léttfimmtug

miðvikudagur, maí 18, 2005

480-486 / Vigtun

Það fóru 1.1 kg þennan mánuð. Þyngdartap sl. 16 mánuði er 28.9kg og daman orðin 60.4. Er komin í kjörþyngd og doksi sem ég talaði við í gær taldi að á mínum aldri ætti ég ekki að grennast meir - hrukkur og solleiðis :-).
Bæti kannski á mig einum ávexti til viðbótar á dag og sé til hvernig það fer með mig næsta mánuð.
Nú byrjar alvöru vinnan, að viðhalda þyngdinni og rjúka ekki upp eins og alltaf hefur verið reyndin eftir grenningu í gamla daga.

þriðjudagur, maí 10, 2005

471-479 / Úff

Óóó!!! Þetta er nú meira puðið að vera í fullri vinnu og skóla, sérstaklega núna þegar próf herja á. Var ekki par glöð í íslenskuprófi í gær! Fóstbræður og setningafræði. Það voru óteljandi göt í hausnum á mér og var ég frekar pirruð, á upp 2 poka af Extra gúmmíi og er maginn í samræmi við það í dag - loft og prump, sem ekki sæmir dömu á mínum aldri. Síðasta próf vetrar í kvöld og hausinn líka tómur þar!!! Ég er ekki alveg að fúnkera í því að stafla uppl. í kollinn á mér, ég verð að hafa rök fyrir því sem ég er að lesa - eða á ég kannski að viðurkenna að ég er haldin frestunaráráttu og les ekki nema rétt fyrir prófið og þá lekur ýmislegt í burtu -!!

En þrátt fyrir allt vigta ég og mæli og held mig enn á minni línu hvað varðar matinn - ég borða ekki út af álagi, ég borða ekki af því mér leiðist, ég borða ekki af því ég er stressuð, ég borða ekki af því aðrir vilja að ég borði með þeim, nema ég borða það sem er gott fyrir mig.

Þó svo að prófin verði ekki fullkomin, þá mun ég gleðjast yfir þeirri getu að vinna rúma átta tíma á dag og vera í fullu kvöldnámi og ná 7.5 í heildareinkunn með lágmarksheimanámi.

Ég mun ekki æðrast yfir slitinu á maganum á mér eða því að lærin á mér eru ekki stinn eins og á óspjallaðri fjórtán ára mey. Ég mun horfa í gaupnir mér og láta hugann reika til baka og muna lífsgöngu mína og gleðjast yfir þeim sálarþroska sem ég hef öðlast. Ég gleðst líka yfir þeirri gjöf sem ég gef mér, sem er lausn frá ofáti og neikvæðri sjálfsímynd. Ég horfi í línurnar á andliti mínu og sé sögu sjálfrar mín og finn hvað ég er sátt við lífið, tilveruna og sjálfa mig.

mánudagur, maí 02, 2005

456-470 / Það lifir enn í gömlum glæðum

Ég er enn á lífi og held mig við minn lífstíl eins og hann hefur verið síðustu 15 mánuði, engin breyting þar á.

Mér er að líða vel í mínum létta líkama þrátt fyrir að einhver pestarangi sé að stríða mér og ég að lesa undir próf. Segi ekki að svengdarpúkinn láti mig ekki í friði (hann er á fullu núna), en það er hann vanur að gera þegar ég er eitthvað aum. Ég hef þó lært að borða ekki yfir þessar tilfinningar, hvort heldur sé um álag eða veikindi. Vigta og mæli mínar þrjár máltíðir og ekkert á milli mála.

Í ofanverðu felst frelsi fyrir mig en öllu frelsi fylgir að sjálfsögðu alvara og vinna. Ég þarf að hafa fyrir því að detta ekki ofan í sætindi og ofát eins og í gamla daga. Ég þarf líka að hafa fyrir því að vera ekki um of í eigin vilja.

Ég borða góðan mat og hlakka til næstu máltíðar.