léttfimmtug

mánudagur, febrúar 28, 2005

403-407 / komin heim

Þá er ég komin heim gjörsamlega útkeyrð líkamlega en í sjöunda himni tilfinningalega. Allt gekk upp hjá mér og eina ferðina enn (í þriðju utanlandsferðinni) náði ég að halda mig við mínar vigtuðu og mældu máltíðir. Hótelið sem við vorum á var að vísu með morgunverði, en ekki innan þess ramma sem ég held mig við, og þá kom vanillu skyr.is, G-mjólk, niðursoðinn ananas í eigin safa, hveitikímið að góðum notum.

Ég hafði með mér samlokugrillið og steikti mér þannig hveitikímskökurnar mínar, sem ég nýtti mér í hádegismatinn. Oftast var bara farið á Starbucks og keypt kaffi og nestisboxið dregið upp ásamt vigtinni og dásamlegur hádegisverður snæddur - að sjálfsögðu við augngotur annara neytanda.

Enn og aftur voru það indversku veitingastaðirnir og forvitni þjónanna sem björguðu húmornum, þessar elskur sem ekki skildu hvers vegna tvær grannar konur gátu torgað þetta miklum mat.

Ég fór í mat til ensks vinar míns, dætra hans, kærustu og tveggja vina - og var eldaður fyrir mig matur sem ég gat borðað og allt kvöldið fór í að ræða átfíkn og þetta að hafa stjórn á lífi sínu. Þarna voru vinir í raun sem sáu ekki tilgang í því að ota að mér mat sem ég ekki borða - að sjálfsögðu var smá bresk stríðni í gangi en það var bara fínt.

Á flugvellinum í gærkveldi vorum við næstum búnar að missa af vélinni, þar sem við vorum á síðustu stundu að klára matinn okkar - með þjónana í kringum okkur sem ekki skildu hvað magn þetta var sem við vorum að láta ofan í okkur - smá augngotur svona útundan sér, en ég upplýsti bara viðkomandi að þessar tvær konur væru búnar að missa samtals 79kg.

Keypti mér gallabuxur no 29 og Karen Miller dragt no 40... og bage há stígvél, boli og fleira fallegt handa mér - ekkert handa eiginmanninum nema súkkulaði og rauðvín - og svo falleg föt handa barnabörnunum. Alltof margir peningar sem eyddust af kortinu mínu, en ég var að verðlauna mig góðan árangur síðasta ár.

Á ráðstefnunni hitti maður menn og konur sem eru búin að vigta og mæla í áratugi og allt var þetta mjög grannt fólk, heilsusamlegt í útliti og með innri ró og sátt. Ég allavega fékk mikið út úr því að hitta aðra gsa.is félaga frá mismunandi löndum.

miðvikudagur, febrúar 23, 2005

400-402 / London here I com

Á morgun fer ég til London á helgarráðstefnu kvenna og karla sem hafa náð árangri gegn fitupúkanum, einn dag í einu. Dálítið spennandi að heyra hvernig aðrir hafa farið að og haldið sig í fráhaldi, sumir í tugi ára.

Ég hef verið á haus sl. viku - próf og aftur próf. Tók stöðupróf í hollensku í gær og vonast til að skora 12 einingar með því, fór svo í fyrra hluta prófs í ensku 403 í gærkveldi og var gjörsamlega búin á því - hér áðurfyrr hefði ég sporðrennt miklu af súkkulaði og gúmmulaði til að komast í gegnum þreytuna.

Nú er bara að fara að pakka niður henni vigtoríu minni ásamt backup mat - vera vel plönuð svo maður falli ekki. Er nú búin að vera áður í London og vigta og mælt og ætti þessi ferð ekki að vera neitt öðruvísi eða erfiðari.

Læt heyra í mér þegar ég kem svo til baka á sunnudagskvöld -

sunnudagur, febrúar 20, 2005

398-399 / setti inn uppskriftir

Ég setti inn uppskriftir á MSN grúppuna - sá að vantaði grænmetisrétti og bætti úr.

Vaknaði rétt fyrir níu og dreif mig framúr til að fá mér helgar pönsuna mína, eplið og cappucinoið. Mjög gott að vakna svona hress.

Er að drífa mig úr húsi núna og ætla í ræktina, brennsla og smá lyftingar. Í gær dreif ég mig í rúmlega klukkutíma göngu, en jöfn ganga er víst sögð auka brennsluna og ætla ég að byrja aftur að ganga í hádegishléinu mínu. Svo held ég að sjálfsögðu áfram að mæta þrisvar í viku klukkan rúmlega sex í einkahópþjálfun til að forma skrokkinn smá.

Í gær þegar ég var að ganga þá mundi ég eftir mér og bumbubönum fyrir rúmu ári síðan, þegar ég var að mása og blása á sömu gönguleið og við fórum meðfram sjónum. Ég vil líka deila með ykkur einni reynslu - víðáttufælnin sem hefur hrjáð mig í áratugi, ég bara finn hana ekki. Um daginn fór ég meðfram sjónum í kulda og myrkri og þar hafði ég fengið mega felmtursröskunarkast í nóv. 2003 með bumbubönum sem björguðu mér en um daginn þá bólaði ekki á neinni hræðslu og mín þrammaði þetta áfram ásamt ekta maka. Í gær hinsvegar fór ég ein svona ytri hverfishring og ég tiplaði yfir opin svæði (sem áður fyrr gerðu það að verkum að ég nánast lamaðist) og ekkert gerðist nema djúp ánægja með að ganga og anda að sér fersku loftinu. Getur það verið að ofneysla sykur og annara flókinna kolvetna gjörsamlega trufli taugakerfið??? Ég er ekki alveg að skilja þennan bata sem ég er búin að vera í að undanförnu :-)

Ekki spurning, ég held áfram að vigta og mæla og halda mig frá einföldum kolvetnum sem "fokka" upp systeminu mínu.

Ein að fara í ræktina og lesa undir próf.

föstudagur, febrúar 18, 2005

393-397 / Vigtunardagur

Þá kom að því - 200 gr upp þennan mánuð og daman brosir bara að því. Fegin að vera þannig laus við vigtar þráhyggjuna að ég fari í mínus við smá þyngd, enda bara 63.4kg. Hvort þetta sé útaf líkamsræktinni, eða af því ég nota aðeins meiri canderel í mjólkurvörurnar mínar - ??? Allavega, ég er sátt og borða það sama og ég hef gert síðustu fjórtán mánuði.

Það er nú alltaf þannig að síðustu kílóin eru þau sem seinast fara og geta líka verið þau sem trufla mann best - ég ég er ánægð með að vera 25.9kg léttari en fyrir rúmu ári síðan.

Þá er bara að halda áfram að vigta og mæla og mæta í ræktina og halda áfram að temja hugann.

sunnudagur, febrúar 13, 2005

390-392 / Matarfíkn - sunnudagshugleiðin

Ég er alltaf að skoða og skoða minn innri mann og afhverju ég hegða mér eins og ég geri. Það sem ég á við, afhverju borða ég mér til óhollustu og afskræmingar.!!!??? Er ég á flótta undan einhverju innra með mér, vanmætti, óþægilegri upplifun, óhamingju, ótta eða sjálfseyðileggjandi hvöt? Ég neyðist víst til þess að skoða sjálfa mig vandlega nú þar sem ég er að nálgast kjörþyngd og þar sem lífið virðist blasa við mér úr öllum áttum með gleði, sigrum og góðri framtíðarsýn.

Þegar ég lít til baka og á átvenjur mínar, þá sé ég ekkert nema djúpan sársauka og mikinn flótta frá tilfinningum. Ég sá það ekki þá eða vildi ekki viðurkenna að ofát væri sjúkdómur, sem ekki væri hægt að lækna, en væri hægt að halda í skefjum einn dag í einu. Ég er að berjast við sjúkdóm af andlegum toga, sem kippir í mig stöðugt og reynir að ná mér í gamla farið aftur. Það hvísla raddir bæði í höfðinu á mér og svo viðhafa líka samferðarmenn mínir þessar sömu setningar "þetta ætti nú að vera í lagi", "þú ert orðin grönn", "hvað, máttu ekki bara smá"? - og þarna liggur mín barátta, ekki bara í fyrsta sinn, nei, í þúsundasta skipti. Í þetta skipti þá læt ég ekki eftir, ég hef kosið að verja þeim tíma, sem eftir er af mínu lífi í hamingju og hreysti á nákvæmlega þann máta, sem ég hef fengið að upplifa síðasta ár í fráhaldi.

Matur kemur aldrei til með að fylla mig hamingju. Maturinn er orku- og næringargjafi, sem bera að notast innan skynsamlegra marka. Ég hef lært að ekki dugar að fylla tankinn of mikið því þá flæðir bara útúr, eða eins og hjá okkur mannfólkinu hörund okkar þenst út og kranleikar sækja að manni sökum þess að allt er stíflað og ekkert getur hreyfst. Ofát getur heldur ekki lagað það sem fór miður í fortíð minni, hvort heldur það séu erfið unglingsár (sem ég sjálf átti þátt í að móta), virkur alkahólismi í 10 ár í mikilli sjálfseyðileggingu, sársaukafullt hjónaband til margra ára, barnamissir eða önnur vonbrigði sem ég lenti í. Ofát lagar heldur ekki skapgerðargalla mína, en heilbrigð neysla getur það aftur á móti.

Eftir margar byltur, mörg föll, heilsutap og mjög auma sjálfsmynd þá hef ég komist að því á því rúma ári sem ég hef verið í fráhaldi, að það líf sem ég lifi í dag í grönnum líkama fullum hreysti og í fjarveru þunglyndis og kvíða er sú framtíðarsýn, sem ég vil halda í. Mér hefur verið lofað af þeim sem hafa undan gengið í fráhaldi á mat samfara vinnu í innri manni sínum, að verðlaunin séu hamingja og hreysti - ekki endilega vandamálalaust líf - og ég hef fengið upplifa meira en brotabrot af þeim loforðum.

Ég get bara gert þetta einn dag í einu og safnað öllum þeim dögum saman að leiðarlokum og vonandi get ég þá talið í tugum ára líf í hreysti, innri ró og sátt.

fimmtudagur, febrúar 10, 2005

384-389 / Kem mér á óvart

Ég kem mér virkilega á óvart. Miðað við allt það sem er að gerast í lífi mínu (góðir hlutir NotaBene) þá held ég sönsum og held áfram að vigta og mæla og gera fráhaldið að því mikilvægasta í lífi mínu. Ég held fast í það heilbrigði sem ég hef öðlast síðustu mánuði.

Guð, ég er svo þreytt núna enda búin að vera á fótum síðan kl. sex í morgun. Fór í ræktina og var klipufitumæld : handleggur 10, bak 10, magi 10 sem segir að fitumagn er komið í tæplega 16. Ég er öll að verða sterkari og lyfti þyngri lóðum og er lengur á brettinu. Síðan fór ég í vinnuna, skrifaði undir nýjan ráðningarsamning og hlaut hrós fyrir að vera góður starfskraftur og öðrum til fyrirmyndar hvað varðar breyttan lífstíl, þau góðu orð voru eins og 20.000 króna launahækkun fyrir egóbústið mitt. Ég las Fóstbræðrasögu í laumi á milli þess sem ég sinnti viðskiptavinum mínum og lagði hitt og þetta á minnið og dreif mig síðan í próf - krossa putta núna og vona að ég hafi náð því... kom heim og eldaði og undirbjó morgun- og hádegismat að venju, ætlaði síðan aftur í skólann en fann þá að ég orkaði ekki meiru og ákvað að vera heima.

Er nú að fara að horfa á Amerikan Idol - eða dollu eins og við skötuhjúin köllum Idolið.

Semsagt ég er á fullu í mínu fráhaldi, happy en þreytt.

föstudagur, febrúar 04, 2005

378-383 / Tíminn flýgur

Tíminn flýgur og ég er enn í fráhaldi. Bolludagur sem er framundan freistar mín ekki en ég ætla að njóta Sprengidagsins með því að eta saltað folaldakjöt, rófur, gulrætur og lauk en slepp baununum þar sem þær eru ekki inn í mínum matarseðli.

Ég fæ nóg af góðum mat á hverjum degi, mat sem nærir líkama minn og gerir hann heilbrigðan. Já, heilbrigðan, því ég var útskrifuð úr áhættuþætti fyrir kransæðastíflu, hjartaáfalli og heilablæðingu í dag af lækni sem tók samantekt úr tveimur rannsóknum á árs tíma. Fyrir rúmu ári síðan var ég skar og allt í ólagi, í dag fullkomnlega heilbrigð til líkama og sálar.. og þess vegna mun ég í dag ekki borða það sem kom mér í feitan líkama.

Ég er dottin úr 24% fitumassa í 17% síðan ég fór í Veggsport fyrir áramót, en pundið er aðeins þyngra ;-) og er mér nokk sama því fötin eru lausari. Ég er enn dugleg við að drífa mig framúr kl. 06.15 og koma mér í ræktina þrisvar í viku og svo um hádegi á laugardegi. Elska að hreyfa mig og puða og finna hvernig líkaminn þolir alla þessa hreyfingu. Viðurkenni þó að ég er þreytt á kvöldin og vildi hafa vökutímann aðeins lengri.

Stelpur, haldið áfram í ykkar átaki, ekki gefast upp og óskir ykkar verða uppfylltar.