltaf byrjað aftur á morgun. Þessar hugsanir herja helst á mig á kvöldin og það er freistandi að láta eftir og segja sjálfum að fyrst enginn sé vakandi, bara ég og sjónvarpið eða ég og lýsing af götuljósunum þá sé allt í lagi að stöffa sig smá... svona er púkinn minn, sífellt að reyna að fá mig í darraðadans við sig.

Eitthvað eru fötin farin að sitja betur og buxnastrengurinn sker ekki alveg svona mikið inn í holdið og það segir að einhver smá grenning á sér stað. Ég las einhversstaðar að teygja væri besti vinur matarpúkans, því buxur með teygju sem gefa eftir hindra að viðkomandi "átfíkill" geri sér grein fyrir þyngdaraukningunni. Það var víst gerð vísindarannsókn á hóp fólks - þeir sem voru í fatnaði með teygjanlegu efni fitnuðu frekar en þeir sem voru í óteygjanlegum fatnaði!!! - ??? - ég held ég taki undir þetta. Þar sem ég neita mér um teygjanleg föt núna þá finn ég strax hvort fitan sé farin að angra mig og ég stoppaði í no. 42 en ekki í 46 eins og ég var í fyrir tveimur árum síðan.

Einn dagur í einu í gallabuxum og stífri skyrtu.

miðvikudagur, janúar 04, 2006

Dagur 9

Ég hef ekki yfir neinu að kvarta. Ekki hungri, ekki löngun og fjarveru fíknar. Ég er líka tímabundið í fríi frá vigtinni, hef engan áhuga á því að vita hvað ég er þung, hvað ég hef þyngst mikið og hvað mikið ég þarf að losna við. Það dugar mér í dag að vera í fráhaldi og líða vel skrokk- og andlega.

Þegar ég er ekki með hausinn á fullu í sykri, hveiti og öðrum einföldum kolvetnum sem fylla mig fíkn, þreytu og aukaholdi þá er ég sátt við lífið og tilveruna. Ég fæ að njóta dagsins og samskipta við annað fólk. Ég er ekki heltekin af því hvar, hvenær og hvernig ég geti nælt mér í næsta bita, ég er heldur ekki upptekin af því hvenær ég verð "flottust" í laginu, hvenær ég geti farið að versla mér minni föt (þau eru núna í skápnum) - heldur er ég upptekin afþví hvað mér er að líða vel þessa dagana.

Það er að vísu dimmt skammdegi úti, allt svart á morgnana afþví það vantar snjóinn til að lýsa upp daginn og mér þætti gott ef ég mætti kúra undir léttri dúnsæng fram til klukkan tíu, drattast síðan á fætur fá mér hollt að borða og lesa síðan þau dagblöð sem koma inn um lúguna hjá mér og "chilla" framundir hádegi. Síðan að vinna fulla vinnu frá 12-17 og fara síðan aftur að "chilla" þar til kvöldmatur er tilbúinn..

Ég elska að fá að leika mér eins og barn. Elska að þurfa ekki að hugsa eins og fulloðin kona rétt skriðin á sextugs aldur. Ég er svo ung undir öllum þessum aukakílóum, hrukkum og gránandi hári. Maður er jú víst eins ungur og maður hugsar.

Þessa stundina keyri ég um á dálítið ryðguðum bíl (líkama mínum) - það þarf aðeins að taka hann í gegn og leyfa honum að jafna sig á óveðrinu (ofátinu) sem er búið að geysast um í lífi mínu undanfarna mánuði. Bjúgurinn þarf að laga sig, liðir að mýkast upp aftur og æðakerfið þarf að fara í hvíld eftir sukkið að undanförnu. Svo þegar fram líða stundir þá held ég að ég sé orðin þrítug aftur og hleyp um grænar grundir eins og kýr á vordegi.

þriðjudagur, janúar 03, 2006

Dagur 8

Þá er ein vika liðin og ég er enn í fínu fráhaldi. Það hentar mér vel að vera ekki á of kolvetnaríku fæði þ.e. einföldum kolvetnum. Ég borða reiðarinnar ósköp af grænmeti, einn ávöxt og svo gott prótein 3x á dag - sátt þar sem ég er ekki lengur sísvöng.

Ég verð að taka deginum rólega, reyna ekki að fara fram úr mér og vilja fá sjáanlegan árangur strax - maður vill gleyma þessum leynda árangri sem felst í því að vera komin úr hömluleysinu og í góð mál þegar maður er ekki í hömluleysi. Svo þegar líkaminn er tilbúinn til að losa sig við aukakílóin þá er það eitthvað sem gerist á hægu nótunum og er ekki að sjást á milli daga, heldur kannski frekar á milli vikna.

Ég veit að vika 2 verður jafngóð og vika 1.

sunnudagur, janúar 01, 2006

Gleðilegt ár - Dagur 6

Vil óska öllum átaksbloggurum gleðilegs nýs árs og með þökk fyrir þau samskipti sem við höfum átt hér saman á netheimum... megi árið 2006 verða ykkur farsælt í því fráhaldi sem hver og einn kýs sér.

Ég hef haldið þessi áramót í fráhaldi og er sátt við það. Ég fer inní morgundaginn glöð yfir því að hafa fengið að lifa enn ein áramót og bæta nýju ári við líf mitt. Ég ætla að leggja drög að heilbrigðu lífi í heilbrigðum líkama í heilbrigðri þyngd. Ætlunin er líka að reyna að temja apann á bakinu á mér þannig að ég sé ekki í endalausri þráhyggju.