léttfimmtug

sunnudagur, nóvember 26, 2006

Dagur 173 - Hlaðborð að baki

Jæja, þá eru hlaðborðin að baki. Allt gekk stórslysalaust fyrir sig og ég naut mín í félagskap vinnufélaga minna á föstudag og míns ektamaka í gær. Við erum furðuskepnur mannfólkið, öll sú orka sem við setjum í að borða margar og skrautlegar matartegundir, sem svo að lokum smakkast kannski ekkert voða vel.

Þegar ég horfði á föstudag yfir föngulegan hóp fólks sem var að kýla sig út af réttum sem voru sóttir mörgum sinnum á mismundandi stórum diskum, og sá vínið sem streymdi rautt, rósrautt, hvítt, gullið og svo sem sykursæt leðja sem brenndi sig niður hálsinn niður í maga í þeim tilgangi að róa meltinguna og hraða henni smá, þá hugsaði ég með mér! Hvernig skyldi mér líða eftir mitt rosa salat, lambalundina og steikta grænmetið mitt á morgun? Skyldi ég vera með uppbelgdan búk og innantökur? Óánægð með að hafa hlaðið á mig einu kílói eða kannski betur? Þetta er eiginlega spurning sem ég get ekki svarað nema fyrir mig. Mér leið betur með að borða ekki yfir mig, en aðrir hafa vafalaust notið þess í botn að borða hressilega svona einu sinni rétt fyrir jól og svo ekki söguna meir. Aðrir sem rétt nörtuðu í réttina af því bragðið var það eina sem skipti máli en ekki það að kýla vömbina fulla, vöknuðu hressir að morgni næsta dags.

Það er gaman að hitta gamlar kunningjakonur sem hafa ekki séð mig í nokkur ár, heyra þær hrópa upp yfir sig að ég líti út fyrir að vera tuttugum árum yngri! Leit ég þá út fyrir að vera sjötug?!! Eða lít ég í dag út fyrir að vera þrjátíuogþriggja ára af því ég er að verða fimmtíuogþriggja ára? Skiptir ekki máli, mér líður vel innra með mér og hið ytra líka.

En það er skammt öfganna á milli og ég sem matarfíkill verð að passa mig að verða ekki og örugg með að mér sé batnað.

fimmtudagur, nóvember 23, 2006

Dagur 170 - fúllynd

Mikið óskaplega er ég búin að vera fúllynd síðustu daga!! Og á hverju bitnar það, á fráhaldinu því ég hreinlega nenni ekki að standa í þessu vigta og mæla dóti, grrr. En þar sem ég er minnug liðinna ára þá stóðst ég freistinguna um að fara út fyrir minn ramma, hélt mér á mottunni og hallaði mér að Vigtoriu grenjandi og í mikilli sjálfsvorkun.

Heimsótti "heimilisdoktorinn" í morgun og honum leist mjög vel á mig. Var tekin af blóðþrýstingslyfjunum Yippíe!!!! og honum fannst ég bara sæt með mín litlu brjóst. Setti það í hans hendur að ákveða kjörþyngdina hjá mér miðað við aldur og hæð. 65kg er fínt, en hann mælti með hreyfingu og líkamsrækt til að stinna líkamann aðeins.

Annars var hann ekki hrifinn að jójó áhrifum þyngdataps og aukningar. Sagði að það væri þó betra að vera aðeins í þyngra lagi heldur en að vera eins og harmonikka, 30 kg niður, 20 kg upp aftur 20 kg niður og aftur upp ef maður passar sig ekki... ekki par heilbrigt það ferli.

Nú eru ekki nema 4kg í kjörþyngdina hjá mér og verð ég nú að fara passa mig verulega með því að verða ekki of örugg með að ég geti leyft mér allan andskotann í matarmálunum. Ég stefni á að vigta og mæla einn dag í einu það sem eftir er af mínu jarðneska lífi.

Ég held svei mér þá að skapofsinn í mér sé að lægja, sérstaklega eftir að hafa í morgun verðlaunað mig með sojapönnuköku m. steiktum ananas og cafe latte.

laugardagur, nóvember 18, 2006

Dagur 165 - öll að hressast

Hef svo sem ekkert merkilegt að segja frá. Ég er öll að jafna mig eftir brjóstaminnkunina og er farin að vinna ca. 6 klukkutíma á dag. Er orðin sátt við útlitið á brjóstunum þar sem þau eru ekki eins þrútin og bólgin lengur. Ég er öll í meira samræmi en áður, því þó svo að ég hafi grennst heil ósköp þá minnkuðu brjóstin ekkert og ég í yfirstærð barmlega séð.

Fór seint á fætur í morgun og byrjaði strax á því að fara í þykka ullarsokka og flíspeysu yfir náttfötin. Útbjó mér hefðbundin helgarmorgunverð og sötra núna Caffe Lattið mitt.

Fráhaldið gengur vel og ég er ekkert á þeim nótum að hætta. Held mig enn við sama heygarðshornið að reyna að búa til góðan mat á hverjum degi.

Nú eru 3 jólahlaðborð framundan en ég er búin að gera ráðstafanir á bæði Hótel Loftleiðum og Grand Hótel varðandi matinn minn. Á bara eftir að hafa samband við Lækjarbrekku og panta sér handa mér.

Ég kemst í kjólinn fyrir jólin, það er víst ;-)

mánudagur, nóvember 13, 2006

Dagur 160 - farin að vinna smá

Mikið óskaplega er gott að fá sér stóran bolla af Cafe Latte, dásamlegt á svona köldum vetrardegi.

Eins og þið lásuð hér að ofan þá er ég farin að vinna smávegis, nota amerísku hefðina á mig! Ekki of lengi heima því þá verður maður latur.

Datt niður á stórkostlega aðferð við að gera morgunmatinn minn að algeru lostæti.
240 gr jarðaber og bláber, smá klípa af smjörva og 1 msk xylitol. Bræða smjörva og xylitol saman svo það verði smá ljós karamella, skella síðan bláberjum og skornum jarðaberjum saman við og láta malla smá. Setja síðan heitt út í 480 gr af AB og nammi namm - braðgott og litríkt.

Ég er ekki alveg komin með fullan kraft og mig vantar svona þess andlegu skerpu sem ég hef að öllu jöfnu. Hakka þetta svona áfram eins og hæggeng skjaldbaka! Eða, kannski geri ég of stórar kröfur til sjálfrar mín.

laugardagur, nóvember 11, 2006

Dagur 158 - brrrr, kalt úti

Hver vill ekki drekka heitt kakó og fá sér piparkökur undir heitri dúnsæng á svona kuldadegi - og horfa á rómó mynd með sinn elskulega sem mjúkan kodda undir hnakkagróf? Ég? - kannski, en helst ekki. Rómó mynd með mínum elskulega hrjótandi við hlið mér væri ágætt það er að segja ef hann þolir japlið í Extra tyggjóinu og Coke light sötrið í mér.

Draumar piparköku og heitra sykraðra drykkja (Dagar víns og rósa) tilheyra fortíðinni, eða svo tel ég mér trú að sinni. Mér líður svo ótrúlega vel í dag þrátt fyrir þennan kulda sem umbreytir vöngum mínum í rauð epli. Ég er svo asskoti ung og létt á mér.

Það er allt svo hljótt úti núna þegar vetur er að skella á, það halda allir niðri í sér andanum og vona að brátt hlýni aftur í veðri.

Ég ætla að njóta þess að vera inni og matreiða soðkjöt "suddervlees" eins og hollendingar gera - sjóða kjötið í þrjá tíma þar til það bráðnar í mínum munni, namm 120 gr af slíku takk fyrir. Fæ mér líka heil 600 gr af grænmeti með, bæði hráu og soðnu...

Þrátt fyrir allt

þriðjudagur, nóvember 07, 2006

Dagur 154 -Léttingur

Það fóru frá síðustu vigtun 3.7kg (fékk ókeypis 824gr af brjóstaminnkun). Nú er að ákveða sig hvort 5 eða 7 kg séu í kjörþyngd. Hvort fer mér betur 65kg eða 63kg? Ég veit bara að þegar ég var í júní 2005 61kg þá var ég aðeins og teygð of toguð í andliti og á rasskinnum... held ég setji mér það mark að leyfa 65kg að vera mitt næsta áætlunarstopp.

Skellti mér inn á spítala aftur á laugardag með hitaskot, það er ekki gott að fá hita þegar maður er búin að láta skera svona mikið í sig, svo mér voru gefin sterk sýklayf í æð og haldið inni í tvo sólarhringa.

Ég er að reyna að vera góður sjúklingur heima en það er ekki auðvelt. Hausinn á mér er alveg viss um að ég sé gróin meina minna og geti allt. Axlirnar reyna að vernda sár brjóstin með því að beygja sig yfir þau með tilheyrandi bakverkjum og ellikellinga útliti. Ég hló mikið í dag þegar ég reyndi að komast upp í upphækkaðan jeppa bróður míns. Ekki gat ég lyft höndum og híft mig upp því þá myndi rífa í saumana, bróðir minn gat ekki togað mig upp því þá myndi líka rífa í saumana. Þegar hér var komið sögu þá var ég orðin svo máttlaus af hlátri (vorum stödd á miðju bílaplani að skoða bíla) að ég var orðin knéfelld og nánast lá á bæn við bílhurðina. Mér tókst að lokum að lyfta einu hnéi upp á bílstigið, svo fór hitt sömu leið, svo kom ég hnénu inn á gólf og lá hálf í sætinu (enn hlægjandi) með rassinn út í kalt loftið, og svei mér þá ef rekaviðstrókurinn (hláturstrokur) sveif ekki út fyrir vit hinna bílaskoðendanna. Að lokum komst ég þó í sætið, dæsti og sagði : Nú veit ég hvað það er að verða gamall og geta ekki.

Djésskotans vitleysa er þetta að vera að flá svona af sér brjóstin - nú er ég bara sæt bumbulína með stærri maga en brjóst! Skyldi ég láta flá magann af mér næst??? Svona til upplýsinga þá hef ég ákveðið að halda enn lengra í þessari útlitsbreytingu og halda á vit hárskera á morgun og skera hár mitt og lita. Síðan mun ég láta nostra við augnabrýr (brúnir) og hár og lita þau líka. Ég ætla að verða rauðhærð á morgun (var það við fæðingu, en er farin að grána).

Það er ekki amarlegt að vera nú með meyjarbrjóst en fyrir ofan og neðan með rúmlega fimmtugan skrokk... eldri hlutinn af mér höfðar að vísu meira til eiginmannsins þar sem hann er fyrir eldri konur. Ég verð bara að finna einhvern annan sem gælir við brjóstin. Jóke! skiljið þið ;-O

laugardagur, nóvember 04, 2006

Dagur 151 - komin heim barm minni

Sit hér með seyðing í brjóstum, aum og með 5 kommu hita. Aðgerðin gekk vonum framar og nú krossar maður putta og biður um það að líkaminn og ónæmiskerfi hans vinni gegn öllum sýklum og árásum vondu frumnanna.

Það fór tæpt kíló af báðum brjóstum. Komst að því að ég fór úr F skál í C skál og ef allt grær vel þá er ég með hin fínustu brjóst og mun svo lengi sem ég fer ekki að fitna aftur ná að versla mér hinar flottustu blússur og peysur.

Manni bregður þó þegar maður lítur niður á barminn og sér að maður er með maga og "þið vitið hvað", brjóstin skyggðu á þetta allt saman.

Mér tókst að halda fráhald og vigta og mæla. Þökk sé þeim Danska þá er þjóðin að gera sér grein fyrir að þarna úti er fólk sem er búið að gera sig sjálft ábyrgt fyrir holdafari sínu og að vigtin sé orðinn jafn eðlilegur hlutur í veskinu þeirra og spegilinn.

Í dag sé ég ekki eftir aðgerðinni en ég verð að sjálfsögðu að sjá til og bíða með hvernig lokaútkoman verður - sú bið er ca. 3 mánuðir.